10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5703 í B-deild Alþingistíðinda. (3831)

325. mál, veiðieftirlitsskip

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Hér hafa verið snaggaralegar umræður á bæði borð með sitt hvort sjónarmiðið og ég þakka það. En ég vil víkja nokkrum orðum að þessu máli áfram.

Hv. 1. þm. Vestf. Einar Guðfinnsson taldi líklegt að væn hugsun lægi á bak við þessa tillögu. Væn hugsun er teygjanleg. Það sem liggur á bak við þessa tillögu er rökrétt hugsun og það er það sem skiptir máli í sjávarútvegi að menn hafi þrek til þess að standá fyrir rökréttri hugsun, ekki á tilfinningagrunni heldur á staðreyndum. Það er staðreynd að smáfiskadráp á Íslandsmiðum er óheyrilega mikið og allt of mikið og það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, hv. þm.

Hann hafði á orði að þessi till. væri illa ígrunduð og rakti síðan nokkur atriði. Þau ætla ég að hrekja til baka. Hv. þm. getur skammast eins og honum sýnist í þessu máli, en rökin eru okkar megin sem flytjum þetta mál. Þær voru léttvægar skrýtlur þm. að reyna að hnekkja smásögunum sem byggjast á bláköldum staðreyndum. Bláköldum staðreyndum frá mönnum sem gerst þekkja. Það er engin skáldmennska, það er enginn rithöfundastíll, það eru staðreyndir settar fram í skiljanlegt form sem ég heyri að hv. þm. hefur skilið þó hann kunni ekki við að kyngja því átakalaust.

Auðvitað kostar tugi milljóna að kaupa slíkt skip sem eftirlitsskip á að vera. Að vísu má reikna með því að slíkt skip geti skilað fjármagni upp í fjármagnskostnað að hluta. En veiðieftirlit er eins og annað eftirlit, er eins og önnur gæsla í landinu. Hún borgar sig ekki í beinhörðum peningum, en hún borgar sig þegar á heildina er litið og því má ekki rugla saman. Þarna er annars vegar um að ræða veiðimennsku og hins vegar löggæslu. Hvort tveggja hlýtur að kosta sitt. Annað kann að gefa beina peninga, en hitt ekki.

Af hverju ætti veiðieftirlitsskip ekki að geta skilað ákveðnum hluta af kostnaði með þeim afla sem skipið óhjákvæmilega hlyti að fá í starfi sínu? Af hverju ekki? Af hverju ekki að koma því í lóg í stað þess að gera eins og t.d. vitað er að sumir togarar gera? Þeir henda smáfiskinum. Það er líka vitað að sumir frystitogararnir henda hluta aflans sem ekki hentar þeim í vinnsluna hverju sinni. Þeir eru ekki háðir neinu eftirliti. Það eru undantekningar ef veiðieftirlitsmenn fara þar um borð. Það á að tala um hlutina eins og þeir eru, blákalt og ákveðið. Auðvitað kemur það illa við einhverja. Það er ekki verið að dæma alla þrátt fyrir það. Það er verið að benda á undantekningarnar og sem betur fer eru þær vonandi ekki of margar miðað við heildina. En hver einasta er samt of mikið.

Það var eins og hv. þm. væri þeirrar skoðunar að veiðieftirlitsskip ætti eingöngu að veiða smáfisk. Ég skil nú ekki slíkt sjónarmið. Menn ráða sem betur fer ekki alveg í hvaða fiskstærð þeir setja þegar þeir kasta vörpunni í sjóinn.

Það var rætt um það hvort rifta ætti samningi við Hafþór. Auðvitað á að rifta samningi við Hafþór ef það hefur verið gerður samningur á röngum forsendum. Af hverju ætti ríkissjóður, Hafrannsóknastofnun að eiga skip til þess að leigja einstaklingum til veiða? Eitt skip. Ef það er ekki þörf fyrir skipið þá á að selja það. En það er þörf fyrir skipið og þýðir ekkert að binda sig við það þó að hv. þm. komi af því landsvæði þar sem þessi togari er í nýtingu. Það er sjálfsagt mál að rifta samningi, ganga til nýrra samninga. Það getur tekið einhvern tíma. Það er líka jafnljóst að þó að sérstakt veiðieftirlitsskip komi til starfa við landið þá þarf jafnframt, a.m.k. um sinn, að hafa eftirlitsmenn í ýmsum skipum. Það er ekki verið að loka dyrum á það. Það er verið að opna þetta mál af því að það er brýn þörf. Og allir sem vilja vita og vilja horfast í augu við þessa hluti eru sammála um það. Það er ófremdarástand. Það kann að vera einhver ágreiningur um leiðina en markmiðið á að vera það sama.

