02.11.1987
Neðri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

54. mál, útflutningsleyfi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hygg að það hafi komið í ljós m.a. í svörum hæstv. utanrrh. að engin vanþörf er í sjálfu sér á að ræða þetta mál og fá ýmsum spurningum, sem óhjákvæmilega vakna í tengslum við þessa breytingu, svarað.

Ég tek fram til þess að menn misskilji ekki orð mín að ég er ekki talsmaður þess að allt eigi að vera óbreytt og ekki sé sjálfsagt að skoða og kanna á hverjum tíma hvernig við getum staðið sem best að okkar útflutningsstarfsemi og utanríkisviðskiptum, en ég tel að rökin fyrir þessari breytingu þurfi að vera nokkuð sterk vegna þess að það eru stór álitamál jafnframt í tengslum við þetta og ég tel að þessu geti líka fylgt óhagræði.

Ég tek sérstaklega fram að það er hægt að hugsa sér margs konar samstarf viðskrn. eða utanríkisviðskiptaráðuneytis og utanríkisþjónustu og utanrrn., enda hefur svo verið og er hjá öðrum löndum, en það er fremur sjaldgæft og þess eru fremur fá dæmi að þetta sé á einni og sömu hendinni án einhverrar verkaskiptingar. Þó svo utanríkisviðskiptaráðherrann sé í mjög nánu samstarfi við utanrrn., jafnvel starfi innan veggja þess ráðuneytis, er hann sjálfstæður ráðherra í ríkisstjórn og kemur fram sem slíkur, fer með þau mál og er fullmektugur aðili að ríkisstjórn í samskiptum við aðrar þjóðir. Það er líka ljóst, og kom ágætlega fram í máli hæstv. utanrrh., að samstarfið hefur verið með ágætum milli viðskrn. og utanrrn. og jafnframt milli ýmissa aðila á sviði utanríkisviðskiptanna og utanríkisþjónustunnar.

Mér fannst hæstv. utanrrh. svara því heldur stuttaralega og jaðraði við útúrsnúning þegar ég var að reisa spurninguna um hvort það sé ekki ljóst að stundum fari ekki vel saman viðskiptahagsmunir og stefna í utanríkismálum og tök á þeim efnum hins vegar. Ég hef heyrt þá efasemd hjá mjög mörgum reyndum mönnum á sviði utanríkisviðskipta að það séu veigamikil rök gegn þessari breytingu að því geti fylgt ótvíræðir kostir að sá aðili sem fer með yfirstjórn viðskiptamálanna sé sjálfstæður og óháður þeim efnistökum, þeirri stefnu sem rekin er í hinu pólitíska utanrrn. á hverjum tíma. Það er eðli sínu samkvæmt þannig að þegar viðskrh. sinnir sínum verkefnum liggur það miklu nær hinum faglega grundvelli og tengist meira praktískum hliðum málanna en þegar pólitískt kjörinn utanrrh. vinnur í krafti markaðrar pólitískrar stefnu ríkisstjórnar. Þetta ættu allir að skilja og er óþarfi að láta það villa sér sýn þó að ég taki tiltekin dæmi af samningum við sovétmenn um saltsíld. Ég hefði getað tekið mörg dæmi og vitnaði reyndar til þess að við þekkjum ákveðna hlið á þessum málum í samskiptum okkar við hitt stórveldið, Bandaríkin.

Hæstv. utanrrh. taldi sig hafa átt viðræður við fjölda málsmetandi einstaklinga á þessu sviði og þeir hefðu yfirleitt verið þessu meðmæltir. Nú get ég að sjálfsögðu lítt sagt gegn slíkum rökum þar sem ég hef ekkert í höndum og ekkert nema orð hæstv. utanrrh. fyrir því að hann hafi rætt þetta við fjöldamarga einstaklinga. Ég er ekki að gera lítið úr því né vefengja að þar hafi verið tekið jákvætt undir þessi mál. En ég hefði talið mjög farsælt með hliðsjón af fyrri afstöðu hinna stóru hagsmunaaðila í útflutningsviðskiptunum að eitthvað annað hefði legið á borðinu um þeirra afstöðu en algerlega neikvætt álit fjögurra ára gamalt. Ég verð að segja alveg eins og er að þegar maður les þessa samþykkt þeirra stóru aðila sem stunda útflutning á sjávarvörum staldrar maður við, herra forseti, og ég afgreiði það ekki jafnlétt og hæstv. utanrrh., einfaldlega með því að þessir stóru, SÍS og SH, vilji helst hafa sitt eigið ráðuneyti og vera bara sjálfstæðir.

Það er ekki af neinni sérstakri samúð eða inngróinni tilhneigingu hjá mér til að tala hagsmunum þessara aðila sem ég reisi spurningar í þessum efnum. Ég er hér fyrst og fremst að fjalla um viðskiptahagsmuni íslensku þjóðarinnar í víðu samhengi. En menn komast ekkert fram hjá þeim aðilum sem flytja út 70, 80, 90%, ég vil segja 99% af sjávarvörum frá Íslandi eins og þeir aðilar gera sem hér rita undir. Það er svo yfirgnæfandi meiri hluti útflutnings sjávarvörunnar sem fer um hendur þessara aðila að það er ekki hægt, held ég, að afgreiða álit þeirra með einni setningu. Frá þessum stofnunum liggur ekkert annað formlega fyrir en fullkomlega neikvætt álit fjögurra ára gamalt. Þess vegna tel ég alveg óhjákvæmilegt, herra forseti, að rækilega verði kannað í meðförum þingnefndar hvort einhver breyting hefur orðið á afstöðu þessara aðila. Ég verð að segja alveg eins og er að það munu renna á þann sem hér talar tvær grímur ef þar er enn um óbreytta afstöðu að ræða. Þar er á ferðinni fjöregg okkar sem ekki er hægt að leika sér mikið með.

