10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5683 í B-deild Alþingistíðinda. (3817)

288. mál, efling Ríkisútvarpsins

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það er svolítið skrýtin fullyrðing sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns. Hvernig ætlar hann að aðskilja frelsi fólksins frá frelsi fjármagns? Þar sem fólk er ekki frjálst og fær ekki að nota það fjármagn sem það ræður yfir, þar ríkir ekki frelsi. Þar sem fjármagnið er ekki frjálst og fólkið er líka heft ríkir heldur ekki frelsi. Það verður að fara saman frelsi beggja til þess að hægt sé að njóta bæði frelsisins og fjármagnsins.