08.03.1988
Neðri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5586 í B-deild Alþingistíðinda. (3723)

299. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Flm. (Vilhjálmur Egilsson):

Herra forseti. Meginefni þessa frv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem ég mæli hér fyrir, er að útlán í helstu lánaflokkum í Byggingarsjóði ríkisins skiptist í sama hlutfalli milli kjördæma og greitt er í lífeyrissjóði. Ég tel að þessi breyting sé nauðsynleg í ljósi þeirra miklu fjármagnsflutninga frá landsbyggðinni sem orðið hafa í skjóli húsnæðislánakerfisins. Enn fremur eru í frv. ákvæði um að Byggingarsjóð ríkisins megi varðveita í öðrum lánastofnunum en Seðlabanka Íslands, að fyrirtækið geti sótt um almenn húsnæðislán til byggingar leiguíbúða fyrir starfsfólk sitt, að auðvelda byggingu almennra leiguíbúða fyrir aldraða og að heimila að breyta kjörum á óhagstæðum eldri húsnæðislánum til samræmis við núverandi kjör.

Mikil gagnrýni hefur komið fram á húsnæðislánakerfið frá íbúum landsbyggðarinnar. Þessi gagnrýni hefur fyrst og fremst beinst að hinum mikla tilflutningi á fjármagni frá landsbyggðinni sem orðið hefur í gegnum þetta kerfi. Staðreyndin er sú að til Reykjavíkur fóru 48,2% af úthlutuðu fjármagni úr Byggingarsjóði ríkisins á þeim tíma sem úthlutað var á árunum 1986 og 1987, en til kjördæmanna utan Reykjavíkur og Reykjaness fóru 26,5% af úthlutuðu fjármagni. Þessi hlutföll verður að bera saman við hversu stór hluti af greiðslum landsmanna í lífeyrissjóði verður til í Reykjavík annars vegar og á landsbyggðinni hins vegar. Reikna má með að 37,2% af þeim fjárhæðum sem greiddar eru til lífeyrissjóða komi frá Reykjavík en 38,4% komi frá kjördæmunum utan Reykjavíkur og Reykjaness. Þannig hefur mun stærra hlutfall af úthlutunum Byggingarsjóðs ríkisins farið til Reykjavíkur en svarar til greiðslna í lífeyrissjóði og mun minna farið til landsbyggðarinnar en svarar til framlags hennar til þeirra sjóða. Reiknað í krónum er þessi mismunur um 1 milljarður sem Reykjavík hefur fengið meira í úthlutanir en samsvarar greiðslum í lífeyrissjóði. Reykjanes stendur á sléttu og önnur kjördæmi hafa því lagt höfuðborginni þessa peninga til.

Fjármagnsflutningurinn frá einstökum kjördæmum er þannig að frá Vesturlandi hafa farið 125 millj. kr., frá Vestfjörðum hafa farið 132 millj. kr., frá Norðurlandi v. hafa farið 177 millj. kr., frá Norðurl. e. hafa farið 237 millj. kr., frá Austurlandi hafa farið 180 millj. kr. og frá Suðurlandi 204 millj. kr.

Þessi tilflutningur á fjármagni, sem er vissulega mjög alvarlegur, var alls ekki með ásetningi gerður þegar lögin um Húsnæðisstofnun voru samþykkt í kjölfar febrúarsamninganna 1986. Mér er fullkunnugt um þau mál þar sem ég átti sæti í þeirri nefnd er samdi lagafrv. í kjölfar febrúarsamninganna. Þá bjuggust menn við því að útlán mundu skiptast nokkuð eðlilega milli kjördæma og ekki væri þörf á því að gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja einhverja tiltekna réttláta skiptingu. Hins vegar hefur það komið í ljós eftir að nýja lánakerfið var farið í gang að þessar vonir hafa því miður gjörsamlega brugðist. Þess vegna verður að gera ráðstafanir í hátt við þær sem hér er lagt til. Það eina sem farið er fram á er að íbúar landsbyggðarinnar fái sjálfir að nýta það fjármagn sem þeir skapa með framlögum sínum í lífeyrissjóði. Ef enginn Byggingarsjóður ríkisins væri til og þessi mál alfarið í höndum lífeyrissjóðanna sjálfra, eins og mörgum þykir skynsamlegast, væri þetta vandamál ekki til staðar. Þá væri landsbyggðin ekki að missa neitt frá sér. En við sitjum uppi með þetta kerfi og það hefur möguleika til þess að vera til nokkurrar frambúðar ef rétt er á málum haldið.

