07.03.1988
Sameinað þing: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5569 í B-deild Alþingistíðinda. (3708)

265. mál, launabætur

Guðni Ágústsson:

Herra forseti. Þegar hv. 5. þm. Reykv. auglýsti eftir framsóknarmanni í þessar umræður hafði ég þá þegar sett mig á mælendaskrá. Hér hafa menn talað sig heita í þessum umræðum, nokkurs konar forskot á eldhúsdagsumræður, en menn hafa lítið rætt þáltill. sjálfa og hvort hún sé einhver lausn. Um það skal ég ekki segja á þessari stundu en ég hygg að Alþingi verði að orða og skoða allar þær leiðir sem stöðva það misrétti sem við hefur gengist í landinu um langt skeið. Ég vil á þessu stigi ekki útiloka þessa leið að með lögbindingu verði með einhverjum hætti tryggt að láglaunafólkið verði ekki skilið eftir. Ég vil þó taka undir með hv. 1. þm. Vestf. að sem betur fer sjáum við þess merki alls staðar að íslenska þjóðin er rík og að fjöldinn á Íslandi hefur það gott og hefur haft það gott um langt skeið. En eigi að síður eru margir sem við þurfum að hyggja að.

Við búum við mikinn launamismun. Við búum við launamismun á þessu þingi. Ég hygg að sumir þm. hafi komið ár sinni afskaplega misjafnlega fyrir borð. Fjöldi þeirra mun vera með meðallaun þjóðfélagsins. En þeir eru margir hér eða alla vega nokkrir sem hafa tvöföld laun venjulegs ráðherra. Tvöföld laun venjulegs ráðherra fyrir bitlinga og störf úti í þjóðfélaginu.

Við skulum átta okkur á þeirri staðreynd að það er víða launamismunur og því miður er það sem er að gerast þessa dagana þegar kjarasamningar eru felldir vítt og breitt um land, þá mun það vera landsbyggðin sem er að rísa. Ég er í engum vafa um það. Og hvers vegna rís hún? Hún rís af ýmsum ástæðum. Hún rís og er tilbúin til verkfalla vegna þess að þar hefur fólk þetta 20–40% lægri laun en viðgengst hér. Hún rís líka af hinu sem hér hefur verið nefnt, orkuverðinu. Hún gerir það líka af einni ástæðu enn og það er vöruverðið.

Ég er hér með í höndunum nýlega úttekt sem Tíminn kannaði nú um helgina og þar kemur margt merkilegt í ljós. Með leyfi forseta segir þar:

Fjölskylda sem kemst af með 25 þús. kr. á mánuði til matarinnkaupa í Kjötmiðstöðinni í Garðabæ eða Kostakaupum í Hafnarfirði gæti þurft að borga 30 700 kr. á mánuði eða 368 þús. kr. á ári fyrir jafnmikið af sömu vörum ef hún flytti austur á land. - Hún þyrfti að borga 68 400 kr. meira fyrir matvöruna ef hún byggi austur á Egilsstöðum. Við þurfum ekki að fara svo langt. Við þurfum ekki að fara nema hér yfir litla heiði eða vestur fyrir Hvalfjörð til þess að ná einnig sömu stöðu eða svipaðri. Og það sem er sorglegast í því sem kemur í ljós í þessari úttekt er að þetta fólk verður enn fremur fyrir bragðið að borga á ári hverju af þessari matarkörfu sinni 13 700 kr. meira en fólkið af þessu svæði í ríkissjóð í söluskatt af þessum matvælum. Þetta er það sem við verðum að átta okkur á.

Hér hafa menn talað sig heita, en þeir hafa ekki komið með úrræði. Hver eru úrræðin? Hvaða leiðir á þessi þjóð í dag til þess að verja sig? Hvernig eigum við að verja framleiðsluatvinnuvegi þessa þjóðfélags og samkeppnisatvinnuvegi? Í mínu litla byggðarlagi er nú á stuttum tíma á Hvolsvelli einum búið að leggja niður 100 störf í framleiðslugreinum. Hvers vegna? Vegna þess að gengið er skráð með þessum hætti. Vegna þess að innflutningurinn er slíkur sem raun ber vitni. Vegna þess að útlendingarnir beita kjafti og klóm til þess að koma vöru sinni hér á markað. Hvers vegna er ekki hægt að borga sams konar laun í fiskvinnslunni úti á landbyggðinni eins og hér í þjónustugeiranum? Er það ekki sama sagan? Það er gengisskráningin. Menn hafa gleymt því að gengið er eitt mesta hagstjórnartæki sem lítið ríki á í dag. Kannski eina hagstjórnartækið til þess að stöðva það að það verði raunar útlendingar sem vinni öll störf fyrir þetta þjóðfélag. Á þessu verða menn að átta sig. Og menn verða líka að átta sig á því að landsbyggðinni heldur áfram að blæða ef stjórnvöld hafa ekki þann kjark að taka á þessum vandamálum, ef þau hafa ekki þann kjark að skrá gengi íslensku krónunnar í þágu framleiðslu- og samkeppnisgreinanna á Íslandi.

Ég er sannfærður um það að einn liðurinn í því sem er að gerast í kringum kjarasamningana er í sambandi við hálaunamennina. Við skulum átta okkur á því, ágætu alþm., að með því staðgreiðslukerfi skatta sem nú hefur verið tekið upp, þar sem ein prósenta gengur jafnt yfir, hefur það gerst að Alþingi Íslendinga hefur bætt til muna kjör hálaunamannanna. Ég hygg að þess vegna sé tvennt sem þarf nú að gera. Það er þetta sem ég hef minnst á. Við verðum ekki aðeins að hugsa um það að hækka lægstu launin, og kannski með löggjöf, við verðum líka að binda það fast með löggjöf að menn séu ekki hér á 400, 500 og 600 þús. kr. launum, jafnvel hjá ríkinu sjálfu, hjá sveitarfélögunum, hjá einkageiranum. Við verðum að binda það að þeir fái aldrei hærri laun en forseti lýðveldisins eða forsrh. sjálfur. Hvers vegna gerist það í þessu þjóðfélagi að menn komast upp með það, jafnvel hjá ríkinu, að hafa tvöföld laun forsrh.? Er þetta ekki stjórnleysi? Er þetta ekki siðlaust í sjálfu sér að alls konar menn úti um bæ skuli vera komnir á tvöföld laun forsrh. landsins?

Ég vil hafa það mín lokaorð í þessari umræðu að ég tel þáltill. góðra gjalda verða og vonandi verður hún, miðað við þær undirtektir og þær umræður sem hún hefur vakið hér á hv. Alþingi, til þess að menn vilji í alvöru gera fleira en tala, að menn vilji setjast niður og finna lausnir á því þrúgandi vandamáli sem nú gerir það að verkum að fátækasta fólkið rís upp, að fólkið á landsbyggðinni veit að ef það lætur ekki svipurnar ríða á þessari stundu munu byggðirnar hrynja. Þess vegna falla ekki af hvörmum mínum tár á þessari stundu en ég segi það við ríkisstjórn þessa lands: Ég vænti þess að hún hafi ekki þann hátt á sem því miður hefur einkennt hana í vetur að sitja í hægum stóli og bíða þess að hlutirnir gerist af sjálfu sér, að hún gangi til verksins og leiti lausna á því vandamáli sem nú hefur kallað alþýðu þessa lands til að rísa upp og gera uppreisn gegn þeirri tekjuskiptingu sem á sér stað í þessu þjóðfélagi.