10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5687 í B-deild Alþingistíðinda. (3821)

296. mál, endurskoðun lánskjaravísitölu

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það er svo erfitt, afskaplega erfitt, að telja fólki trú um, fólki sem alltaf hefur getað staðið í skilum þangað til áhrif sérfræðinganna í peningamálum fóru virkilega að hafa áhrif, að kaupmáttur launa sé meiri nú borið saman við lánskjaravísitölu eða lánakjör en nokkurn tíma áður. Fyrirtæki sem ganga vel, hafa sæmilega álagningu, ráða ekki við álagninguna sem er á peningunum vegna þess að álagningin á vöruna er lægri en álagningin á peningana og þess vegna eru fyrirtæki að loka um land allt og þess vegna er það sem Lögbirtingablaðið er skrá yfir fólk í vanskilum, fólk sem er ekki vanskilafólk. Það er alveg rétt að ef fyrirlestur um peninga sem slíka er haldinn væri ágætt að byrja hann með því að tala um að peningar eru reiknieining. Það er líka ágætt að tala um peninga sem gjaldmiðil. Þetta er allt rétt. Það er líka rétt að tala um peninga sem möguleika á að geyma verðmæti, og það er akkúrat það sem við höfum verið að tala um, að þessi verðmæti sem búið er að breyta í peninga verði ekki betur geymd af mannanna völdum með vísitölu, hún er af mannanna völdum, að þau verði ekki betur geymd þannig en verðmætin sem eru í mannskepnunni sjálfri sem við eigum eftir að breyta í þessi veraldlegu verðmæti. Það er það sem guð gaf okkur til þess að lifa af. Það eru möguleikarnir sem í okkur búa til þess að breyta orkunni og öðru sem hann gaf okkur í þau verðmæti sem við þurfum að lifa af. Það þýðir ekkert að koma hér upp og segja að þessi verðmæti hafi haldist hönd í hönd. Það er einfaldlega ekki rétt hvaða teoríu sem við viljum nota. Fólkið svarar fyrir sig sjálft. Það ræður ekki við þessar hækkanir sem hafa komið til viðbótar við það sem áður var. Það ræður ekki við að borga 22 milljörðum meira í skatta 1988 en 1987 án þess að fá hækkun launa. Það gerir það ekki. Það borgar enginn 25% meira fyrir matvöruna án þess að fá hærra kaup. Við getum talað fram og til baka um málið, byrjað þessar umræður aftur og aftur og aftur, en staðreyndirnar tala miklu skýrara máli en teoríurnar sem ekki ganga upp. Það er alveg ljóst.