10.03.1988
Sameinað þing: 58. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5639 í B-deild Alþingistíðinda. (3769)

334. mál, jarðakaup

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Vesturl. hefur mælt hér fyrir fsp. um jarðakaup og Jarðasjóð ríkisins. Hann skal starfrækja við jarðadeild landbrn. Hlutverk sjóðsins er að aðstoða sveitarfélög og bændur við eigendaskipti að jörðum og stuðla að því með lánveitingum og framlögum að búseta á jörðum og nýting lands verði í sem mestu samræmi við hagsmuni viðkomandi sveitarfélags.

Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda hefur Jarðasjóður verið efldur nú á fjárlögum þessa árs þar sem lagðar eru til hans 16 millj. kr. en á fjárlögum 1987 voru það aðeins 4 millj. kr. Á árunum 1984 –1987 að báðum árum meðtöldum hafa fimm jarðir verið keyptar af Jarðasjóði og er skipting milli áranna þannig að á árinu 1984–1985 voru engar jarðir keyptar, 1986 ein jörð og 1987 fjórar jarðir. Þar af voru tvær í Fjallahreppi.

Þriðja spurningin er: Hversu margar jarðir er áætlað að kaupa á þessu ári? Að sjálfsögðu er grundvöllur að jarðakaupum Jarðasjóðs umsókn þar að lútandi frá viðkomandi jarðareigendum. Engin slík umsókn liggur fyrir óafgreidd hjá Jarðasjóði á þessu ári. Þar af leiðandi hefur ekki verið gerð nein áætlun um jarðakaup nú í upphafi árs enda er það að sjálfsögðu ekki hlutverk Jarðasjóðs að eignast jarðir, heldur, eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, að leysa úr vanda þar sem um slíkan er að ræða.

En að sjálfsögðu liggja á Jarðasjóði kvaðir um greiðslur vegna kaupa á fyrri árum og einnig annarrar starfsemi sjóðsins sem lögin kveða á um og hann hefur verið notaður til á síðustu árum og einnig verður gert og þegar hefur verið gert á þessu ári. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að það er að sjálfsögðu mjög nauðsynlegt að leysa úr vanda einstakra jarðeigenda sem ekki geta losnað við jarðir sínar á annan hátt. En í lögum um Jarðasjóð eru heimildir til að kaupa jarðir sem svo er ástatt um, eins og greinir á eftirfarandi hátt, ef sveitarstjórn hefur hafnað forkaupsrétti:

1. Jarðir sem ekki seljast með eðlilegum hætti, en eigandi þeirra verður að hætta búskap vegna aldurs eða vanheilsu.

2. Jarðir sem hafa óhagstæð búskaparskilyrði.

3. Jarðir sem ekki njóta framlaga og lána sem veitt eru til umbóta á lögbýlum.

4. Jarðir sem eru afskekktar og liggja illa við samgöngum.

5. Jarðir sem eigendur hafa ekki tök á að sitja lengur vegna áhvílandi skulda, enda sitji seljendur jarðarinnar áfram.

6. Jarðir sem hreppsnefndir hafa hafnað forkaupsrétti á, en jarðanefnd viðkomandi sýslu mælir með að Jarðasjóður kaupi.

7. Jarðir sem hlunnindi eða önnur sérstök verðmæti fylgja eða eru þýðingarmiklar fyrir sveitarfélög til að koma betra skipulagi á byggð.

8. Jarðir sem heppilegar teljast til almennra útilífsnota.