14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5724 í B-deild Alþingistíðinda. (3856)

331. mál, störf og starfshættir umboðsmanns Alþingis

Svavar Gestsson:

Hæstv. forseti. Ég hef ekki haft aðstöðu til að skoða þessa till. í smáatriðum, en hér hafa margir góðir menn um vélað og ég hef í sjálfu sér enga ástæðu til að ætla annað en menn hafi haldið sig við þann anda laganna sem ákveðinn var þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma. En það eru tvö atriði efnislega sem ég vil koma á framfæri athugasemdum við ef það mætti verða til þess að hv. allshn. tæki þau til skoðunar.

Það er þá fyrst að í 5. gr. er gert ráð fyrir að kvörtun við umboðsmann verði að berast innan árs frá því að lokaákvörðun var tekin í viðkomandi máli. Ég tel að þetta sé of stuttur tími og hérna ættu að vera rýmri tímamörk ef umboðsmaðurinn á að geta tekið á málum því að oft er það svo að það er þó nokkur tími liðinn og oft meira en ár áður en fólk telur sig knúið til þess að leita réttar síns samkvæmt þeim lögum sem hér eru uppi.

Önnur athugasemd sem ég vil gera, hæstv. forseti, er við síðustu mgr. 6. gr., en þar stendur: „Umboðsmaður getur ekki krafist upplýsinga sem varða öryggi ríkisins eða utanríkismál, er leynt skulu fara, nema með leyfi ráðherra þess sem í hlut á.“

Það er mín skoðun að það sé algerlega óeðlilegt að það sé ráðherra sem úrskurðar í máli af þessu tagi. Ef á að þrengja valdsvið umboðsmanns að þessu leyti ætti það að vera dómstóla, annarra dómstóla, en ekki ráðherra og ekki framkvæmdarvaldsins. Ég tel þess vegna orðalagið á síðustu mgr. 6. gr. að því er varðar upplýsingar um öryggi ríkisins og utanríkismál óheppilegt eins og það er hér og beinlínis varasamt að takmarka vald umboðsmanns með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.

Ég vil að lokum taka undir það með hv. 4. þm. Vestf. að það eru mikilvægar umbætur sem verið er að gera hér varðandi störf Alþingis, bæði með því að flytja Ríkisendurskoðun undir þingið og sömuleiðis lögin um umboðsmann og framkvæmd þeirra. Ég tel það mjög jákvætt. Ég tel að næsta skref ætti að vera að setja reglur um aukið starf og aukna möguleika þingnefnda til að hafa eftirlit með opinberum stofnunum og einkafyrirtækjum með einokunaraðstöðu þannig að eftirlitsvald þingnefnda verði treyst með svipuðum hætti og gert hefur verið í Bandaríkjunum nú mjög lengi og hefur gefist vel. Það opnar þingið og þá möguleika sem lýðræðið getur veitt almenningi til að fylgjast með hlutunum.

Ég tel þess vegna að hér hafi tvö þýðingarmikil skref verið stigin. En næsta skref mætti gjarnan vera að það yrðu sett lög um eftirlitshlutverk, eftirlitsskyldur og eftirlitsrétt, þingnefnda með opinberum fyrirtækjum og stórum einokunarfyrirtækjum.