10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5651 í B-deild Alþingistíðinda. (3785)

289. mál, mat á heimilisstörfum

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örstutt innlegg til að taka undir þýðingu þess máls sem hér hefur verið mælt fyrir af hv. 5. þm. Reykv. og Borgarafl. flytur, þ.e. till. til þál. um mat á heimilisstörfum.

Ég vildi sérstaklega þakka hv. 7. þm. Norðurl. e. fyrir hennar ítarlegu umfjöllun um þessi mál þó kannski í löngu máli hafi verið. En það er svo að stundum eru langar ræður mikils virði, að hafa tíma til að fara yfir yfirgripsmikil og þýðingarmikil mál. Stundum mættu þær vera styttri. En ég verð að segja að þrátt fyrir að hv. þm. hafi farið fram yfir sinn tíma var ekkert ofsagt í hennar máli.

Ég vildi taka undir þýðingu þess sem hér hefur verið sagt. Ég held að við getum öll verið sammála um að sú umræða sem orðið hefur um mat á heimilisstörfum, málefni fjölskyldunnar á undanförnum árum stafar af þeirri breytingu, af þeim breyttu þjóðfélagsháttum sem hafa orðið á síðustu áratugum í íslensku þjóðfélagi og það vandamál sem hefur skapast við það, eins og hér kom fram, að framleiðslustörfin, það má segja verksmiðjuframleiðsla hafi færst út af heimilunum. Vöggustofan er farin út af heimilinu, dagheimilið, leikskólinn, jafnvel grunnskólinn og umönnun aldraðra. Allt eru þetta störf sem voru unnin og sinnt á heimilunum áður fyrr eins og við öll þekkjum. En þau eru komin á aðra staði nú. Nú verða aðrir að taka að sér þessi störf þar sem húsmæðurnar eru óðum að fara út af heimilunum einnig. En það er nú einu sinni svo að það eru samt sem áður húsmæður og verða alltaf til í þessu þjóðfélagi. Það er einmitt það sem verið er að fjalla um og að meta þeirra störf og einnig að skapa þeim sem vilja vera heima möguleika til þess í þessu breytta þjóðfélagi.

En þrátt fyrir að mörgu sé ábótavant í þessum efnum og það opinbera hafi enn ekki komið nægjanlega til móts við þessa hagsmuni heimavinnandi húsmæðra hefur samt eitthvað færst í betri átt. Eins og kom fram hjá hv. 16. þm. Reykv. er áreiðanlegt að hún hefur verið talsmaður þess á þeim vettvangi sem hún hefur starfað, í kjarasamningum fyrir Sóknarkonur, að störf séu metin á þeim vettvangi.

Það hefur oft hvarflað að mér, þegar verið er að ræða um kjarasamninga einmitt, hvað það er merkilegt að það er eins og fjölskyldan eigi þar fáa talsmenn. Þó hljóta nú þetta allt að vera fjölskyldumenn, hvort sem um er að ræða karla eða konur. Þar hefur maður í huga að það virðist ekki vera lögð þung áhersla á þýðingu þess að kjarasamningar taki mið af högum fjölskyldunnar, þessum breyttu högum fjölskyldunnar. Þar get ég nefnt eitt lítið dæmi eins og sveigjanlegan vinnutíma.

En það var kannski útúrdúr. Ég vildi fyrst og fremst taka undir þetta og minna jafnframt á að ríkisstjórnin hefur væntanlega skilning á þessum málum þar sem forsrh. skipaði strax í upphafi nefnd einmitt til að fjalla um þessi mál, málefni fjölskyldunnar. Sú nefnd er að störfum og væntanlega eigum við eftir að heyra af hennar hugmyndum og tillögum til hagsbóta fyrir fjölskyldurnar í landinu og þá um leið húsmæðurnar.

Ég minni einnig á að hagur húsmæðra varðandi fæðingarorlof var bættur í nýjum lögum um fæðingarorlof þar sem það var stórlega hækkað miðað við það sem áður var.

En ég vil að lokum taka undir það að starf húsmóðurinnar hefur alla tíð kannski verið vanmetið. Hún er þessi þögli meirihlutahópur í þjóðfélaginu sem hefur lítið gert af því að hlaupa á torg og kvarta og kveina. En við vitum að húsmóðirin er framkvæmdastjóri, svo fjölbreytt eru hennar störf.