10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5659 í B-deild Alþingistíðinda. (3796)

304. mál, verðtrygging

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Við þm. Borgarafl. flytjum þessa þáltill. um að afnema lánskjaravísitölu eða endurskoða grundvöll verðtryggðra lána og verðbóta á laun í þjóðfélaginu þannig að breytingar sem kunna að verða mælist með sömu aðferðum og fylgist að.

Ég held að ég muni það rétt að fyrir fimm árum eða sex skrifaði ég bréf til launþegasamtakanna, sem ég var í, BSRB, og óskaði eftir því að þau tækju þetta mál til meðferðar. Það mun ekki hafa verið gert. Alla vega hef ég lítið heyrt af því máli síðan. Ég held að að hluta til sé það þessum heildarsamtökum til vansa að þau skuli ekki hafa staðið svo vel að sínum málum að hafa passað upp á að lán skyldu ekki vaxa margfalt hraðar en laun.

Þá kem ég að því máli að lífeyrissjóðir landsins eru með fé sinna umbjóðenda. Og hvað gera þeir? Jú, þeir lána eigendum peninga úr þessum sjóði. Á sama tíma sem þeir hafa ekki passað upp á að launin héldust í hendur við þessa vísitölu krefjast þeir til baka miklu hærri fjárhæða af eigendunum. Það getur ekki gengið að launþegasamtökin, þessi stóru launþegasamtök, bæði BSRB og Alþýðusamband Íslands, passi ekki betur upp á þetta og séu í rauninni að ganga á hlut sinna félagsmanna með t.d. lífeyrissjóðslánum.

En þetta kemur víða við. Það hefur farið svo að stór hluti af þeim vanda sem nú blasir við, þ.e. þeim húsnæðisvanda sem er, er einmitt vegna misræmis í vísitölu. Það hefur hvergi getað gengið að það væri hægt að hafa tvenns konar verðlag í landinu, annað á lánum og hitt á launum.

Sú tillaga sem hér er er eitt af stærstu málunum hvað varðar hagsmuni fólksins í landinu því að það er alveg ljóst að þessi stefna gengur ekki lengur. Í skjóli þessa kerfis hafa sprottið upp mjög sterkir fjármagnsmarkaðir, sem svo hafa verið nefndir, og þar hafa menn margfaldað fé sitt á sama tíma og fólk, sem hefur verið að ávaxta í húsnæði, fær minna og minna fyrir sína fjármuni. Sú stefna er alröng. Það verður að haldast í hendur að það sé nokkurn veginn jafnvægi á milli þessara hluta. Það gengur ekki að annars vegar sé verið að taka alltaf fleiri og fleiri krónur af þeim sem fá lánað og hins vegar geti það verið óheft á fjármálamörkuðunum þannig að menn geti fengið mismuninn sem hagnað til baka. Og það sem verst er, eins og ég kom inn á, er það að hin stóru, öflugu félög launþega skuli ekki hafa sett þetta á oddinn í sinni kjarabaráttu og passað upp á þessa hluti.

Ég ræddi þetta, ef ég man rétt, fyrir jólin við einn af forustumönnum eins af stærstu launþegasamtökunum og hann skaut sér undan þessu og benti á lögfræðinga. Það er ekki svo að forustumenn launþegahreyfingarinnar í landinu geti skotið sér undan þessu máli því að þetta varðar nánast hvern einasta mann í landinu. Og verði ekki gerð leiðrétting á þessum vísitölumálum blasir við eignaupptaka og tilfærsla á eignum frá fólki, sem vinnur hörðum höndum við að koma sér sérstaklega upp eigin húsnæði, til annarra manna sem hafa getað fjárfest í verðbréfum með afföllum og braski á kostnað þessa fólks. Ég þykist vita að menn, sem líta með nokkurn veginn sæmilegri réttsýni á þetta mál, muni játa að það gengur ekki að misgengið var þegar orðið um 1/3 1986 á þessum vísitölum. Maður sem fékk lán upp á 100 þús. 1979 ætti að borga nærri 1500 þús., en hefði á móti í launum um 1 millj. Það hefur orðið mikið misgengið á þessum árum.

Ég tel að við verðum að breyta þessu og lagfæra því að þetta hefur valdið mestum vanda hér undanfarið og margar fjölskyldur hafa brotnað út af þessu. Ég vonast til að menn sjái sinn sóma í því að laga þetta.