07.03.1988
Sameinað þing: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5568 í B-deild Alþingistíðinda. (3707)

265. mál, launabætur

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Það var ekki mín ætlan að taka hér aftur til máls, en ástæðan er ræða hæstv. iðnrh. hér áðan. Það er einkennilegt með hæstv. iðnrh. að í hvert skipti sem orkumál ber á góma hér á hv. Alþingi, þá fer hann alltaf í baklás. Við ræddum um orkumál hér fyrir um mánuði síðan einmitt í Sþ. og þá upplýsti ég hæstv. iðnrh. um að það kostaði á bilinu 10–20 þús. á mánuði að kynda upp hús vestur á fjörðum. Þá sagði hæstv. iðnrh.: Þar hljóta menn að vera með gluggalaus hús, kynda bara upp veröldina.

Ég hef nýjustu upplýsingar um það og hef það m.a.s. frá stjórnarformanni Orkubús Vestfjarða og ég hefði viljað beina þeim tilmælum til hæstv. ráðherra að hann slægi nú á símann til flokksbróður síns, stjórnarformannsins í Orkubúi Vestfjarða, og fengi um það upplýsingar hvað það kostaði hann að kynda sitt íbúðarhús yfir janúarmánuð. Það voru 30 þúsund. Og ég sagði: Það kostar lágmarkslaun að kynda íbúðarhús. Ekki að meðaltali, en það kostaði það í þessu tilviki, öll lágmarkslaun hjá láglaunafólki. Þetta eru staðreyndir sem menn hljóta að verða að taka tillit til. Ef menn gera það ekki þá eru menn að leika sér að þeim eldi sem þegar er farinn að brenna í þá átt hér á Reykjavíkursvæðið. Hann stefnir hingað sá eldur sem menn eru nú að skara að ef þeir ætla að taka svona á þessum meginþáttum þessara mála sem fólk býr við. Þá teyma menn eldinn enn frekar á þetta svæði og þá mun hann brenna hér ef þeir höfuðpaurar í stjórnmennskunni ætla ekki að hlusta á varnaðarorð þeirra sem við vandamálin eru að glíma hverju sinni.

Ég held að hæstv. ráðherra og ekki bara hæstv. iðnrh. heldur og aðrir forustumenn í stjórnmálum, ríkisstjórn ættu að kynna sér hvernig þessi mál brenna á íbúum úti á landsbyggðinni, t.d. á Vestfjörðum. Ég held að menn ættu að fara að kynna sér það ef þeir eru ekki betur upplýstir en mér heyrist hæstv. iðnrh. vera í þessum efnum og ætti hann þó að þekkja betur til, maður sem hefur verið þar í vinnu hluta úr sumrum nokkur undangengin ár. Hann hefur ábyggilega heyrt þetta. En hér loka menn bæði augum og eyrum og neita að horfast í augu við staðreyndir.

Það kemur að því fyrr en seinna að stjórnvöld verða að fara að svara þessum spurningum, sinna þessu fólki sem hefur setið eftir. Þetta er auðvitað kjaramál líka. Þetta er ekki síst kjaramál sem hér er um að ræða. Það skipta mig engu máli tölur upp úr bókum. Meginmáli skiptir hvað menn þurfa að tína upp úr buddunni til að borga fyrir þjónustuna. Það verða í þessu tilviki 30 þús. kr. upp úr buddunni hjá stjórnarformanninum. Auðvitað man hann eftir slíku. Það er buddan sem segir til sín hvað sem öllum tölum líður.

Aðeins til viðbótar þessu. Ég sagði áðan að hugrenningar mínar og hv. 1. flm. þessarar þáltill. hefðu legið nokk saman lengi. Ég er nefnilega orðinn þeirrar skoðunar að félagshyggjan, samstaðan og samhjálpin innan verkalýðshreyfingarinnar, allt þetta sé á undanhaldi. Það fjölgar alltaf í þeim hópum sem skara eld að eigin köku. Menn hafa minnkað að hugsa um þann sem verkalýðshreyfingin er í raun og veru stofnuð til þess fyrst og fremst að hugsa um, þann sem má sín minnst. Sú hugsun hefur farið dvínandi að mér finnst og ég sé engin merki þess, því miður, að þar sé að breytast neitt til hins betra. Og það er þessa félagshyggju sem vantar, þessa samstöðu um að styðja við bakið á lítilmagnanum sem á því þarf að halda og mest er um vert að styðja við bakið á. Komi sá stuðningur ekki frá verkalýðshreyfingunni, þá getur hann vart komið annars staðar frá en frá löggjafanum. Þetta er ósköp einfalt mál í mínum huga.

Að síðustu. Ég er ekki sammála hv. 1. þm. Vestf. um að það sé örlítill hópur sem býr við léleg laun á Íslandi. Ég hygg, hv. þm. Einar Kristinn, að hann sé æðistór sá hópur sem býr við léleg laun í landinu. Ég tala nú ekki um að launamisréttið hefur gífurlega aukist á undanförnum árum. Það er meira launamisrétti nú en við höfum búið við lengi og það eykst enn. Og það er ástæða til þess að gefa því gaum undir þessum kringumstæðum að það fer vaxandi. Þeim fjölgar sem eru á lélegu laununum. Þetta hélt ég að hv. 1. þm. Vestf. ætti um að vita glögglega úr sinni heimabyggð. Þar á þetta ekki síst við, og á því landsvæði öllu. Og svo er víðar.