10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5675 í B-deild Alþingistíðinda. (3809)

288. mál, efling Ríkisútvarpsins

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Till. sem hér er til umræðu er þess eðlis að ég hef ekki trú á því að nokkur þm. geti staðið á móti henni. Ég hef ekki trú á því að neinn hafi út á það að setja að Ríkisútvarpið okkar verði eflt og vil taka undir það.

Það sem fær mig til að koma hérna upp er í fyrsta lagi það sem ég hef þegar sagt og hins vegar það sem hv. 1. flm. kom inn á í sambandi við sölu á Rás 2, en við skulum geyma það augnablik.

Ég vil taka undir það, sem hv. 10. þm. Reykv. sagði, að auðvitað er búið að gera ýmislegt fyrir Ríkisútvarpið, það er komið í nýtt og glæsilegt hús, það hefur fengið stórhækkun á afnotagjöldum, en það dugar náttúrlega skammt að skaffa afmarkaðar tekjur og nýjar og stórar og fínar byggingar ef ekki er fé til rekstrarins. Þannig að auðvitað þarf að taka þarna á. Með þetta í huga barðist Borgarafl. gegn þeirri skerðingu sem var við afgreiðslu síðustu lánsfjárlaga á lögbundnum fjárframlögum til Ríkisútvarpsins.

En varðandi söluna á Rás 2 þá fór sú umræða í gang eftir fsp. sem ég var með til hæstv. menntmrh. um það hvort hann hygðist beita sér fyrir sölu á Rás 2 eða að starfsemi hennar yrði hætt. Þarna er náttúrlega töluverður munur á. Svar ráðherrans var það að hann hygðist beita sér fyrir því að þeirri skyldu yrði létt af Ríkisútvarpinu að vera með tvær rásir. Það er allt annað en það að hann hafi sagt að hann ætlaði að beita sér fyrir sölunni á henni. En hann vildi losa þarna um.

Ég tel hins vegar að Ríkisútvarpið geti vel verið með tvær rásir. En mitt sjónarmið er það að Ríkisútvarpið eigi ekki að vera í samkeppni við einkaaðila í afþreyingarútvarpsefni, músík og öðru slíku. Það er það mál sem ég er að tala um. Hins vegar getur Ríkisútvarpið notað enn og áfram dreifikerfi Rásar 2 en þá á menningar- og upplýsingasviðinu. Má t.d. benda á að það mætti nota það sem skólaútvarp eða eitthvað slíkt. En aðalmálið er það að Ríkisútvarpið á ekki að standa í samkeppni við einkaaðila um afþreyingarefni.

Um það sem hv. 1. flm. sagði og gerir gjarnan ef einhver segir eitthvað hér uppi þá gerir hann það gjarnan að flokksmáli viðkomandi aðila. Það er einfaldlega ekki rétt hvað varðar Borgarafl. Það er ekki flokksleg afstaða innan Borgarafl. varðandi sölu á Rás 2. Þetta er mín persónulega skoðun og ber að túlka hana sem síka. Reyndar reikna ég með að sama sé uppi á teningnum hjá Sjálfstfl.

Að öðru leyti, herra forseti, tek ég undir það að efla Ríkisútvarpið sem menningar- og upplýsingastofnun fyrir þjóðina, að þeir gegni sínum skyldum þar, en ekki á sviði afþreyingarútvarps.