10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5654 í B-deild Alþingistíðinda. (3790)

289. mál, mat á heimilisstörfum

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er alveg furðulegt að heyra endurtekið aftur og aftur að konur séu konum verstar og konur þurfi ekki að kvarta því að konur séu ágætlega staddar. Af hverju halda menn að það sé verið að boða verkföll út um allt land? Af hverju halda menn að manneskja eins og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir flytji hér tillögu um launabætur? Og talandi um að það séu ekki allar konur láglaunahópar. Það er kannski hægt að finna undantekningar eins og okkur sem sitjum á þingi þó að margir reyndar telji þm. láglaunahópa af því að slík er nú orðin viðmiðun í þessu þjóðfélagi að mörgum finnst þm. láglaunahópur. En til þess að hnykkja á því að það séu sömu laun fyrir sambærileg störf og svo sé það bara matið á störfunum sem ráði, þá er það ekki rétt vegna þess að innan hverrar einustu starfsgreinar er launamunur og hann vex eftir því sem ofar dregur í virðingarstiganum. Hann vex svo mikið að þegar komið er í svokölluð stjórnunar- og sérfræðistörf er launamunur karla og kvenna orðinn 93% ef ég man rétt, 87 eða 93, nú förlast mér hvor talan það var, enda skiptir það ekki öllu máli. Við getum þá sagt að það sé um 90%. Þetta eru tölulegar staðreyndir sem menn geta ekki horft fram hjá. Það er ekki hægt endalaust að segja að konur fái borgað samkvæmt þeim störfum sem þær vinna, það séu störfin sem ekki eru sambærileg. Alveg eins og hv. 7. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan er einmitt spurning um hvernig þau eru metin. Öll störf sem eru bein framlenging af heimilisstörfum eru vanmetin. Og ef það er ekki virðingarleysi við störf kvenna veit ég ekki hvað virðingarleysi er.