Ég gæti út af fyrir sig haft um það langt mál að fullkomin rök væru fyrir því, ef menn telja núverandi skipulag ekki nógu gott, að stofna þá frekar sjálfstætt utanríkisviðskiptaráðuneyti. Ég held að það sé öðru eins til kostað í íslensku þjóðfélagi eins og því þó að við settum á fót sértakt ráðuneyti sem sérhæfði sig í þessum viðskiptum. Hér er um svo gífurlega ríka hagsmuni fyrir íslenska þjóð að ræða, sem er háðari útflutningi og innflutningi en nokkur önnur þjóð í heiminum sem við þekkjum til, að menn hljóta að spyrja í fullri alvöru þeirrar spurningar: Er þá ekki nær að fela þessi viðskipti sérstöku ráðuneyti sem, eins og kom fram í máli hæstv. utanrrh., nema næstum helmingi af þjóðartekjum Íslendinga?

Hvað varðar samskipti okkar við Evrópubandalagið, þá er það vissulega rétt að við þurfum að efla okkar starfsemi í Brussel til að geta fylgst þar með málunum. Ég tek það fram að hinir stóru, eins og hæstv. utanrrh. kallar þá, eru sjálfir daglega í því að fylgjast með þessum málum. Á þeim brennur eldurinn. Ég hygg að það sé einnig í þessu efni rétt að taka mið af því hvað þeir með sinni vitneskju telja skynsamlegast. Ég bendi á að þegar upp hófust á sl. sumri umræður um stefnu Efnahagsbandalagsins í tollamálum, hvernig markviss stefna Efnahagsbandalagsins í tollamálum miðar að því að auka útflutning af óunnum fiski frá Íslandi til Efnahagsbandalagsins. Hvaðan bárust okkur upplýsingar um þá hluti? Hverjir höfðu forgöngu um að koma því á framfæri? Það voru útflutningsaðilarnir. Mér barst t.d. í hendur trúnaðarskýrsla, sem þessum snillingum hafði með einhverjum hætti tekist að komast yfir í stöðvum Efnahagsbandalagsins, þar sem þessi tollastefna var útlistuð. Sú skýrsla kom ekki í mínar hendur, herra forseti, frá utanrrn. né viðskrn. né sendiráðinu í Brussel. Hún kom frá Sölusambandi ísi. fiskframleiðenda. Þannig eru margar hliðar á þessu máli.

Það var ekkert minnst á í máli hæstv. utanrrh. kostnaðarhlið í þessu sambandi. Nú er það ekki svo að við eigum að horfa í krónuna, hvort þetta fyrirkomulag kemur til með að kosta okkur eitthvað meira en það sem við lýði hefur verið. Það getur verið fyllilega réttlætanlegt, en við hljótum að spyrja um árangur í samhengi við útgjöldin. Mér sýnist alveg ljóst að ný deild með yfirmönnum og starfsliði í utanrrn., þó að það valdi einhverjum samdrætti í viðskrn. á móti, muni koma til með að þýða vissa aukningu útgjalda. Þá er einnig nauðsynlegt að spyrja um árangur. Hefði t.d. verið hugsanlegt að ná meiri árangri með minni tilkostnaði, með einhvers konar aukinni sérhæfingu innan veggja viðskrn. eða er þá kannski orðinn lítill munur á útgjaldaaukanum og þótt stofnað hefði verið sjálfstætt ráðuneyti utanríkisviðskipta? Þetta væri fróðlegt að fá að heyra eitthvað um. Eins, herra forseti, hefði verið fróðlegt að fá að heyra álit hæstv. viðskrh. sem hér hefur setið og hlýtt á umræður.

Mér fannst hæstv. utanrrh. svara því stuttaralega hvernig þetta kæmi út í sambandi við samstarf okkar við hin EFTA-löndin. Hann sagði reyndar að hann hefði ekki kynnt sér það sérstaklega hvernig þessum málum væri fyrir komið hjá öðrum EFTA-ríkjum, en það er kannski ástæða til að fara aðeins ofan í saumana á því vegna þess að við Íslendingar stöndum að ýmsu leyti á vegamótum í okkar málum hvað þessa hluti varðar.

Sá sem hér talar telur að úr því sem komið er sé okkur langfarsælast að hafa sem best og mest samstarf við hin EFTA-ríkin og reyna í þeim félagsskap að hafa okkar sambúð við Efnahagsbandalag Evrópu sem farsælasta og okkar tök á utanríkis- og viðskiptamálum að öðru leyti, en fara varlega í þeim efnum að auka beint samstarf og bein samskipti okkar við Efnahagsbandalagið. Þess vegna held ég að við þurfum sérstaklega að horfa til þess, þegar við erum að ræða breytingar á skipulagsmálum utanríkisviðskipta, hvernig það snertir samstarf okkar við önnur EFTA-lönd og hvort það er til bóta einnig varðandi samskiptin almennt við aðra aðila.