10.03.1988
Sameinað þing: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5639 í B-deild Alþingistíðinda. (3768)

334. mál, jarðakaup

Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Daníelsdóttir):

Herra forseti. Í fjárlögum fyrir árið 1988 eru ætlaðar 15 millj. kr. í Jarðasjóð. Þar er um nokkra hækkun að ræða frá árinu 1987, en þó er þetta mjög lág tala og ekki hægt að kaupa margar jarðir fyrir þessa upphæð. Því ber ég fram þær spurningar sem er á þskj. 663.

Í vissum tilfellum tel ég jákvætt að ríkissjóður verji nokkurri upphæð til jarðakaupa. Ég nefni hér tvær ástæður. Önnur er sú að fólk sem býr á mjög rýrum jörðum þar sem ekki er um nein hlunnindi að ræða, svo sem veiði eða sérstaka náttúrufegurð, hefur eins og hinir stærri bændur orðið fyrir skerðingu varðandi fullvirðisrétt, þannig að hann er sums staðar orðinn það lítill að ekki er hægt fyrir venjulega fjölskyldu að lifa af búinu. Því stendur þetta fólk í raun uppi eignalaust því jarðir þess eru illseljanlegar. Því er það mikilvægt fyrir ábúendur þessara jarða að ríkissjóður kaupi þær þannig að þeir eigi möguleika á að koma undir sig fótum á öðrum stöðum.

Hin ástæðan er sú að oft skapast erfiðleikar þar sem eigendur að jörðum eru orðnir margir vegna erfða. Ef einn erfinginn hefur hug á að nýta jörðina á einn eða annan hátt verður hann að leita leyfis hjá mörgum ættingjum og er það ekki alltaf auðsótt mál.

Ég álít að landnýting yrði betri ef ríkissjóður keypti jarðirnar ef þess er óskað þegar ábúendur bregða búi. Þá getur sá sem vill nýta jörðina sótt um það til ríkisvaldsins.