09.03.1988
Efri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5619 í B-deild Alþingistíðinda. (3753)

Iðgjaldahækkanir bifreiðatrygginga

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er margt sem kemur upp í hugann í þessari umræðu sem hér fer fram utan dagskrár um tryggingarnar og ég ætla að leyfa mér að nefna nokkra þætti sem mér finnst óhjákvæmilegt að íhuga.

Það er þá í fyrsta lagi hlutur almenningssamgangna. Fyrir fáeinum missirum samþykktum við hér á Alþingi samhljóða till. til þál. um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Því miður hygg ég að athafnir á grundvelli þeirrar samþykktar hafi ekki verið miklar, og ég held að óhjákvæmilegt sé að gera sér grein fyrir því að vaxandi einkabílismi eykur hættuna á því að iðgjöld verði að hækka vegna aukinnar slysatíðni. Það að stuðla að bættum almenningssamgöngum er þess vegna liður í því að draga úr kostnaði við umferðina og sérstaklega tjón í umferðinni.

Í öðru lagi vil ég benda á það í þessu sambandi, herra forseti, að það munu vera starfandi hér um átta bílatryggingafélög og það er alveg ljóst eftir upplýsingum sem ég hef fengið m.a. frá Tryggingaeftirlitinu og frá tryggingafélögunum að rekstrarkostnaður þessara félaga er mjög misjafn og sem hlutfall af heildargjöldum fer hann vaxandi í öfugu hlutfalli við stærð félaganna. Minnsta félagið er með langmestan rekstrarkostnað.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá samstarfsnefnd bifreiðatryggingafélaganna er gert ráð fyrir því að heildarrekstrarkostnaður tryggingafélaganna á þessu ári í þessari grein trygginganna verði 457 millj. kr. Heildarrekstrarkostnaðurinn á móti tjónabótum sem eru áætlaðar alls upp á 1103 millj. kr. miðað við gömlu umferðarlögin.

Síðan gerist það með samþykkt Alþingis að um verður að ræða talsverðar nýjar skyldur sem þarna verður að taka tillit til, þannig að heildariðgjaldaþörfin reynist ekki vera 1600–1700 millj. kr. eins og hæstv. iðnrh. gat hér réttilega um áðan, heldur er um að ræða, þegar allt er talið, að meðtöldum breytingum vegna nýrra umferðarlaga, upphæð í kringum 2000 millj. kr., þar af sem sagt 457 millj. kr. vegna rekstrarkostnaðar tryggingafélaganna við þessa grein. Og það er auðvitað alveg rétt sem hæstv. landbrh. sagði hér áðan að það er ekki hægt, og reyndar er það bannað í tryggingalögum, að flytja hagnað úr einni tryggingagrein yfir til annarrar af eðlilegum ástæðum sem ekki þarf að rekja.

Þriðji þátturinn sem ég vek athygli á er sá að á undanförnum árum hafa tryggingafélögin verið að taka inn í iðgjöldin hjá sér stórhækkaðar örorku- og dánarbætur á grundvelli hæstaréttardóms sem kveðinn var upp 1984 um þessi efni og breytti í raun og veru mjög verulega kostnaðarsamsetningu tryggingafélaganna frá því sem áður hafði verið.

Fjórði þátturinn sem ég vil vekja hér athygli á, herra forseti, í framhaldi af ræðu hv. 7. þm. Reykn., er sá þáttur að þegar hann ber saman tryggingaiðgjöld á milli Íslands og annarra landa er nauðsynlegt að hafa það í huga að hér er lagður söluskattur á endanlegu iðgjaldatöluna, 25% eða svo. Þessum málum er auðvitað öðruvísi háttað t.d. í Danmörku. Hér er í raun um að ræða tvísköttun að þessu leyti því að bæði er söluskattur tekinn af kostnaði við viðgerðir og lagfæringar á bílum og líka af hinu endanlega tryggingariðgjaldi, þannig að í tryggingariðgjöldunum er í raun og veru uppsafnaður söluskattur svo að ég nefni hugtak sem þm. þekkja úr öðru samhengi undanfarinna daga.

Það er alveg ljóst að sú hækkun sem nú hefur orðið hjá tryggingafélögunum er mjög tilfinnanleg. Hún er mjög tilfinnanleg og mjög alvarleg og það er nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að gera allt sem hægt er til þess að ná þessum kostnaði niður. Í þeim efnum bendi ég fyrst og fremst á það að stuðlað verði að betra samstarfi tryggingafélaganna og sameiningu að því er varðar tiltekinn hluta þessa þáttar í okkar þjóðarbúskap, ef svo mætti að orði kveða. Ég held að það eigi líka að taka það til athugunar hvort ekki á að taka hluta af þessum mikla kostnaði inn í verði á bensíni. Það er alveg ljóst að þeim mun meira sem menn aka, þeim mun meiri hætta er á því að tjón verði og þegar um er að ræða mjög lítinn akstur er hættan þar af leiðandi minni. Ég bendi á að við seljum hér á ári um 160 millj. lítra af bensíni og mér finnst hugsanlegt að taka þannig á þessum málum að hluti af þeim kostnaði sem hér er um að ræða, sem er óhjákvæmilegur í okkar þjóðfélagi sem byggir á bílum að svo miklu leyti, hluti af þessum kostnaði verði tekinn inn í bensínverðinu.

Þessa fimm þætti, herra forseti, þ.e. í fyrsta lagi almenningssamgöngur, í öðru lagi tryggingafélögin og rekstrarkostnað þeirra, í þriðja lagi örorku- og dánarbæturnar og breytingu á þeim, í fjórða lagi söluskattinn og í fimmta lagi spurninguna um það að taka eitthvað af þessu inn í bensínverðinu, þetta vildi ég nefna hér í þessari umræðu, sem er þörf og óhjákvæmileg á þingi einmitt við þær aðstæður sem nú eru þegar fólk er að fá þessar ofboðslegu kröfur frá tryggingafélögunum vegna bílatrygginganna.