10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5701 í B-deild Alþingistíðinda. (3830)

325. mál, veiðieftirlitsskip

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég varð þess var að síðasti ræðumaður, hv. 1. þm. Vestf., hafði allt á hornum sér varðandi þessa tillögu. Ég geri það ekki. Ég hefði að vísu viljað hafa orðalag hennar með svolítið öðrum hætti en hér er, en nálgun mín á þessu viðfangsefni er greinilega út frá allt öðrum grundvallarsjónarmiðum en hv. 1. þm. Vestf. Hann sagði efnislega að það kerfi sem við værum með væri mjög gott. Ég er ekki sammála því. Ef það er mjög gott hvernig má þá vera að svo mikið berst af smáfiski á land? Ég tel að það eitt sanni að rangt sé að halda því fram að það kerfi sem við búum við sé gott. Sannleikurinn er sá að við veiðum fiskinn allt of smáan. Það er allt of mikið veitt af smáfiski. Hluti af því viðfangsefni að snúa þeirri þróun við er auðvitað að fylgjast með því hvað er að gerast á miðunum.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það eftirlitskerfi sem við erum með sé alls ekki nógu gott og þess vegna tel ég að flutningur þessarar till. sé mjög af hinu góða, nefnilega að þessi till. gefi þá tilefni til þess að menn taki þetta eftirlitskerfi til gagngerrar endurskoðunar. Ég held að menn geti vissulega deilt um það hvernig að skuli fara. En mín skoðun er sú að til þess að það eftirlitskerfi sem við erum með sé raunhæft og skilvirkt eins og sagt er, þá eigi hluti af því að vera í því fólginn að nota sérstök eftirlitsskip sem geti farið þangað sem þörf er á hverju sinni til þess að annast eftirlitið og fylgjast með veiðunum og veiða sjálft. Og það er grundvallarhugsunin í þessari till., hvort heldur fyrirkomulagið verður eitt eða annað, hvort heldur skip verður af ákveðinni stærð eða ekki, hvort það verður keypt á árinu 1988, fyrir hvaða peninga það verður keypt eða hvort það verður leigt eða af hvaða stærð það verður.

Mín skoðun er sú að þessa hluti þurfi að skoða vandlega og með hliðsjón af því ætti að endurskoða þá tillögu sem hér er til umræðu og gera hana að hvatningu og áskorun um það að eftirlitskerfið verði tekið til sérstakrar skoðunar og þá einkum með tilliti til þess að sérstök eftirlitsskip verði fengin til þess að fylgjast með veiðunum og þá nota ég orðið skip í fleirtölu en ekki bara eintölu eins og flm.

Það er ekkert langt síðan að við vorum að agnúast út í smáfiskadráp Breta og Þjóðverja og þóttumst góðir að reka þá af höndum okkar til þess að smáfiskadrápinu linnti. Þá höfðu Íslendingar uppi miklar heitingar um það hversu vel þeir mundu nú standa sig við að stjórna veiðunum þegar þeir stæðu einir að þeim. Landhelgisgæslan hafði ákveðið hlutverk til þess að líta eftir hinum erlendu fiskiskipum. Hún hefur ekki hlutverk í þá veru eins og hún er rekin núna til þess að líta eftir íslenskum fiskiskipum og það er af þessum sökum sem við þurfum að taka þetta kerfi allt til gagngerrar endurskoðunar. Við höfum nefnilega ekki staðið okkur í samræmi við heitingar okkar. Við höfum ekki staðið okkur í samræmi við það sem við hétum sjálfum okkur þegar við færðum út landhelgina.

Ég held að hverju einasta mannsbarni sé ljóst að það sé skynsamlegt að veiða fiskinn frekar stærri en smærri og ég held að hverju einasta mannsbarni sé ljóst að við veiðum fiskinn allt of smáan eins og stendur og við spillum fyrir okkur með því og við gerum okkur veiðarnar dýrari en þær þyrftu að vera og þess vegna lélegri afkomu í útgerðinni. Við þurfum að leita allra ráða til þess að snúa þeirri þróun við, ekki bara til að vernda smáfiskinn heldur til að bæta hag útgerðarinnar og landsins alls.