08.03.1988
Neðri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5604 í B-deild Alþingistíðinda. (3737)

323. mál, búnaðarmálasjóður

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli nú fyrir þriðja máli af fjórum sem eru Á dagskrá hv, deildar í dag og virðist hafa verið þörf á að koma hér með allnokkur mál, enda hafði einn gamansamur vinur minn á orði þegar hann heyrði að ég hefði komið með sex mál inn á hv. Alþingi sem varamaður að honum hefði komið í hug kvæði Þorsteins Erlingssonar um Jörund hundadagakonung þar sem segir: „Þú komst þegar Fróni reið allra mest á.“ (Gripið fram í: Þetta var góð samlíking.) Já, en ég vík nú að málinu í fullri alvöru.

Það frv. sem ég mæli fyrir til laga er um breyt. á l. nr. 40 7. maí 1982, um búnaðarmálasjóð. Það er miðað við það í lagasetningu þessari að landbrh. sé heimilt að ákveða samkvæmt tillögu búgreinasambands að innheimta gjald af afurðum viðkomandi búgreinar til þess að standa straum af starfsemi sem búgreinasamböndum er nauðsynlegt að reka. Það er miðað við að búgreinasamband, sem hefur heimild til að njóta þessa, hafi viðurkenningu samkvæmt lögum nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, eða sé aðili að Stéttarsambandi bænda og það er lagt til að innheimta verði heimil á allt að 1% gjaldi af afurðunum hjá viðkomandi búgrein.

Á síðustu árum hefur fjölbreytni aukist í félagsmálum og starfi bænda þar eð nýjar búgreinar hafa fest rætur og um þær hefur verið stofnaður félagsskapur; í kjölfar þessa hefur einnig verið stofnaður félagsskapur um hinar hefðbundnu búgreinar hverja um sig. Með lögum frá 1985, búvörulögunum, fengu þessar nýju greinar viðurkenningu löggjafans þar sem þeim var ætluð bein aðild að Stéttarsambandi bænda, en það hefur hins vegar háð starfsemi í þessum greinum að þær hafa ekki fastan tekjustofn til starfsemi sinnar. Það er út í hött að ætla búgreinafélögunum hlutverk, en engan fjárhagsgrundvöll. Nefna má Félag hrossabænda sem dæmi. Þeir þurfa nú að leigja flugvélar til þess að flytja út reiðhross, en hafa engan tryggan fjárhagslegan grundvöll að baki þessum áhættusama útflutningi og þó getur þessi útflutningur velt 60–80 millj. kr. á ári. Annað dæmi um misrétti í garð þeirra sem þessa búgrein stunda er að 25% söluskattur var settur á hrossakjöt og er það eina kjöttegundin á markaðnum sem fékk þann skatt á sig af fullum þunga og er það auðvitað með öllu óviðunandi miðað við stöðu annarra búgreina.

Það er því fyrst og fremst markmið þessara laga að skapa grundvöll og tekjur til reksturs á búgreinasamböndunum sem eru að ryðja sér braut í okkar samfélagi.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 40/1982 skulu árlegar tekjur búnaðarmálasjóðs skiptast að jöfnu milli búnaðarsambandanna annars vegar og Stéttarsambands bænda hins vegar. Tekið er fram að Búnaðarfélag Íslands skipti á milli búnaðarsambanda því fé er fellur í hlut þeirra með hliðsjón af áætluðu framleiðslumagni héraðanna af gjaldskyldum vörum og leigu. Sá rammi, sem lögin setja um til hvaða verkefna hin tilgreindu samtök verja þeim hluta tekna af gjaldinu sem kemur í þeirra hluta, er mjög rúmur.

Skilyrðið um að gjaldinu sé varið til verkefna „er þau hafa með höndum“ verður ekki skilið svo þröngt að það heimili ekki Stéttarsambandi bænda að láta gjaldið eða hluta þess renna til búgreinasambanda sem önnuðust verkefni sem annars kæmu í hlut Stéttarsambands bænda. Stéttarsamband bænda getur því að óbreyttum lögum ráðstafað hluta tekna af búnaðarmálasjóðsgjaldi til búgreinasambanda sem starfsfé. - Og þetta er leið.

Það er lagt til að heimilað verði með lögum að innheimta allt að 1% gjald til viðbótar núverandi búnaðarmálasjóðsgjaldi sem ýmist er 0,25% eða 0,50% eftir framleiðslugreinum. Þó viðurkenna beri þörf búgreinasambandanna fyrir tekjur til að standa straum af kostnaði við starfsemi sína er full ástæða til þess að leiða hugann að því hversu hátt hlutfall af verði búvöru skuli innheimt sem gjald til félagsmála bænda. Menn keppast um að ræða leiðir til að draga úr framleiðslukostnaði búvara en búnaðarmálasjóðsgjaldið kemur beint til frádráttar á hlut bóndans í afurðaverðinu en verð vörunnar má ekki hækka vegna gjaldsins. - Þetta eru meginlínurnar. - Með tilkomu búgreinasambandanna ætti að öllu eðlilegu að vera hægt að draga úr verkefnum Stéttarsambandsins. Það má því spyrja hvort ekki væri hugsanlegt að taka innheimtu búnaðarmálasjóðsgjaldsins í heild til endurskoðunar og huga svo að breyttri skiptingu gjaldsins og e.t.v. heimild til að hækka það. Hugsanlegt væri að fara þá leið í lögum að hafa heimild fyrir ráðherra til að ákveða um gjaldið mishátt eftir búgreinum að fengnum tillögum bændasamtakanna.

