10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5669 í B-deild Alþingistíðinda. (3805)

288. mál, efling Ríkisútvarpsins

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég vil taka undir þá till. sem hér er til umræðu. Það er af hinu góða að ræða ítarlega stöðu og stefnu Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið er, eins og hér hefur verið bent á réttilega, eitt af aðalankerum íslenskrar menningar í dag og hefur staðið sig vel í þeim efnum á þessari öld í allri þátttöku sinni.

Ríkisútvarpið er farvegur fyrir menningarstrauma, fyrir umræðuna í landinu, fyrir skoðanir fólks og aðra þætti sem tilheyra menningarlífi sjálfstæðrar þjóðar. Það er hægt að segja í stuttu máli um Ríkisútvarpið að það sameini Íslendinga vegna þess að það er sameign og nóg er nú samt sem sundrar okkar þjóð þó ekki séu settar sprungur í þá stofnun sem sinnir sameiginlegum þáttum, bæði menningarlegum, öryggislegum og atvinnulegum.

Það er eðlilegt að samkeppni sé til staðar og aukin samkeppni kallar á nýja farvegi. Allt er breytingum undirorpið og í ljósi þess er mjög æskilegt að fram fari sú umræða sem þessi þáltill. um eflingu Ríkisútvarpsins gerir ráð fyrir.

Það má segja um Ríkisútvarpið að það sé á sinn hátt ein af höfuðmenningarmiðstöðvum okkar þjóðar, eins og hv. flm. frv. benti á. Við viljum ekki veikja Háskóla Íslands. Við viljum ekki veikja stofnanir eins og Þjóðminjasafn og aðra mikilvæga þætti í okkar þjóðfélagi. Það hefur verið mjög mikilvægt að mínu mati að styrkja Ríkisútvarpið þannig að það geti sinnt virðulegu og menningarlegu nútímalegu hlutverki í okkar þjóðfélagi.

Það má kannski segja að hlutverkið sé tvíþætt. Það er annars vegar að sinna menningarstarfinu, grunnmenningarstarfi, fréttastarfi og öðru slíku, að bera boð á milli, að opna leiðir til þess að menn geti fylgst með því sem á sér stað í okkar þjóðfélagi. Á hinn bóginn er það, eins og hér hefur verið bent á af hv. síðasta ræðumanni, öryggisþáttur sem við getum þurft að grípa til hvenær sem er í mesta eldfjallalandi jarðar, í landi sem býr við hörð náttúruskilyrði og þar sem menn þurfa að vera viðbúnir að grípa til ráða gegn ýmsum þáttum í náttúrufari. Að því leyti er staða Ríkisútvarpsins einnig sérstaða.

Ég undirstrika að ég er hlynntur þessari tillögu og tel hana mjög tímabæra.