10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5707 í B-deild Alþingistíðinda. (3834)

325. mál, veiðieftirlitsskip

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég hef ekki haft neina ástæðu til þess að draga í land í þessum umræðum. Heldur er vansagt en ofsagt.

Það hefur verið vikið að því að æskilegt hefði verið að hafa aðra hugsun í till. Það er endalaust hægt að finna flöt á því en till. byggist ekki á hugmyndum, hún byggist á staðreyndum og það þarf þá að hugsa til annarra staðreynda. Markmiðið er hins vegar það sama og niðurstaðan sú sama.

Það er hagsmunamál allra sjómanna landsins að skynsamlega sé staðið að fiskveiðum við Ísland. Það á ekki að vera tjaldað til einnar nætur í þeim efnum. Því þykist ég tala fyrir munn sjómanna almennt í landinu þegar ég legg á það áherslu að skynsamlega og markvisst þurfi að standa að fiskveiðum við landið og veiðieftirliti. Þar eiga allir jafnan hlut og vandamál sem upp kunna að koma þarf að taka til meðferðar og þau þarf að leysa.

Ég er sammála hv. þm. Einari Kr. Guðfinnssyni að þorri íslenskra sjómanna vill ganga vel um íslensku fiskimiðin, en undantekningar eru þó margar og aðeins ein er of mikið. Það er geipileg samkeppni í þessum stóra flota togara sem fiskar við landið og menn eru þar reknir umsvifalaust ef þeir skila ekki ákveðnu aflamagni á land og enginn gerir athugasemd við það þótt allt verði vitlaust og tryllt ef einum embættismanni er vikið úr starfi, opinberum embættismanni. Þarna er mikill munur á og allt önnur viðmiðun en þetta er engu að síður staðreynd eins og annað sem ég hef bent á.

Það kom fram í máli síðasta hv. ræðumanns, Björns Gíslasonar, að veiðieftirlitið þyrfti að verða virkt. Það er jafnljóst að þó að sérstakt eftirlitsskip kæmi eins og hér er fjallað um þarf, eins og ég gat um í máli mínu, áfram að hafa veiðieftirlitsmenn í flotanum í heild og mun ríkari samvinnu þar á milli.

Herra forseti. Ég get lokið máli mínu með því að hvetja til þess að till. verði rædd í fyllstu alvöru og að gengið verði til þess að endurskoða veiðieftirlitið með því að auka það eins og till. gefur tilefni til og að almenn og markviss skipulagning eigi sér stað í veiðieftirliti við Ísland.