09.03.1988
Efri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5618 í B-deild Alþingistíðinda. (3751)

Iðgjaldahækkanir bifreiðatrygginga

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Á síðasta kjörtímabili voru í tengslum við kjarasamninga gerðar sérstakar aðgerðir til að auðvelda launafólki bílakaup. Þessar aðgerðir voru illa undirbúnar sem kom í ljós þegar hin mikla umferð, sem varð árangur þeirra, fór að reyna á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins og víðar. Ein af afleiðingum aukinna bílakaupa er t.d. Þeir valda tjóni og vitanlega þarf að tryggja þeim sem slasast réttlátar bætur. Ég minnist þess hins vegar að þegar kvartað var við hæstv. þáv. fjmrh. á síðasta kjörtímabili, ég man ekki nákvæmlega hvaða ár það var, yfir því að iðgjöld bifreiðatrygginga hefðu hækkað. Þá skrifaði tryggingastærðfræðingur, Þórir Bergsson heitinn, grein í Morgunblaðið þar sem hann hneykslaðist á skilningsleysi þeirra alþm. sem höfðu tjáð sig í þeirri umræðu. Hann sagði að þeir skildu einmitt ekki að það væri nauðsynlegt að hækka iðgjöldin til þess að þeir sem slösuðust fengju nægilega háar bætur. En þá er mér spurn: Hér eru afar mörg tryggingafélög í þessu landi. Maður verður mjög lítið var við samkeppni þeirra á milli um viðskiptavini því að þau bjóða öll meira og minna sömu tegund af tryggingu, bifreiðatryggingu, gegn mjög svipuðu ef ekki sama iðgjaldi. Þá er spurning mín: Hvers vegna er svona lítil samkeppni milli allra þessara tryggingafélaga? Og önnur spurning er sú: Eru þessi tryggingafélög almennt ekki það vel stæð, fá þau ekki iðgjöld fyrir aðrar tegundir trygginga en bifreiðatryggingar til að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á betra? Hvers vegna er ekki meiri samkeppni á milli þeirra? Auðvitað viljum við öll að þeir sem slasast og eiga rétt á bótum fái eðlilegar og réttlátar bætur. Það er nauðsyn. En hvers vegna geta þessi mörgu tryggingafélög ekki boðið viðskiptavinum sínum betur? Þetta er spurning mín til hæstv. ráðherra.