Varðandi starfsfé búgreinasambandanna er einnig rétt að vekja athygli á 3. mgr. 25. gr. laga nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, en þar er Framleiðsluráði landbúnaðarins heimilað að fengnu samþykki ráðherra að láta hluta af svokölluðu framleiðsluráðsgjaldi renna til samtaka framleiðenda í viðkomandi búgrein enda annist þau samtök sambærileg verkefni og Framleiðsluráði eru ætluð í lögunum vegna búgreinarinnar. Umrætt gjald má að hámarki vera 0,25% af heildsöluverði búvara, þ.e. greiðist af kaupanda vörunnar.

Ef velt er upp hvaða búgreinasambönd eigi að njóta gjaldsins má nefna að í lögunum er nauðsynlegt að ákvarða þau skilyrði sem búgreinasamband verður að uppfylla til að það geti fengið slíkt gjald innheimt. Í þessu efni koma einkum þrjár leiðir til greina:

Að hafa í lögunum sjálfstæð efnisleg skilyrði sem búgreinasamband þarf að uppfylla til að falla undir ákvæði laganna.

Að leggja til grundvallar skilyrði og/eða viðurkenningu samkvæmt öðrum lagaákvæðum eða af þriðja aðila.

Að hafa í lögunum engin önnur skilyrði en ráðherra ákveði hvað sé búgreinasamband í þessu sambandi og veiti því þessa heimild.

Almennt er ekki hægt að mæla með því að síðasta leiðin sé farin því að þar væri framsal löggjafarvaldsins komið út á hálan ís meðal annars með tilliti til hagsmuna gjaldendanna. En það eru reyndar ýmis atriði tengd hagsmunum gjaldendanna sem þarf að gæta að þegar ákvæði um slíka gjaldheimtu eru sett í lög. Eru það atriði eins og réttur gjaldenda til inngöngu í það félag sem gjaldsins nýtur og til þátttöku í ákvörðunum á vettvangi þeirra. Þá er óhjákvæmilegt að gera þá kröfu að aðild framleiðenda í viðkomandi grein að félaginu sé almenn og reyndar hefur þess nokkuð gætt í hliðstæðum tilvikum að slík innheimta væri bundin við félög þar sem um skylduaðild er að ræða. Viss lágmarksskilyrði verður því að setja fyrir því að búgreinasambönd geti notið slíkrar innheimtu.

Með setningu laga nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara var landbúnaðarráðherra veitt heimild sbr. 2. mgr. 4. gr., að fengnu samþykki Stéttarsambands bænda, til að viðurkenna einstök landssamtök framleiðenda búvara til að fara með fyrirsvar vegna framleiðenda í viðkomandi grein við gerð samninga skv. a-lið 30. gr. og aðrar ákvarðanir samkvæmt lögunum. Slík viðurkenning er þó ekki í öllum tilvikum lagaskilyrði fyrir aðild búgreinasambands að ákvörðunum samkvæmt lögunum. Í greinargerð með 2. gr. þess frumvarps sem síðar urðu lög nr. 46/1985 segir m.a. um viðurkenningu búgreinasambandanna, með leyfi forseta:

„Gengið er út frá því að aðeins verði viðurkennd ein samtök búvöruframleiðenda í hverri framleiðslugrein og verði það landssamtök, sem allir framleiðendur í viðkomandi grein eiga sama rétt til þátttöku í. Samtökin þurfa að hafa innan sinna vébanda a.m.k. fullan helming framleiðenda í viðkomandi búgrein, enda hafi þeir samsvarandi hlutdeild í framleiðslu hennar.“

Aðalfundur Stéttarsambands bænda hefur samþykkt reglur um aðild búgreinasambanda að Stéttarsambandinu og segir þar að forsendur slíkrar aðildar séu:

1. Að búgreinasambandið sé landssamtök opið öllum framleiðendum í viðkomandi búgrein og með jafnan félagsrétt.

2. Að stjórn Stéttarsambands bænda samþykki samþykktir viðkomandi búgreinasambands.

3. Að aðeins eitt búgreinasamband sé viðurkennt í hverri framleiðslugrein.

4. Að hvert búgreinasamband kjósi á aðalfundi sínum fulltrúa á aðalfund Stéttarsambands bænda. Samkvæmt framansögðu er ljóst að um tvenns konar viðurkenningar á búgreinasamböndum getur orðið að ræða. Almenna reglan verður sennilega sú að þessi sambönd eigi aðild að Stéttarsambandinu, einhver þeirra fái einnig viðurkenningu ráðherra og í einstaka tilvikum kunna sambönd að vera utan Stéttarsambandsins og afla sér viðurkenningar ráðherra. Til stuðnings þessu má benda á þau réttaráhrif sem viðurkenning ráðherra skv. 2. mgr. 4. gr. l. nr. 46/1985 hefur fyrir samböndin og Stéttarsambandið. Greinilegast er þetta þegar samtök sauðfjárbænda og mjólkurframleiðenda eiga í hlut. Verði þessi samtök viðurkennd af ráðherra taka þau við umboði Stéttarsambandsins til samningagerðar um heildarframleiðslumagn búvara, sbr. a-lið 30. gr. Það er því alls ekki víst að öll búgreinasamböndin kæri sig um að fá viðurkenningu ráðherra eða það verði talin heppileg skipan mála. En eins og búvörulögin standa í dag, þá er ætlast til þess að búgreinasamböndin skili hlutverki en hafa ekki trygga möguleika á því að skapa sér tekjustofn og það er grundvallaratriðið með setningu þessara laga.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.