10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5651 í B-deild Alþingistíðinda. (3784)

289. mál, mat á heimilisstörfum

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Hæstv. forseti.

Löngum var ég læknir minn,

lögfræðingur, prestur,

smiður, kóngur, kennarinn,

kerra, plógur, hestur.

Þessi vísa hans Stephans G. datt mér í hug þegar hv. síðasti ræðumaður var að lesa upp hvað við hefðum samið um í raun og veru þarna í Sókn, hve víðtækt starfssviðið væri. Annars þakka ég henni fyrir hennar ágætu ræðu og hennar innlegg í umræðuna. Ég man eftir að hafa fengið skömm í hattinn fyrir að vera að troða þessu inn í kjarasamninga. Þetta ætti þar í raun og veru ekkert heima. En sannleikurinn var að þetta virtist hvergi eiga heima. Þetta var hvergi tekið til greina og var sjálfsagt að reyna að ýta þessu eitthvað á stað. En í raun og veru væru það kannski almennu kvenfélögin, Kvenfélagasambandið og Kvenréttindafélagið, Bandalag kvenna og öll þessi sambönd, sem ættu að fylgja þessu betur eftir og hafa kannski gert. Ég hef ekki fylgst svo náið með því. Alla vega held ég að fólk ætti að hugleiða betur hvaða störf eru unnin inni á heimilunum. Ég hugsa að þið vitið það öll, sem hér eruð inni, t.d. þegar þið ferðist um sveitir landsins og byggðir og sjáið þau verk sem húsmæður á heimilunum leggja fram. Hvergi nokkurs staðar hef ég séð fallegri borð en t.d. í sveitum landsins þar sem konur eru að taka á móti gestum, kannski jafnvel þjóðhöfðingjum. Ég hef hvergi séð fallegri borð. Og þetta fer ekkert versnandi. Ég hef séð ungar konur gera þetta eins og þær sem eldri eru.

Allir vita hver hjúkrunarstörf hafa verið unnin á heimilum. Allir vita það líka hver kennslustörf hafa verið unnin á heimilum. Heimilin eru að vísu að breytast, en ég held að breytingin sé ekki svo gömul að ég held að við mættum hugsa meira um þetta og taka það meira til greina. Ég ætla ekki að láta banka í bjölluna, ég held að ég mundi missa þráðinn við það, og hef þetta ekki lengra í bili.