14.10.1987
Efri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

8. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Síst situr það nú á þeim sem hér stendur að kvarta undan orðfæri hv. þm. Ég var að segja að það færi vel á því að hann yrði áminntur um sannsögli. Það má gjarnan kalla köpuryrði þegar menn fara með ósatt mál. Þau eru orðin nokkur.

Það er ástæða til þess að rifja upp fyrir hv. þm. að í fundaleiðangrinum mikla, 100 fundunum öllum saman, var það eitt meginatriði í málflutningi formanns Alþfl. að því er varðaði skattamál að fara með og kynna niðurstöður þeirrar nefndar sem tók að sér úttekt á skattakerfinu og skattsvikum eftir að þingflokkur Alþfl. hafði fengið samþykkt hér á hinu háa Alþingi tillögu um að það skyldi gert. Alþfl. hafði reyndar þegar gert þá stefnumörkun, sem var niðurstaða þessarar nefndar, að sinni. Alþfl. hafði markað þá stefnu að við endurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkisins, sem væri brostið, bæri fyrst og fremst að gera kröfu til einföldunar og til fækkunar undanþága. Það væri forsendan fyrir því að hægt væri að verða við kröfum þjóðarinnar um að endurreisa traust manna á skattakerfinu.

Hv. þm. notar orðið „matarskattar“ og leikur sér með orð. Nú er það svo að einn þáttur, býsna stór, af skattstofni söluskatts til neyslu eru matvæli. Stór hluti af þessum matvælum eru að sjálfsögðu innflutt matvæli. Mikill hluti af þessum matvælum er það sem í gamla daga á máli hv. þm., ef hann kynni nú enn fræðin sín, hefði verið kallað lúxusvörur. Undanþágurnar frá söluskatti í þessu efni eru auðvitað mismunandi. Þær mismuna framleiðendum, þær mismuna vörutegundum, þær þýða að stjórnmálamenn eru að segja við almenning: Við ætlum að ráða neysluvali ykkar, við ætlum að ákveða hvað ykkur er hollt og hvað ykkur er gott, við ætlum að ráða því hverjir framleiðendur og hvaða innflytjendur hagnast á götunum í skattakerfinu. Þetta ætlum við að gera í nafni mannúðar.

Það vill svo til að sú breyting að afnema söluskatt á matvælum var tekin upp í tíð einhverrar úrræðalausustu og vitlausustu ríkisstjórnar sem setið hefur að völdum á Íslandi, að sjálfsögðu gert af skrumurum í nafni mannúðar og mannkærleika en endaði í skattsvikaskýrslu, endaði í því að það var flett ofan af þessum hræsnurum með þeim hætti að þeir væru búnir að eyðileggja skattakerfið. Menn með þennan feril að baki ættu að hafa sem fæst orð, en það er nauðsyn að áminna þá öðru hverju um sannsögli.