02.11.1987
Neðri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

54. mál, útflutningsleyfi

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir að það er að mörgu leyti nauðsynleg ráðstöfun sem hér er verið að gera. Það er verið að flytja utanríkisviðskipti frá viðskrn. yfir í utanrrn. Ég vona að þessi tilflutningur takist eins vel og stefnt er að. Það má segja að við séum hörmulega langt á eftir tímanum í okkar utanríkisviðskiptum með öll þau höft og bönn sem hafa verið og gert það að verkum, má segja, að Háskóli Íslands hefur menntað viðskiptafræðinga í langan tíma til að flytja inn í staðinn fyrir að auka útflutning frá Íslandi til annarra landa, en það er það sem þjóðirnar lifa á, samskipti við önnur lönd. Í okkar litla samfélagi, sem telur um 250 þús. íbúa skulum við segja, hafa öll stærstu lönd veraldar verslunarfulltrúa. Það er ekki til að græða stórfé heldur til að selja eitthvað pínulítið til allra landa og þegar þessi pínulitla pöntun kemur frá mörgum löndum í einu inn í heimalandið verður það að stóriðnaði sem gefur heima fyrir bæði mikla atvinnu og þjóðinni tekjur.

Því miður hefur farið svo að í því landi sem ég þekki kannski best til og þar sem ég á vini sem stjórna stórmörkuðum, sem telja á annað þúsund í Evrópu, var ekki eitt einasta íslenskt vörumerki, ekki ein einasta íslensk framleiðsluvara á boðstólum fyrir 3–4 árum þegar ég kynnti mér það síðast. Ekki ein vara. En það er skýring á því. Hún kemur kannski fram í þessu frv. í 1. gr. Með leyfi forseta ætla ég að lesa það upp. Þar stendur:

„Utanríkisráðuneytinu er heimilt að ákveða að ekki megi bjóða, selja né flytja vörur til útlanda nema að fengnu leyfi. Útflutningsleyfið getur ráðuneytið bundið skilyrðum sem nauðsynlegt þykir. Útflytjendur eru skyldir að veita ráðuneytinu þær upplýsingar sem það óskar um allt er varðar sölu og útflutning vara sem seljast eiga til útlanda.“

Í þessari grein koma fram slík skilyrði að það er ekki hægt að gera nokkurn skapaðan hlut nema með leyfi ráðuneyta. Það er algert ófrelsi í öllu sem heitir athafnir á sviði verslunar þegar til útflutnings kemur, en það er alveg frjálst ef til innflutnings er stofnað.

Hér getur ráðuneytið ákveðið að heimila. Það er eins og að í prinsippinu sé allt frjálst en það er alrangt vegna þess að ráðuneytin notfæra sér seinni hlutann af 1. gr. þar sem þau setja á útflutningsbann nema með sérstökum leyfum. Það tel ég alvarlegt.

Síðan er seinni málsgreinin að útflytjendur eru skyldugir til að veita ráðuneytinu allar þær upplýsingar sem beðið er um. Það er ekkert tekið fram um að þetta skuli vera trúnaðarmál. Ég hef sjálfur lent í því að vera með góð tilboð í íslenskar afurðir erlendis frá sem ég hef lagt fyrir ráðuneyti og annað fyrirtæki hefur tekið það upp við sömu aðila sem voru mjög miklir vinir mínir erlendis, í Frakklandi. Ég fæ svo upphringingu frá þessum vinum mínum þar sem þeir tilkynna mér að annar íslenskur aðili hafi fylgt eftir upplýsingum sem ég lét ráðuneyti í té. Svona vinnubrögð ganga ekki og ég ætla að beina því til þeirrar nefndar sem tekur þetta mál til athugunar að þar verði breyting á og að ráðuneytinu verði gert að skyldu að fara með allar upplýsingar sem algjört trúnaðarmál á milli þeirra sem þær gefa og ráðuneytisins. Það verði alveg útilokað að upplýsingar, sem einn gefur ráðuneytinu vegna lagaskyldu, fari í hendur á öðrum sem noti þær síðan.

Það er með 3. gr. eins og svo margt annað, ekkert er talað um hvaða viðurlög á að leggja á það opinbera ef það misnotar upplýsingar sem það fær frá einstaklingum, en hér eru þungar sektir, þungur dómur, á þá einstaklinga sem brjóta gegn kerfinu. Þessu á að breyta og þetta á að athuga miklu betur en það virðist ekki hafa verið skoðað eins og það liggur fyrir á þskj. 56.

Ég tek hins vegar undir þessa breytingu sem á að verða. Ég held að þessi tilflutningur sé þegar orðinn, þetta frv. sé til staðfestingar því sem þegar er búið að gera, að flytja utanríkisviðskipti frá viðskrn. yfir í utanrrn., og við förum að þjálfa menn sérstaklega til þess að gæta hagsmuna Íslands á viðskiptasviðinu því á því lifum við, að framleiða, selja og kaupa inn. Á því lifum við en ekki á því að lyfta glösum og fylgjast með alþjóðasamtökum á viðkomandi stöðum. Okkar utanríkisþjónusta er að þessu leytinu til úrelt fyrir löngu síðan.

Ég er ekki alveg sammála hv. 4. þm. Norðurl. e. um að það skorti rök fyrir þessum tilflutningi. Rökin hafa verið mikið í fréttum undanfarið. Það er ekki langt síðan — aðeins nokkrir dagar, ég fylgdist með fréttum — hin hefðbundna sendinefnd í síldarsölu til Sovétríkjanna var að ræða við yfirmenn þessara mála í Sovétríkjunum, í Moskvu. Við fengum ítrekað, dag eftir dag, ógnvekjandi fréttir um að engir samningar mundu takast. Og hér var kvíði um land allt. Skyndilega birtist hæstv. utanrrh. á skerminum eins og „superman“. Hann hafði talað við sendiherrann, undirmann þeirra sem sendinefndin var að tala við í Moskvu, og hótað honum því að önnur viðskipti þjóðanna gætu verið í hættu ef þeir ekki semdu og það eins og skot. Og niðurstaðan varð sú að þjóðinni létti. Það var eins og allir vörpuðu af sér þungu hlassi því að allt í einu var sendiherrann að fyrirskipan utanrrh. okkar að auka við magnið frá því síðast var keypt og hækka verðið um 11%. Ég held að þetta séu alveg nóg rök til þess að færa eina litla viðskiptadeild frá einu ráðuneyti til annars ef árangurinn verður í framhaldinu sá sami. Þetta eru góð rök fyrir frv. og ætti enginn maður að láta sér detta í hug að bregða fæti fyrir þessa breytingu.

Ég vek athygli aftur á því sem ég tel nauðsynlegt að breyta. Það er orðalagið á 1. gr. Ég vil að útflutningur sé frjáls nema ef utanrrn. eða kerfið svokallaða sér ástæðu til þess að hefta hann. Ég vil líka að allar upplýsingar sem ráðuneytið kann að fá frá væntanlegum útflytjendum séu algjört trúnaðarmál. Og ég vil líka fá í 3. gr. viðurlög, sekt á það opinbera ef það brýtur þann trúnað við einstaklinginn sem getur orðið til þess að sá sem hefur viðskiptin í sínum höndum, sá sem útvegar viðskiptin, verði fyrir tjóni vegna þess að hann gaf upplýsingar til hins opinbera. Það verður líka að verja einstaklinginn. Það er ekki allan tímann hægt að vera að verja þetta blessaða kerfi.

Virðulegur forseti. Ég held ég segi ekki meira um málið að þessu sinni.