10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5709 í B-deild Alþingistíðinda. (3837)

326. mál, steinataka í náttúru Íslands

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um könnun á áhrifum steinatöku í náttúru Íslands og hertar reglur í þeim efnum til náttúruverndar.

Meðflutningsmenn eru hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, Sverrir Hermannsson, Árni Gunnarsson, Guðrún Helgadóttir og Kristín Halldórsdóttir. Tillgr. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á menntamálaráðherra að láta Náttúrufræðistofnun Íslands kanna áhrif steinatöku á náttúru Íslands. Hert verði eftirlit til varnar náttúruskemmdum með steinatínslu og tollgæslu falið að fylgjast með útflutningi á íslenskum steinum.“

Það bendir allt til þess að steinatínsla sé nú orðin til skaða á nokkrum stöðum á landinu og vitað er að erlendir ferðamenn og íslenskir aðilar flytja út íslenska steina í stórum stíl og selja á erlendum markaði. Í erlendum ritum steinasafnara hefur það aukist undanfarin ár að birt eru kort og greinar frá Íslandi um forvitnilegustu steinatínslusvæði og er þar víða um að ræða svæði sem eru með sjaldgæfum steintegundum og í sumum tilvikum svæði þar sem bannað er að tína steina. Engin sérstök könnun hefur farið fram á vegum íslenskra vísindamanna. Dr. Sveinn Jakobsson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, telur fulla ástæðu til að kanna skipulega áhrif steinatöku á náttúru Íslands og er Náttúrufræðistofnun Íslands reiðubúin að taka það verkefni að sér. Samkvæmt kostnaðaráætlun má reikna með að það kosti 200–300 þús. kr. að gera þá könnun sem þarf til þess að marka stefnu í þessu máli.

Ísland hefur um langan aldur verið vel kynnt vegna fallegra holufyllinga, þ.e. steintegunda sem myndast hafa í holrými bergs við jarðhitaummyndun. Algengustu holufyllingarnar eru kvarssteinar, silfurberg og geislasteinar. Hér á landi eru þekkt 12 afbrigði kvars, 2 afbrigði kalsíts, en geislasteinar skiptast í 20 tegundir. Auk þess eru fágætari tegundir holufyllinga, en þær skipta mörgum tugum.

Holufyllingar er einkum að finna í bergmyndunum frá tertíertíma. Þessi svæði eru mikilvægust: Austurland, svæðið frá Hornafirði í Borgarfjörð eystri; Suðvesturland, svæðið frá Esju í Norðurárdal í Borgarfirði; Austur-Barðastrandarsýsla, svæðið frá Kollafirði í Gufufjörð; og Eyjafjarðarsýsla, svæðið frá Svalbarðsströnd í Siglufjörð. Síðan eru margir einstakir staðir utan þessara svæða sem of langt mál yrði að telja upp hér.

Bergmyndanir eru víðast hvar viðkvæmar fyrir steinatínslu. Þetta stafar af því að endurnýjun er mjög hæg. Það dæmi skal tekið að sé venjuleg fjallsskriða hreinsuð af holufyllingum má ætla að nokkrir áratugir líði áður en allt er komið í samt horf á ný.

Ásókn í þessar holufyllingar hefur aukist til muna, einkum undanfarinn áratug. Fyrir þessu eru eftirfarandi ástæður helstar: Áhugi almennings á steinafræði hefur vaxið mjög hér á landi, samfara auknum ferðalögum innan lands. Áhugi útlendinga á íslenskri steinafræði hefur aukist, m.a. vegna greina sem birst hafa í erlendum tímaritum um íslenska steinafræði.

Ástæða er til að ætla að steinatínsla sé nú orðin til skaða á nokkrum stöðum á landinu, einkum í Berufirði, Eskifirði, Breiðdal, Hvalfirði og á Hjallahálsi (sem er á milli Þorskafjarðar og Djúpafjarðar). Auk þess hefur öll umgengni á þessum stöðum versnað. Yfirleitt er útlendingum kennt hér um, en telja má öruggt að áhrif þeirra séu orðum aukin þó þau séu slæm. Stór hópur Íslendinga fæst nú við steinasöfnun. Þannig eru nú 75 íslenskir steinasafnarar á skrá hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, en ætla má að þeir fari í söfnunarferðir reglubundið. Hitt ber á að líta að söfnun útlendinga er alvarlegri að því leyti að sýnishornin hverfa úr landi. Auk þess hefur það sýnt sig í umgengni á hinum ýmsu steinasvæðum að útlendingar ganga harðar að náttúru landsins en íslenskir steinasafnarar sem margir hverjir og allflestir bera mjög mikla virðingu fyrir náttúrunni þó svo þeir gangi í sjóði hennar.

Það hefur litið verið gert af því að rannsaka steinatöku á hinum ýmsu svæðum og því nauðsynlegt að kanna allt landið í þessu tilliti, sérstaklega þar sem slík könnun kostar ekki mikla peninga. Það þarf að athuga gaumgæfilega hvort friða eigi ákveðin svæði fyrir steinatínslu. Steintegundir eru mjög mismunandi að stærð. Sama tegundin er í sumum tilvikum aðeins brot úr millimetra í þvermál, í öðrum tilvikum tugir sentimetra á lengd og því ekki gerlegt að friða ákveðnar tegundir. En ástæða er til að huga að þýðingu fræðslustarfs í samstarfi við Náttúruverndarráð og einnig hvort auka eigi eftirlit með farangri útlendinga, einkum á Seyðisfirði. Benda má á að það er tiltölulega auðvelt mál að framkvæma að stefna að því að þegar ráðnir eru sumarmenn til tollgæslu á skipaleiðir til landsins, farþegaleiðir, þá sé þar t.d. jarðfræðinemi ráðinn til starfa sem geti haft eftirlit með þessum þætti mála.

Það eru allmörg dæmi um það að útlendingar komi til landsins með erlend steinarit þar sem prentuð eru kort yfir forvitnilegustu steinasvæði á landinu. Þess eru dæmi að útlendingar komi í stórum fjallabílum, aki beint frá borði til fjalla, fylli sína bíla af íslenskum náttúruverðmætum í formi steina og haldi síðan beint til skips, tali vart við nokkurn mann á okkar landi. En það er ekki það versta. Það versta er að missa þessa steina þar sem þeir eru sjaldgæfir, þar sem þeir eru fágætir og ástæða til þess að vernda þá, að missa þá úr landi.

Ég legg til að að lokinni umræðunni verði málinu vísað til allshn.