10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5708 í B-deild Alþingistíðinda. (3835)

325. mál, veiðieftirlitsskip

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að þakka hv. 1. flm. fyrir að vekja máls á veiðieftirlitinu, hversu ómarkvisst það er og umdeilanlegt. Það kemur fram í umræðum að það er deilt mjög um þessi mál og það er ekki aðeins gert hér, það er gert um allt land. Um einn hóp veit ég sem er alveg sammála þessu og það eru veiðieftirlitsmennirnir sjálfir. Þeir telja upp til hópa að starf þeirra sé mjög ómarkvisst. Þeir hafa ýmsar hugmyndir uppi um úrbætur í þessum efnum. Ég veit að sú hugmynd sem hv. flm. reifar hér er ein þeirra og ég lít svo á að till. sé upphafið að frekari skoðun á þessum málum, endurskoðun, og það þarf vissulega að gera á breiðum grundvelli. Það má vissulega finna að ýmsu í tillöguflutningi manna en ég hygg að aðalatriðið skipti mestu máli og það er hugsunin sem er á bak við till. Þessi till. á eftir að fara í nefnd og þar verður væntanlega tekið á henni á þann hátt að úrbætur verði fram kallaðar. En hér hefur verið ýtt úr vör og bera flm. og meðflutningsmönnum þakkir fyrir það. Ég er einn þeirra sem telja að veiðieftirlitinu sé mjög ábótavant og að nauðsynlegt sé að skoða málin og gera úrbætur. Þó að þær séu kostnaðarsamar held ég að þær skili árangri því að svo mikið er í húfi.