10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5686 í B-deild Alþingistíðinda. (3820)

296. mál, endurskoðun lánskjaravísitölu

Vilhjálmur Egilsson:

Herra forseti. Þessar umræður eru kannski að einhverju leyti framhald af þeim umræðum sem urðu áðan um till. þeirra borgaraflokksmanna en e.t.v. væri ástæða til þess að rifja upp út af þessu hvaða hlutverki peningar gegna í þjóðfélaginu.

Hlutverk peninga er þrenns konar. Í fyrsta lagi þurfa þeir að vera reikningseining vegna þess að við reiknum allt í peningum. Í öðru lagi eru peningar gjaldmiðill vegna þess að við notum peningana til þess að borga og í þriðja lagi eru peningar síðan tæki sem við notum til þess að geyma verðmæti frá einum tíma til annars, þ.e. við vinnum og spörum og notum síðan afraksturinn, það sem við spörum, og setjum það í peninga og geymum til þess að eyða því einhvern tíma seinna. Þegar verðbólga er geta peningar ekki gegnt þessu þriðja hlutverki sínu, þ.e. að geyma verðmæti, og þess vegna hafa menn fundið upp þetta tæki, verðtrygginguna, til þess annaðhvort að líta á það sem nýjan gjaldmiðil eða þá að það sé til þess að stoppa í þetta gat, að peningarnir geti gegnt sínu hlutverki.

Ég held að sá mælikvarði sem við notum, lánskjaravísitalan, eða þess vegna einhver önnur vísitala, sé fyrst og fremst hitamælir. Hún mælir m.ö.o. verðbólguna og er eitthvert tæki sem við notum til þess að finna hitann, finna verðbólguna, og að hjálpa peningunum til þess að verða þetta tæki til þess að geyma verðmæti. Þeir vextir sem eru á fjár magnsmarkaðinum fara af sjálfu sér eftir því hvaða hitamælir er notaður. Ef enginn hitamælir er, ef engar vísitölur eru erum við bara með þess háu nafnvexti eins og í dag, nú ef vísitalan er ónýt fara vextirnir að sjálfsögðu eftir því.

Annað sem komið hefur fram í þessum umræðum er sá misskilningur að verðtrygging launa sé eitthvað sem ekki sé leyft. Það er leyft í dag að verðtryggja laun. Það eru engin lög á móti verðtryggingu á launum en verðtrygging launa er hins vegar samningsatriði og það hefur verið niðurstaða aðila að kjarasamningum, allra, að ekki ætti að verðtryggja laun með sama hætti og gert var áður. Hér áður fyrr eða á mestu verðbólgutímunum var samið um tiltölulega lágar grunnkaupshækkanir og launin voru verðtryggð. Í dag er búið að snúa þessu við. Nú er samið um tiltölulega miklar hækkanir, en síðan er verðtryggingin hins vegar minni. Í öllum þessum tengingum á milli vísitölunnar og launanna þarf að taka tillit til þess.

Það sem mér finnst hins vegar að ætti að gera og koma inn í þessa umræðu er það að hér á Íslandi er í raun og veru bannað að gera samninga, fjárskuldbindingar, nema þá annaðhvort í íslenskum krónum eða í verðtryggingu miðað við lánskjaravísitölu. Ég held að það væri best fyrir þjóðfélagið ef gengi krónunnar væri frjálst og samhliða mætti þá semja um allt í erlendri mynt eða hvaða mynt sem menn vildu og þá að semja mætti um laun eða fjárskuldbindingar eða hvað sem er annað í dollurum, mörkum eða hverju sem er. Þá held ég að viðhorf manna mundu breytast gagnvart krónunni og þá mundi hún verða í eðlilegri samkeppni um það hvað fólk vildi nota og ég held að það mundi styrkja krónuna þegar upp er staðið.

Að síðustu vil ég ræða aðeins þessar sveiflur á laununum og verðlaginu. Síðan lánskjaravísitalan var tekin upp er í raun og veru aðeins eitt tímabil þar sem launin hafa hækkað minna en vísitalan og það er frá miðju ári 1982 til miðs árs 1983, þ.e. þegar þjóðin var að taka á sig annars vegar efnahagsáfall þar sem ytri aðstæður versnuðu og hins vegar efnahagsáfall af völdum stjórnarfarsins. Þetta kostaði það að launin hækkuðu um kannski 10–15% meðan vísitölurnar ruku upp úr öllu valdi þannig að kaupmáttur lækkaði um 30% en það var aðeins á þessu árs tímabili. Síðan þá, frá miðju ári 1983, hafa laun, sama á hvaða mælikvarða þau eru mæld, hækkað meira en vísitölurnar. Þeir sem hafa tekið lán eftir mitt ár 1983 hafa því með þessum endurgreiðslum borgað minni og minni hluta af sínum launum til baka af verðtryggðum lánum. Þetta er staðreynd. Kaupmáttur hefur farið samfellt hækkandi síðan á miðju ári 1983. Vandamálið kom hins vegar upp fyrir þá sem tóku lán fyrir þennan tíma, þ.e. fyrir mitt ár 1982, og hafa verið að borga af þessum lánum síðan. Ef við hins vegar tökum kaupmáttinn eins og hann er í dag er hann hærri en hann hefur nokkru sinni verið. Með því að miða lánskjaravísitöluna við laun mundi launafólk vera að tapa miðað við þessar endurgreiðslur.