07.03.1988
Sameinað þing: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5576 í B-deild Alþingistíðinda. (3711)

265. mál, launabætur

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Hér hafa farið fram afar athyglisverðar umræður um launamál og í bland höfum við heyrt fjallað nokkuð um efnahagsmál í ljósi nýjustu ráðstafana ríkisstjórnarinnar. Þegar á það heila er litið þá hefur flest það sem hér hefur verið sagt verið mjög málefnalegt og gagnlegt í raun fyrir alla að hlýða á ýmsar þær ræður sem hér hafa verið fluttar. Það er kannski ein undantekning þó, en það heyrðist hér hjáróma rödd hv. 1. þm. Suðurl. í þessum umræðum og varð ræða hans lítt skiljanleg. Eitthvað var talað um að það hefði heyrst ómur af fótataki úr fjarska heildsalans. Ég ætla að láta öðrum eftir að túlka við hvað sé átt með þessu hugtaki. Ég skil það ekki sjálfur.

Þá var helst á hv. þm. að heyra að hér hefðu allir mjög há laun og það væru Reykvíkingar, fólk sem byggi hér á höfuðborgarsvæðinu sem færi í utanlandsferðir og hefði það hér eins og laun þeirra væru eitthvað í líkingu við launakjör ýmissa háttsettra embættismanna hjá Sambandinu sem mikið hafa verið til umræðu á undanförnum dögum. En ég vil minna hv. þm. á það að hér á höfuðborgarsvæðinu er líka að finna stærstu lágtekjuhópa þjóðfélagsins og það er ekki síst að við beinum orðum okkar til þeirra. Með þessari tillögu okkar viljum við koma til móts við þarfir lágtekjuhópanna sem hér eru ekkert síður en að við viljum taka á vandamálum lágtekjufólks um allt land.

Launajöfnuður hefur alltaf verið með minna móti á Íslandi. Sérstaklega á árunum eftir stríð gátum við verið stoltir yfir því að mismunur á launum sem hér voru við lýði í landinu var fremur lítill í samanburði við það sem gerðist meðal nágrannaþjóða okkar. Því miður hefur mjög sigið á ógæfuhliðina undanfarin ár þannig að nú á allra síðustu árum og missirum verður vart við gífurlegan launamismun sem ekki hvað síst hefur komið fram í dagsljósið vegna afar einkennilegrar umræðu sem hefur farið fram um launakjör háttsettra embættismanna Sambandsins eins og öllum er kunnugt.

Ég held að við eigum að taka okkur tak og reyna að snúa dæminu við, komast aftur til fyrra ástands eins og var hér fyrir 10, 15, 20 árum. Þá var mismunur á launum ekki svo ýkja mikill meðal launþega á Íslandi. Við skárum okkur úr í þessu tilliti í samanburði við önnur nágrannalönd okkar og gátum verið stoltir yfir þessu. Annað mál er svo að þjóðartekjur Íslendinga eru mjög háar, þjóðartekjur á Íslandi eru með þeim allra hæstu sem fyrirfinnast í heiminum í dag. Þess vegna kemur margt einkennilegt í ljós þegar við berum saman launatekjur fyrir dagvinnu eins og þær þekkjast á Íslandi við sambærilegar tekjur í nágrannalöndum okkar. Þá kemur í ljós að launatekjur fyrir dagvinnulaun ein sér í nágrannalöndum okkar eru miklum, miklum mun hærri en sambærilegar tekjur á Íslandi þrátt fyrir það að þjóðartekjur í þessum löndum, reiknaðar út á hvert mannsbarn, séu mjög sambærilegar eða jafnvel lægri. Það er eitthvað meira en lítið að í íslensku efnahagslífi að svona skuli vera. Íslenskt efnahagslíf hefur lagað sig að lágum launum og kemst ekki upp úr þeim farvegi, á sama hátt og efnahagslífið í nágrannalöndunum hefur lagað sig að miklu hærri dagvinnulaunum. Þar virðast málin ganga bærilega þó að vissu leyti sé við ýmis vandamál að glíma í efnahagslífinu eins og annars staðar. Ég er hins vegar sannfærður um það að efnahagslíf Íslendinga gæti mætavel aðlagast mun hærri dagvinnulaunum en gerist meðal þjóðarinnar í dag. Hins vegar gengur mjög illa að fá fram nokkrar breytingar. Eins og hér hefur komið fram áður í umræðunum þá hefur þrátt fyrir 70 ára þrotlausa baráttu verkalýðshreyfingarinnar hvorki gengið eða rekið að fá lægstu launin hækkuð þannig að þau séu í nokkru samræmi við það sem framfærslukostnaður einstaklinga og fjölskyldna er í landinu.

