08.03.1988
Neðri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5596 í B-deild Alþingistíðinda. (3728)

299. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Flm. (Vilhjálmur Egilsson):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls og tekið undir þetta mál með mér. Ég held að þetta sé mikið þarfamál. Ástæðan fyrir því að það þyrfti helst að skoða þessi mál fljótt er sú að þessa dagana er verið að úthluta úr Byggingarsjóði ríkisins eftir að sjóðnum hafði verið lokað. Og eftir að einu sinni er búið að úthluta er ákaflega erfitt að taka úthlutanirnar til baka. Þess vegna er svo brýnt að hefjast handa við það að stokka þetta allt saman upp. Ef ekkert er að gert t.d. í upphafi næsta árs gæti það þýtt að það væri búið að ráðstafa öllum peningum Byggingarsjóðs ríkisins kannski fram á árið 1990 eða jafnvel 1991 og þá er dálítið seint af stað farið. Þetta er meginatriðið.

Varðandi þá tæknilegu örðugleika sem felast í því að meta skiptingu Á milli kjördæma, hverju hvert kjördæmi ætti í raun og veru rétt á miðað við það sem það hefur lagt til í lífeyrissjóðina, þá sýnist mér vera langskynsamlegast að miða við launagreiðslur eftir kjördæmum. Sumir lífeyrissjóðir sem starfa eru landssjóðir og aðrir starfa á kjördæmagrundvelli eða yfir stærri svæði og sumir eru mjög staðbundnir. En ég held að besta leiðin til að finna út hvað greitt er úr hverju kjördæmi í lífeyrissjóði sé einfaldlega að miða við heildarlaunagreiðslur og skiptingu þeirra í þessu sambandi.

Ég er sannfærður um að ef á að bæta úr þeirri þörf sem er fyrir leiguhúsnæði úti á landsbyggðinni mundu menn ná mestum árangri með því að gefa fyrirtækjum kost á að taka almenn húsnæðismálastjórnarlán. Í þeim tilfellum þar sem fyrirtæki leigja starfsfólki sínu íbúðirnar, fólki sem er að flytjast að, er í flestum tilfellum um mjög lága leigu að ræða, í raun og veru niðurgreidda leigu eða jafnvel hlunnindi. Ég held að þetta gerist af sjálfu sér og muni laga mikið til í húsnæðismálunum úti á landi ef þetta verður að veruleika.

Herra forseti. Ég vil síðan endurtaka þakkir mínar fyrir þær undirtektir sem þetta hefur fengið og ég vona að hv. nefnd bretti upp ermarnar og afgreiði þetta mál sem fyrst.