10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5643 í B-deild Alþingistíðinda. (3773)

265. mál, launabætur

Flm. (Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég gleðst yfir því hversu almenn þátttaka hefur verið í þessari umræðu og hvað umræður hafa verið málefnalegar. Ég held að það sé í raun og veru öllum ljóst sem hafa tekið hér til máls að við verðum að taka á þessu máli. Okkur sem erum hér er málið mjög viðkomandi og ég held að æ fleiri geri sér grein fyrir því að okkur ber að taka á því.

Ég er nú eiginlega búin með minn ræðutíma og hef ekki tíma til að fara út í mörg atriði, en ég vona að ekki verði látið sitja við það að við afgreiðum málið hér til nefndar, heldur haldi alþm. áfram að fylgja málinu eftir og hugsa um það og að við bregðumst ekki trausti okkar kjósenda með því að láta málið niður falla. Það er og var sérstaklega nú fyrir kosningarnar mjög algengt að verðandi alþm. fóru á vinnustaðafundi og töluðu mjög mikið um lágu launin, að þau þyrfti að bæta, og ég vona að hugur hafi fylgt máli hjá alþm. yfirleitt.