Nokkuð hefur verið talað um að skipting úttána milli kjördæma eins og lagt er til í frv, gagnist ekki því að fólk vilji ekki byggja á landsbyggðinni. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Margt fólk vill byggja á landsbyggðinni og samkvæmt úttekt, sem gerð var á áformum rúmlega 5000 umsækjenda hjá Byggingarsjóði, voru rúmlega 1600 þeirra af landsbyggðinni og af þeim ætluðu um 80% að byggja eða kaupa á landsbyggðinni.

Með þessu frv. er ekki verið að leggja til neina átthagafjötra á fólk heldur er verið að leggja til að fólk á landsbyggðinni fái að nota sína eigin peninga sjálft. Þetta er fólk sem að meginhluta trúir á framtíðina í sinni heimabyggð og er tilbúið til að fjárfesta þar í íbúðarhúsnæði.

Ég ætla ekki að rökstyðja þetta mál með því að það vinni gegn þenslu á höfuðborgarsvæðinu. Ég sé í sjálfu sér engum ofsjónum yfir því að Reykvíkingum gangi vel. Mestu máli skiptir að uppgangurinn hér í höfuðborginni sem annars staðar hvíli á traustum grunni og hann gerir það ekki meðan húsnæðislánakerfið virkar sem tæki til að flytja peninga frá landsbyggðinni. Slíkt fær einfaldlega ekki staðist. Það er réttlætismál að sjá til þess að það fólk sem skapar fjármagnið fái að njóta ávaxtanna af því.

Önnur gagnrýni sem fram hefur komið á húsnæðislánakerfið og reyndar á margt annað í peningalegum raðstöfunum opinberra aðila er sú tilhneiging að varðveita sem flesta sjóði í Seðlabanka Íslands. Þetta er að ýmsu leyti óheppilegt og ætti að gefa meiri gaum að því að ávaxta fé í almennum lánastofnunum. Þetta á e.t.v. ekki síst við um Byggingarsjóð ríkisins þar sem reiknað er með því að 500 millj. kr. verði í sjóði þar um næstu áramót. Ekki er óeðlilegt að þetta fé sé varðveitt sem næst þeim stöðum þar sem þess er aflað. Þess vegna er lagt til að Byggingarsjóð megi ávaxta í fleiri peningastofnunum en Seðlabanka Íslands.

Fyrirtæki á landsbyggðinni standa oft frammi fyrir því að þurfa að ráða til sín nýtt starfsfólk sem þarf að flytja á viðkomandi stað. Þrátt fyrir alla umræðuna um að fólk sé að flytja frá landsbyggðinni er staðreyndin hins vegar oft sú að húsnæðisskortur er víða tilfinnanlegt vandamál, sérstaklega skortur á leiguhúsnæði. Þess vegna hafa mörg fyrirtæki á landsbyggðinni fjárfest í íbúðarhúsnæði sem þau leigja starfsfólki yfirleitt um skemmri tíma meðan fólk er að koma sér fyrir. Ástæða er til þess að auðvelda fyrirtækjum að komast yfir íbúðir í þessu skyni.

Hæstv. félmrh. hefur nú lagt fram frv. um kaupleigu sem rætt var hér um daginn. Kaupleiguíbúðir munu vissulega gagnast ýmsum fyrirtækjum en ég tel að það sé ekki nóg. Kaupleiguformið kallar á visst kerfi og getur orðið þungt í vöfum nema fólk búi í kaupleiguíbúðunum um lengri tíma. Það er oft sem fyrirtæki þurfa að ráða fólk með stuttum fyrirvara og geta því ekki farið í gegnum allan þann umsóknarferil sem fylgir kaupleiguíbúðunum. Kaupleiguíbúðir henta líklega fyrst og fremst fólki sem þegar er komið á viðkomandi staði og hefur tekið ákvörðun um að setjast þar að um nokkurra ára skeið. Þær henta hins vegar ekki jafn vel því fólki sem ræður sig fyrst í nokkra mánuði. Þess vegna er nauðsynlegt að fyrirtæki geti byggt leiguíbúðir með almennum húsnæðislánum og leigt starfsfólki sínu um skemmri tíma þar sem sveigjanleiki er mikill í samningum og öllu fyrirkomulagi. Flest fólk sem flytur út á land á nýja staði þarf ekki slíkt leiguhús næði nema í sex mánuði til tvö ár. Þá er það búið að ákveða hvort það vill ílengjast á viðkomandi stað og búið að komast yfir eigið húsnæði ef það ætlar sér að vera til frambúðar.

