10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5643 í B-deild Alþingistíðinda. (3775)

185. mál, hávaðamengun

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um hávaðamengun. Flm. þessarar till. auk mín eru hv. þm. Júlíus Sólnes, Kristín Halldórsdóttir, Guðni Ágústsson, Salome Þorkelsdóttir, Eiður Guðnason og Hjörleifur Guttormsson. Tillgr. er einföld og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta semja frv. til laga um varnir gegn hávaða- og hljóðmengun.“

Eins og heyra má lætur þessi tillaga ekki mikið yfir sér og er vafalaust óþarfi að hafa uppi mikinn hávaða henni til stuðnings, en engu að síður er þetta brýn tillaga. Ég held að hv. þm. hljóti að vera ljóst að með aukinni notkun véla og tækja í nútímaþjóðfélagi fer hljóðmengun mjög vaxandi ár frá ári. Hávaði veldur fólki verulegum óþægindum. Þegar hann er kominn yfir 60 desibel er hann talinn truflandi, þreytandi yfir 80 og hættulegur heyrn þegar komið er yfir 100.

Dæmi um hljóðmengun og hávaða eru að sjálfsögðu óteljandi og mætti halda um það mál gríðarlega langa ræðu. Við þekkjum dísilknúnar vinnuvélar, púströrslaus mótorhjól og flautandi bíla. En hér er ekki bara átt við hávaða frá ökutækjum, flugvélum eða atvinnurekstri. Staðreyndin er sú að ýmiss konar hljóðmengun, t.d. í formi tónlistar og talaðs orðs úr hátölurum á almannafæri, bæði úr útvarpi og segulböndum, hefur mjög færst í vöxt á seinni árum. Flm. telja nauðsynlegt að spyrna við fótum og reyna að draga úr hávaðahljóðmengun sem lítil nauðsyn kallar á. Eðlilegt er að velta því fyrir sér hvort ekki séu þegar í lögum og reglugerðum væg ákvæði sem banna háreysti og hávaða og vissulega er staðreyndin sú að ýmis ákvæði fjalla um þessi mál, en þau eru þó flest ófullnægjandi og það er skoðun flm. að þörf sé á undirbúningi heildarlöggjafar um þessi mál. Þess vegna er tillagan flutt.

Ég held að ekki sé ofmælt að víðar en hér á landi hafi menn verið að vakna upp við vondan draum og farið að velta því fyrir sér hvað hægt væri að gera til að sporna gegn vaxandi hávaða. Ég t.d. sá bara fyrir nokkrum dögum fyrirsögn í Morgunblaðinu sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Frakkland. Lagt upp í herferð á hendur hávaða. Franska umhverfismálaráðuneytið ætlar í dag að hleypa af stokkunum mikilli herferð á hendur hávaðanum“ o.s.frv.

Það er enginn vafi á því að víða gera menn sér ljóst að hér þarf að stinga við fótum og nokkru eftir að ég fór að hugleiða þessi mál, sem var á sl. sumri, varð ég var við að fólk í höfuðborginni hafði tekið sig til og undirbúið stofnun samtaka sem ætlað var að vinna gegn hávaða og hljóðmengun og þessi samtök hafa þegar verið stofnuð. Í grein um þessi samtök kemur fram að hlutverk þeirra verður m.a. að vinna gegn öllum ónauðsynlegum hávaða í umferð manna, svo sem í sambýlishúsum, á skrifstofum, á vinnustöðum, á sundstöðum, í verslunum, á götum og torgum, í almenningsvögnum, á tjaldstæðum og annars staðar þar sem menn leita til að njóta náttúrunnar og útivistar. Til að ná þessum tilgangi er fyrirhugað að vekja athygli í ræðu og riti á ónauðsynlegum hávaða og hvetja til að dregið verði úr honum þar sem því verður við komið. Leita skal til einstakra aðila sem hafa það á valdi sínu að draga úr eða útiloka hávaða og síðast en ekki síst að koma því til leiðar að settar verði skynsamlegar og nútímalegar reglur um hljóðmengun.

Ég get líka látið þess getið að lokum að þessi mál bar nokkuð á góma á seinasta náttúruverndarþingi og þar var gerð ályktun um þessi mál. Ályktunin var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„6. náttúruverndarþing 1987 skorar á stjórnvöld og Alþingi að undirbúa og setja hið fyrsta heildarlög og reglur til varnar gegn hávaðamengun.“

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa tillögu, en ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allshn.