10.03.1988
Sameinað þing: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5637 í B-deild Alþingistíðinda. (3766)

262. mál, könnun á búrekstraraðstöðu

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 561 er fsp. um könnun á búrekstraraðstöðu. Hv. fyrirspyrjandi, 2. þm. Austurl., las hér upp bókun sem gerð var samhliða búvörusamningi landbrh. og Stéttarsambands bænda, dags. 20. mars 1987. Samkvæmt henni er það framkvæmdanefnd búvörusamninga sem fer með það mál eins og önnur sem framkvæmd samningsins varðar. En í þessari nefnd eru tveir fulltrúar frá Stéttarsambandi bænda, einn frá landbrn. og einn frá fjmrn.

Að ósk framkvæmdanefndarinnar tók Jón Viðar Jónmundsson, ráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands, saman greinargerð um framkvæmd þessa samningsatriðis, en hann hefur veitt verkum þessum forstöðu frá upphafi. Eftirfarandi upplýsingar eru m.a. fengnar úr greinargerð hans.

Á vegum Ræktunarfélags Norðurlands var unnin búrekstrarkönnun á árinu 1986. Úrvinnslu vegna þessa verkefnis var lokið snemma á árinu 1987. Bent skal á að mikið af þeim upplýsingum sem þar voru notaðar eru þegar tiltækar í ýmsum upplýsingaskrám á vegum Framleiðsluráðs og Búnaðarfélags Íslands. Á þessu svæði voru 1407 bújarðir sem könnunin náði til. Heildarkostnaður á vegum Ræktunarfélagsins vegna þessa verks mun hafa orðið um 670 þús. kr. Framleiðnisjóður landbúnaðarins veitti styrk til verksins auk fleiri aðila.

Búnaðarsamband Vestfjarða hefur látið vinna hliðstæða könnun, einnig með nokkrum tilstyrk Framleiðnisjóðs. Það verk var unnið haustið 1986 og vorið 1987. Bújarðir á því svæði sem könnunin náði til töldust vera 229.

Búnaðarsamband Austurlands kaus aðra leið, en það fól Byggðastofnun að gera úttekt á búrekstraraðstöðu og yfirlit yfir atvinnu- og búsetumöguleika í þremur ystu hreppum á Héraði. Verk þetta vann Kristján Magnússon á Vopnafirði og gaf Byggðastofnun út skýrslu um niðurstöður hans í september sl.

Á það skal bent að sumir þættir þessara kannana hafa verið unnir á ódýran hátt þannig að óvíst er hvort aðrir aðilar muni framkvæma hliðstætt verk með jafnhagkvæmum hætti. Traust staðþekking starfsmanna áðurnefndra búnaðarsambanda hefur átt mestan þátt í þessu. Það er af fleiri ástæðum mikilvægt að heimamenn hafi forustu í könnun sem þessari. Af hálfu landbrn. hefur því verið lögð áhersla á að svo væri. Hefur ráðuneytið hvatt önnur búnaðarsambönd til þess að ljúka búrekstrarkönnun á sínum starfssvæðum með þeim hætti sem gert hefur verið á Norðurlandi og Vestfjörðum og mun veita stuðning til þess. En bæði er það, eins og fram kemur í þessari grein frá Jóni Viðari Jónmundssyni, að það er ákaflega erfitt fyrir aðra en þá sem eru nokkuð staðbundnir í sveitunum að vinna þetta og einnig er það miklu dýrara þar sem þá nýttist ekki sú staðbundna þekking þannig að samvinna við búnaðarsambönd á viðkomandi svæði er bráðnauðsynleg. Við þau hefur verið haft samband þar sem þetta verk hefur ekki þegar verið unnið og vonast er til þess að með samvinnu við þau verði hægt að ljúka þessu verki.