Þá eru í þessu frv. tvö tiltektarmál sem ég tel rétt að tekið sé á. Hið fyrra er að þeir sem byggja almennar leiguíbúðir fyrir aldraða eigi kost á hámarksláni. Ég reikna ekki með því að margir byggi slíkar íbúðir, en ef svo skyldi vera þykir mér rétt að þessi heimild sé til staðar. Seinna tiltektarmálið er að þeir sem hafa tekið lán á óhagstæðari kjörum en nú gilda eigi rétt á því að fá kjörunum breytt til samræmis við nýju kjörin. Hér hef ég fyrst og fremst þá í huga sem á sínum tíma tóku að hluta verðtryggð lán þar sem 2/3 lánsins voru verðtryggð með 9,5% raunvöxtum en hinn hlutinn var óverðtryggður. Nú hefur komið á daginn að þessi lánskjör hafa reynst þyngri en þau kjör sem boðin eru nú, þar sem eru 3,5% vextir ofan á fulla verðtryggingu. Því þykir mér rétt að komið sé til móts við þetta fólk.

Hæstv. félmrh. hefur boðað nefndarskipan til þess að endurskoða húsnæðislöggjöfina í heild sinni. Þetta frv. sem hér er flutt er að sjálfsögðu innlegg í það starf, en ég tel samt sem áður rétt að hreyfa hér þeim atriðum sem í frv. eru þar sem nauðsynlegt er að þau fái sérstaka athygli hv. þm. Það er slíkt hagsmunamál fyrir íbúa landsbyggðarinnar að stöðva fjármagnsflutningana að það verður að taka sérstaklega á því máli. Nefnd félmrh. hefur enn ekki hafið störf og mér sýnist á öllu að árangurs af starfi hennar sér fyrst að vænta næsta haust og breytinganna á lögunum fyrst um næstu áramót. Ég vil því biðja hv. þm. að íhuga vel hvort ekki sé þörf skjótari viðbragða við þeim vanda sem við er að glíma og hvort ekki sé rétt að breyta lögunum með þeim hætti sem hér er lagt til meðan nefndin er að vinna upp sínar tillögur um frambúðarlausn.

Nú nýlega hefur aftur hafist úthlutun lánsloforða hjá Húsnæðisstofnun. Þessi loforð eru í öðru formi en áður. Ekki er tilgreindur sá tími sem lánið kemur til útborgunar, heldur er sagt að umsækjandi verði látinn vita þegar um ár er í lánið. Ég tel að það þurfi því að bregðast skjótt við í þessum málum vegna þess að það má ekki gerast að annar milljarður kr. til viðbótar flytjist frá landsbyggðinni með því fé sem nú er verið að úthluta.

Herra forseti. Byggðamál og byggðastefna hafa mjög verið í brennidepli á undanförnum árum. Stjórnvöld hafa gert ýmsar aðgerðir til þess að rétta af hag landsbyggðarinnar og byggja upp atvinnulíf þar, en í þessum aðgerðum hefur iðulega ekki verið gætt að því að atvinnulífið á landsbyggðinni og hinar dreifðu byggðir hefðu skilyrði til þess að standa á eigin fótum. Þar kemur margt til, svo sem gengismál, innstreymi af erlendu lánsfé og fleiri þættir sem hægt væri að hafa um langt mál en eiga ekki beint heima í umræðu um það frv. sem hér liggur fyrir.

Með hinu nýja húsnæðislánakerfi hefur hins vegar gerst slys sem þarf að bregðast við. Þetta slys er í því fólgið að lánin hafa runnið í mun ríkari mæli til Reykjavíkur en svarar til greiðslna í lífeyrissjóði í því kjördæmi og munar þar um 1 milljarði kr. Ekkert er hægt að gera við þá peninga sem búið er nú þegar að lofa einstaklingum úr Byggingarsjóði ríkisins. En það er ákaflega mikilvægt hagsmunamál fyrir landsbyggðina og hreint réttlætismál að slysið endurtaki sig ekki með því fé sem nú er verið að úthluta. Því er nauðsynlegt að bregðast skjótt við og afstýra næsta slysi. Í því skyni er þetta frv. flutt. Ég vona að hv. þm. séu sammála mér um nauðsyn málsins og hversu brýnt það er.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.