10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5682 í B-deild Alþingistíðinda. (3815)

288. mál, efling Ríkisútvarpsins

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að árétta það við hv. 1. þm. Suðurl. að sala á dreifikerfi Rásar 2 kemur í mínum huga eingöngu til greina ef það er stefna Ríkisútvarpsins að vera eingöngu með afþreyingar- og tónlistarútvarp. Ef þeir hins vegar taka upp þá skynsamlegu stefnu að fara inn á menningarsviðið með þessa rás eða það dreifikerfi, inn í skólaútvarp t.d., eins og ég nefndi hérna áðan, þá er í mínum huga þessi umræða um söluna á dreifikerfinu óþörf.

Ég vil spyrja menn: Hvernig mundu þeir bregðast við ef Sjónvarpið færi út í það að taka inn sams konar stöð og Stöð 2 er í dag? Er þetta ekki svona ámóta dæmi og við erum að tala um hér? Eigum við að setja upp aðra afþreyingarsjónvarpsstöð?

Ég vil mótmæla alfarið þeirri hugmynd sem hv. 1. flm. kom með hér að taka afnotagjald af fyrirtækjum. Ég veit ekki betur en að eigendur fyrirtækja greiði þegar afnotagjöld. Vill hann að einstakir aðilar í þjóðfélaginu greiði tvö afnotagjöld? Ég sé engin rök fyrir þessu. Hins vegar tel ég að það megi taka upp umræður um það hvort afnotagjöld eigi ekki að vera innifalin í skattkerfinu. Af hverju er verið að leggja þessi afnotagjöld beint á? Ég tel að við séum skattpíndir nóg og það sé rúm inni í skattkerfinu fyrir afnotagjöldin.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson kom inn á það að allir geti hlustað á öll útvörp. Auðvitað er það rétt. En það er bara ein stöð sem við þurfum að borga afnotagjöld af og þar er náttúrlega misræmi gagnvart hinum frjálsu stöðvum. Auðvitað eru þær miklu frjálsari en Ríkisútvarpið. Á því er enginn vafi.

Varðandi það að ef svo færi að Rás 2 yrði seld eða færi í hendur einkaaðila, þá talaði flm. um það að Ríkisútvarpið yrði af miklum tekjum vegna auglýsingataps. Það er ósköp einfalt hreinlega að skattleggja þá á móti þær auglýsingatekjur sem færast yfir til frjálsu stöðvanna þannig að Ríkisútvarpið þarf ekkert að verða af þessum tekjum þó að Rás 2 yrði færð til.