10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5676 í B-deild Alþingistíðinda. (3811)

288. mál, efling Ríkisútvarpsins

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið enda eru aðrir hv. þm. úr mínum flokki búnir að taka til máls við umræðuna og lýsa fylgi við þá till. sem hér er til umræðu, enda hef ég ekki trú á öðru en allir þm. okkar flokks vilji taka undir hana. Hins vegar kom það fram í ræðu hv. 2. þm. Austurl. áðan að það sé ekki nóg að hafa góð orð ef verkin sýni annað. Ég vil taka það fram að auðvitað höfum við þm. Framsfl. staðið að þeirri afgreiðslu varðandi mál Ríkisútvarpsins sem er í lánsfjárlögum og við fjárlagagerð og við stöndum við það. Útvarpið þarf að sjálfsögðu að taka þátt í því eins og aðrar stofnanir þegar aðhalds á að gæta. Það breytir ekki hinu að við viljum framgang þess sem mestan, enda hefur að mörgu leyti verið myndarlega að málum staðið við framkvæmdir við útvarpið á undanförnum árum. Það sýnir það glæsilega hús sem það er í og glæsilega aðstaða sem þar er komin og sú aðstaða sem útvarpið hefur verið að byggja upp á Norðurlandi þar sem mjög myndarlega er að staðið. Einnig hef ég skoðað aðstöðu þess á Austurlandi nú nýverið. Þar er ágætlega af stað farið og þessa starfsemi þarf að efla og hún mælist vel fyrir.

En það sem kom mér til að taka þátt í þessum umræðum var að það var minnst á Rás 2 og þær umræður sem hafa verið um þessa rás undanfarnar vikur. Ég eiginlega botna ekkert í þessum umræðum um Rás 2 og hvaða vandamál hún er í rekstri Ríkisútvarpsins. Ég held að rekstur Rásar 2 sé mjög nauðsynlegur þáttur í rekstri Ríkisútvarpsins og það sé aðkallandi verkefni að koma henni til allra landsmanna þannig að allir eigi kost á því að hlusta á þessa rás. Það er mjög brýnt og aðkallandi verkefni. Ég held að Rás 2 sé Ríkisútvarpinu mjög til styrktar. Það getur vel verið að það efni sem þar er flutt sé ekki allt mjög merkilegt. Ég skal ekki um það dæma. Ég hlusta ekki á Rás 2 frá morgni til kvölds. En rekstur Rásar 2 er mjög nauðsynlegur þáttur í því að Ríkisútvarpið geti haft nægilega fjölbreytni og staðist þá samkeppni sem það er í við einkaaðila. Ég er alls ekki sammála hv. 5. þm. Vesturl. Ríkisútvarpið verður auðvitað að standa í samkeppni við þá einkaaðila sem reka útvarp. Ef það á ekki að gera það og Ríkisútvarpið á samt sem áður að halda sínum skyldum þá verðum við að vera menn til að ákveða því tekjustofna sem nægja til þess. Ef Ríkisútvarpið á að keppa á markaðnum þá verður það auðvitað að standa í samkeppni og reyna að ná til sem flestra. Ég er ekki þar með að segja að Ríkisútvarpið eigi aðeins að hafa afþreyingarefni en það er nauðsynlegt að hafa það að einhverju marki ef takast á að ná til sem flestra og ef það á að keppa um auglýsingar.

Ég mun ekki styðja það ef til kemur að það komi tillögur um það hér inni á Alþingi að Rás 2 verði seld frá Ríkisútvarpinu. Ég hef reyndar ekki trú á því að þær till. komi fram. Ég endurtek það að ég skil ekki þær umræður sem eru um Rás 2 og hvaða vandamál Rás 2 sé í rekstri Ríkisútvarpsins. Nema það að þeir aðilar sem reka aðrar útvarpsstöðvar vildu gjarnan losna við þennan keppinaut. Og það er náttúrlega vandamál fyrir þá. En fyrir þjóðina held ég að Rás 2 sé ekkert vandamál.