Smásögurnar um það hvernig menn færast undan því að fara með veiðieftirlitsmenn á svæði sem eru líkleg til að hafa smáfisk, auðvitað eru þær sannar. Auðvitað segir það sig sjálft að skipstjóri á togara sem fær eftirlitsmann um borð velur ekki í fyrsta lagi það svæði þar sem hann á kannski von á smáfiski, ekkert endilega. Það getur verið miklu stærri fiskur, en hann velur ekki það svæði sem er líklegast til að verða til þess að hann verði rekinn í burt, eyði dýrmætum tíma, dýrmætu tæki í eintóman kostnað. Það þýðir ekkert að vera að slétta yfir svona hluti og kalla það árás á menn. Ef ríkissjóður ætti skipið þá getur eftirlitsmaðurinn farið þangað sem hann vill. En auðvitað er réttur skipsins og skipshafnar og eigenda þess meiri en veiðieftirlitsmannsins og á að vera það nema ríkið greiði þá fyrir það og það gerir ríkið ekki. Þessu er ástæðulaust að rugla saman.

Ef það eftirlitskerfi sem hefur verið í veiðieftirlitinu er árangursríkt, eins og hv. þm. sagði og benti á að með ólíkindum væri hversu oft væru lokuð ýmis svæði, hver er þá þörfin ef eftirlitsmenn gætu sjálfir ráðið ferðinni í þessum efnum? Ef happa- og glappaaðferðin réði ekki? Hver væri þá þörfin? Veiðieftirlitsmenn eru að öllu jöfnu reyndir menn, margir reyndir togaraskipstjórar og sjómenn og þeir vita sínu viti. Þegar maður talar við þessa menn þá koma í ljós hlutir, atvik og staðreyndir sem undirstrika þörfina á að stórefla veiðieftirlit við landið. Menn mega einfaldlega ekki í þessu máli festast í þeirri gildru að horfa til eins landsvæðis frekar en annars. Það er ósköp einfalt fyrir mig sem þm. Sunnlendinga að segja að þetta óheyrilega smáfiskadráp valdi því að minni fiskur en ella komi á Suðurlandsmið því að það er rétt. Þetta mál verður hins vegar að hugsa miklu lengra. Menn mega ekki loka augunum og telja að verið sé að ráðast á eitt landsvæði fremur enn annað. Þetta er heildarmál sem verður að taka á. Það er ekki verið að fjalla um þetta mál vegna þess að mesta smáfiskadrápið er eðlilega við bæjarþröskuld Vestfjarða. Þar er mest af smáfiskinum. Það er ekki verið að skamma Vestfirðinga fyrir það. Ekki réðu þeir þeim þætti lífríkisins þó að þeir ráði ýmsu. (EKG: Þeir ráða ekki nógu.) Sumum þykir nú nóg um, hv. þm. Og ég er alveg sammála því sem kom fram í ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar. Það er stórbrýnt að auka og endurskoða eftirlitið. Það er ekki meginmál að mínu mati hvernig þessi till. er orðuð heldur að málefnið nái fram og þessi skrípaleikur hætti.

Ég tek undir það sem hv. þm. sagði um nauðsyn þess að endurskoða þetta kerfi og leiðir það nú í rauninni af sjálfu sér ef til á að koma sjálfstætt veiðieftirlitsskip sem er tilbúið. En nær væri að selja þau skip sem ekki er þörf fyrir að nota og eru í eigu ríkisins eða er til eitthvað sem heitir skipaútgerð ríkisins í fiskveiðiskipum?

Nei, þessar dylgjur voru ekki vænar og þær voru ekki rökréttar því að það er ástæða til þess að fjalla um þessi mál án þess að vera með nokkurt pjatt. Smáfiskadrápið er of mikið, veiðieftirlitið er of slakt og úr því þarf að bæta.