10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5693 í B-deild Alþingistíðinda. (3826)

302. mál, neyðarsími

Flm. (Ingi Björn Albertsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 606, 302. máli Sþ., um neyðarsíma. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Árni Gunnarsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðmundur H. Garðarsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Stefán Valgeirsson og Steingrímur J. Sigfússon, eða þm. frá öllum flokkum. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta kanna með hvaða hætti er unnt að koma upp neyðarsímum með jöfnu millibili á erfiðum fjallvegum og heiðum til að tryggja betur öryggi vegfarenda. Jafnframt verði athugað hvað slíkar framkvæmdir mundu kosta.

Ráðherra leggi fyrir Alþingi skýrslu um könnun þessa eigi síðar en 1. des. 1988.“

Það er kunnara en frá þurfi að segja hversu oft fólk hefur lent í ógöngum í alls kyns veðrum uppi á fjallvegum, heiðum og öðrum erfiðum leiðum. Hefur margur oft yfirgefið ökutæki sitt þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir um slíkt og farið að leita sér aðstoðar, farið að leita að sæluhúsinu, björgunarskýlinu eða bóndabæ. Því miður hafa slíkar ferðir allt of oft endað með hörmungum og þurfum við ekki að líta langt aftur í tímann til að finna nærtækt dæmi um slíkt. Ég fullyrði að ef neyðarsímum verður komið upp á okkar hættulegustu og erfiðustu vegum muni þeir á mjög skömmum tíma sanna gildi sitt og bjarga mannslífum.

Ég þekki af eigin raun hvað það er að vera fastur uppi á fjallvegi með fullan bíl af litlum börnum og frúna í brjáluðum skafrenningi og ófærð. Ég hef reynt það að fara á lakkskónum að leita að sæluhúsi og það er lærdómsrík reynsla sem enginn á þó að sækjast eftir. Ég sá mörg sæluhús þarna uppi á fjallinu en ekkert þeirra reyndist það rétta, heldur einungis missýnir í hlíðum fjallsins. Það vildi mér og þeim sem labbaði þarna með mér til happs að eftir um það bil klukkutíma göngu mættum við jeppa sem þá var á leiðinni niður fjallið í öfuga átt. Aðspurður sagði bílstjóri jeppans að sæluhúsið væri langt frá því að vera í göngufæri og það væri óðs manns æði að ætla sér áfram. Því varð það að ráði að við fórum upp í jeppann og hann keyrði okkur til baka að okkar bifreiðum. Þar skildi hann okkur eftir en braust síðan sjálfur yfir fjallið og hringdi þaðan eftir aðstoð. Ég fullyrði að ef við hefðum ekki mætt þessum jeppa væri vafasamt að ég væri hér í ræðustóli í dag.

Ég er hins vegar þess fullviss að ef neyðarsímar hefðu verið á þessari leið hefðum við leitað þeirra og þannig getað látið vita af okkur, ekki stefnt lífi okkar í hættu með fífldjarfri göngu í brjáluðum skafrenningi og hríð.

En hvar eiga þessir símar að vera staðsettir? Ég tel að þeir eigi að vera staðsettir u.þ.b. tvo metra frá snjóstiku þannig að menn geti alltaf fylgt snjóstikum í leit sinni að símanum. Sú snjóstika sem sími er við verður að vera stærri og rammgerðari en venjulegar stikur þar sem engin hætta má vera á því að stikan láti undan veðri eða jafnvel hnjaski frá bifreið. Persónulega tel ég að bilið milli símanna megi ekki vera lengra en 3 km þannig að lengsta möguleg ganga í leit að símanum yrði þá tæplega 3 km. Æskilegra tel ég þó að þessi vegalengd verði styttri, eða eins og segir í grg. með tillögunni, á bilinu 2–21/2 km. Algert skilyrði er að símarnir séu eingöngu tengdir næstu lögreglustöð eða öryggisstöð ef ekki er um lögreglustöð að ræða. Það kemur í veg fyrir misnotkun og aðra freistingu. Þá er einnig nauðsynlegt að hver sími sé vel merktur. Þannig má í fyrsta lagi hugsa sér að hver sími sé númeraður og í öðru lagi auðkenndur með lit. Þessar auðkenningar væru síðan til staðar á hinum enda línunnar hjá lögreglunni eða hvar sem síminn væri tengdur þannig að þegar sá sem í nauðum er staddur gefur upp annaðhvort númer á síma eða lit viti lögreglan nákvæmlega hvar á veginum hann er staddur. Þetta tel ég afar mikilvægt atriði, en auðvitað væri best ef hægt væri að nýta sér nútímatækni þannig að um leið og tól er tekið upp á öryggissíma fari í gang neyðarkerfi sem kallar á ákveðin viðbrögð jafnhliða því að á korti yfir veginn kæmi blikkandi ljós þar sem viðkomandi sími er staðsettur.

Ég vil einnig benda á það að æskilegt væri að ökumenn vissu áður en þeir leggja í vafasama ökuferð á hættulegum vegum hvort viðkomandi vegur er útbúinn með neyðarsíma eða ekki. Það mætti gera með því einfaldlega að bæta mynd af síma á umferðarskilti, þau skilti sem segja til um áttir og vegalengdir, t.d. þegar komið væri að vegamótum áður en farið er yfir Kerlingarskarð. Þar er að sjálfsögðu skilti sem segir til um að þetta sé leiðin til Stykkishólms og hversu langt það er. Þarna yrði þá bætt við mynd af síma.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þessir símar gætu orðið fyrir barðinu á skemmdarvörgum en neita þó að trúa því að svo verði. Ef yfirvöld sjá til þess að það sé kynnt rækilega hversu nauðsynleg öryggistæki þessir símar eru og að með því að skemma slík tæki geti menn verið að stofna mannslífi í hættu. Þá er einnig nauðsynlegt að við því yrðu þung viðurlög að skemma slík tæki.

Nú segja e.t.v. einhverjir að farsímar leysi þetta mál. Því er ég hins vegar ósammála, einfaldlega vegna þess að farsímar duga yfirleitt ekki við slíkar aðstæður sem hér um ræðir. Þar fyrir utan eru farsímar mjög dýrir í dag og þó að verð þeirra eigi vafalaust eftir að lækka mun það ekki verða svo að það teljist jafnsjálfsagður hlutur í bíl og t.d. útvarp. Ekki er heldur hægt að skylda fólk til að kaupa slíka síma. Hér er því um öryggismál þegnanna að ræða sem ríkisvaldið á að beita sér fyrir. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér ætti uppsetning neyðarsíma ekki að verða kostnaðarsöm. Það mun þó vera mismunandi eftir því hvort upp þarf að setja sérstök möstur eða leggja línur o.s.frv. En þó að það þurfi á ég ekki von á því að kostnaðurinn verði mikill, en það kemur væntanlega í ljós síðar.

Herra forseti. Þeir sem hafa ferðast mikið erlendis hafa vafalaust tekið eftir slíkum neyðarsímum víða við hraðbrautir, inni í göngum, á stórum brúm o.s.frv. og það þarf ekki að taka það fram að þeir eru ekki þar til skrauts.

Ég vil í lokin segja það að slíkir símar eru ekki einungis öryggistæki yfir vetrarmánuðina þó að sá tími ársins sé hvað mikilvægastur hvað það snertir, heldur ekki síður á öðrum árstímum og þarf varla að útskýrar það nánar.

Herra forseti. Að lokinni umræðu mælist ég til að þessari till. verði vísað til hv. allshn. og 2. umr.