Það að setja lágmarkslaun eða öllu heldur lögbinda lágmarkslaun, eins og þm. Kvennalistans hafa haldið hér fram bæði í þessum umræðum og reyndar oft áður á Alþingi, er í mínum huga ekki lausn, einfaldlega vegna þess að þá gerist nákvæmlega það sama og alltaf hefur gerst í öllum kjarasamningum á Íslandi að þó það sé einlægur ásetningur þeirra sem stýra kjaramálum að gera nú betur fyrir lágtekjufólkið og láta það njóta góðs af þeim kjarasamningum sem verið er að gera, þá skulu slíkar kjarabætur ævinlega halda upp allan launastigann. Þegar liðnir eru nokkrir mánuðir frá því að slíkir kjarasamningar hafa verið gerðir, þá er allt við hið sama, lágtekjufólkið situr eftir með verri laun en áður og þeir sem hafa miklu hærri tekjur hafa fengið jafngóðar og hlutfallslega betri launabætur. Það að lögbinda lágmarkslaun breytir hér engu um. Það gerist nákvæmlega það sama að þegar liðinn er nokkur tími frá því að slík lágmarkslaun hafa verið lögbundin, þá er svipuð hækkun komin upp allan launastigann. Verðbólgan í landinu stillir sig þá inn á lögbundin lægstu lágmarkslaun og allt situr við hið sama: þeir sem hafa þessi lögboðnu lágmarkslaun eru jafnilla settir og þeir voru fyrir.

Þessi till., sem hv. 16. þm. Reykv. er fyrsti flm. að, till. um launabætur og að hækka persónuafslátt til að skattleysismörk launþega fari upp í 55 þús. kr., er eina raunhæfa tillagan sem ég hef séð í langan tíma til að reyna að leysa þetta vandamál að það sé hægt að lagfæra laun lágtekjuhópanna án þess að það skili sér upp allan launastigann. Hér er einfaldlega verið að tala um, eins og reyndar kom fram í máli hv. 1. þm. Vestf., neikvæðan tekjuskatt. Það hefur oft verið talað um að það sé hugsanlega leið að grípa til þess að greiða út neikvæðan tekjuskatt. Hér er þetta gert á mjög skýran og einfaldan hátt sem allir ættu að geta skilið. Það að það sé óæskilegt að grípa til þess að greiða út neikvæðan tekjuskatt eða eins og hér er rætt um, að greiða launþegum þann hluta persónuafsláttar sem þeir hafa ekki getað nýtt sér. sé ekki góð lausn, þ.e. að ríkið eigi ekki að grípa á þann hátt inn í launakjör launþega, er að mínu viti rangt vegna þess að þeir launþegar sem ekki hafa getað nýtt persónuafsláttinn að fullu eiga eftir sem áður fullan rétt á því að fá þennan persónuafslátt alveg eins og hinir sem hafa hærri launin geta nýtt persónuafslátt sinn að fullu. Þeir sem ekki geta nýtt persónuafsláttinn vegna þess að þeir hafa það lág laun fyrir, þeir eiga að sjálfsögðu heimtingu á því og allan rétt á því að fá persónuafsláttinn að fullu reiknaðan sér til tekna alveg eins og þeir sem hafa hærri launin geta nýtt sér persónuafsláttinn.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Ég vil aðeins þakka fyrir þær umræður sem hafa farið fram um þessa till. til þál. Það er auðheyrt að sá áhugi sem hefur verið meðal þm. á því að ræða um launakjör og þau vandamál sem eru nú í þjóðfélaginu varðandi launakjör hinna lægst launuðu styður okkur í þeirri trú að við þm. Borgarafi. séum að gera hér rétt.

Að lokum vil ég síðan taka undir með hv. 11. þm. Reykn. sem var hér í ræðustóli á undan mér, þar sem hann bendir réttilega á að enn er mikið góðæri á Íslandi. Mikill sjávarafli er fyrir hendi, það fæst gott verð fyrir hann á öllum útflutningsmörkuðum og olíuverð fer nú lækkandi. Þetta góðæri er hins vegar sú máttlausa ríkisstjórn sem nú situr við völd að eyðileggja með því að hún ratar ekki á rétta leið í efnahagsmálunum. Ríkisstjórnin reynir hins vegar að telja almenningi trú um að svo sé ekki með því að láta birta þjóðhagsspár sem mála hlutina mjög dökkum litum. Virðist sem þetta eigi að réttlæta það fyrir launafólki að það verði enn á ný að axla byrðarnar og sætta sig við dagvinnulaun langt undir framfærslukostnaði. Þetta fólk á hins vegar mjög litla sök á hinum gífurlega viðskiptahalla sem nú hrjáir þjóðarbúskapinn og væri nær að hæstv. ríkisstjórn færi að beina spjótum sínum að því vandamáli en léti okkur eftir að koma með raunhæfar tillögur og lausnir á vanda láglaunafólksins.

Annars má líka taka undir með hv. 7. þm. Reykv. þegar maður lítur hér yfir þingsalinn. Hæstv. ríkisstjórnin er nánast flúin af hólmi og væri þá e.t.v. einfaldast að mynda nýja ríkisstjórn með þeim þm. sem eftir eru.