14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5732 í B-deild Alþingistíðinda. (3865)

339. mál, Björgunar- og slysavarnaskóli Íslands

Flm. (Ólafur Gränz):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um Björgunar- og slysavarnaskóla Íslands. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn Björgunar- og slysavarnaskóla Íslands. Stofnkostnaður og rekstur skólans greiðist úr ríkissjóði.“

Það var 26. mars árið 1920 að fyrsta björgunar- og gæsluskip Íslendinga, vélskipið Þór, kom til landsins frá Danmörku. Þaðan höfðu Vestmanneyingar keypt skipið en áður hafði skipið verið hafrannsóknaskip og borið nafnið Thor.

Á þeim tíma, sem vélskipið Þór var keypt, ríkti mikill einhugur í þessari stóru verstöð um kaup á góðu björgunar- og gæsluskipi sem væri til taks ef slys bæri að höndum eða aðstoðar væri þörf á hafi úti. Miklar fórnir höfðu verið færðar og hafa verið færðar síðan í þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.

Björgunarskipið Þór þjónaði sjómönnum við Vestmannaeyjar um nokkurt skeið, en var síðan selt íslenska ríkinu og afhent 1. júlí 1926 og má segja að það sé stofndagur Landhelgisgæslu Íslands.

Með tilkomu skólaskipsins Sæbjargar, sem núverandi formaður Borgarafl., þáverandi fjmrh., afhenti Slysavarnafélagi Íslands fyrir 1000 kr., var stigið enn eitt gæfu- og framfarasporið í björgunar- og slysavarnamálum Íslendinga. Nú, eftir tveggja ára rekstur skipsins, liggja fyrir staðreyndir sem sýna svo að ekki verður um villst að miklum slysum og skipssköðum hefur verið bægt frá, framar öllu vegna þess að sjómenn höfðu hlotið þjálfun og menntun í slysavarnaskólanum í Sæbjörgu. Mikilvægi þess að menn kunni til verka á örlagastundu verður aldrei metið til fulls því að ekkert er dýrmætara en mannslíf.

Skólaskipið Sæbjörg annar nú hvergi nærri þeirri þörf sem fyrir er. Með tilkomu veglegs björgunar- og slysavarnaskóla mundi skipið nýtast áfram fullkomlega, en væntanlega breytist rekstrarfyrirkomulag skipsins.

Nú er greinilegra en nokkru sinni fyrr hve mikilvægt er að sinna þessum þætti slysavarna- og björgunarmála og eru þá einkum hafðir í huga sjómenn á fiskiskipum og farskipum auk fjölmargra annarra eins og slökkviliðsmanna, björgunar- og hjálparsveitarmanna o.fl. Í nágrannalöndum okkar eru reknir fjölmargir slíkir skólar með mjög góðum árangri.

Það er mikilvægt að sem bestri fræðslu verði komið á í slysavarna- og björgunarmálum þannig að aðstaða sé til að kenna það nýjasta og haldbesta sem völ er á hverju sinni. Miklu máli skiptir að slíkur skóli sé settur á stofn í útvegsplássi. Vestmannaeyjar eru ákjósanlegur staður fyrir slíkan björgunar- og slysavarnaskóla, m.a. vegna þess að þar er fyrir lifandi starf sjómanna að þessum málum. Einnig er þar starfandi Stýrimannaskóli og námsbraut fyrir vélgæslumenn. Í slíkum skóla er þörf á gistirými, heimavist o.fl. fyrir nemendur sem sækja skólann frá öðrum landshlutum.

Greinargerð þessari fylgir skeyti til fjmrh. frá skipshöfnum 90 skipa og báta, hugsanlega um 1000 manns. Í skeytinu leggja þessir sjómenn áherslu á mikilvægi fjárveitinga í slysavarnaskóla sjómanna þannig að hann geti orðið öflugur liðsstyrkur í von um færri slys og manntjón vegna þekkingarleysis. Í skeytinu ljúka sjómennirnir einnig lofsorði á þjónustu starfsmanna Sæbjargar.

Í Noregi eru nokkrir slysavarnaskólar starfandi og þjóna þeir sjómönnum á fiskiskipum, kaupskipum o.fl. Einn þessara skóla, líklega af þeirri stærð sem gæti hentað okkur, er Statens Skole for Sikkerhetsopplæring í Sund á Hörðalandi. Skólinn rúmar samtímis um 60 nemendur. Hann er að flatarmáli um 1700 m2 að öllu meðtöldu. Starfsmenn eru átta kennarar (leiðbeinendur) auk skólastjóra, skrifstofumanns og tveggja manna sem annast viðhald, umsjón og þrif. Skipulag skólans er þannig að reynt er að veita þjálfun og kennslu á sem flestum sviðum sem að gagni mega koma og reynt er m.a. að líkja sem best eftir aðstæðum um borð í skipum og bátum.

Þar sem fjölmargir skólar eru starfræktir hjá nágrannaþjóðunum er nærtækt að nýta sér reynslu þeirra við uppbyggingu skóla og forðast þannig stór útgjöld og hugsanleg mistök. Þannig er einnig hægt að átta sig betur á umfangi, kostnaði og forgangsverkefnum.

Í þáltill. þeirri sem hér er flutt er lýst framtíðarhlutverki Björgunar- og slysavarnaskóla Íslands sem þó væri hægt að laga að breyttum aðstæðum hverju sinni en hann gæti orðið ómetanlegt framlag í björgunum og slysavörnum Íslendinga.

Með því að stofna skólann í Vestmannaeyjum er stigið skref til jafnvægis í byggðamálum og er það í fullu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Það er von okkar flm. að þetta mál fái sem besta afgreiðslu og við megum hugsanlega sjá skólann taka til starfa áður en átið 1990 sér dagsins ljós.

Mér er ljúft að gera það sem í mínu valdi stendur til þess að leggja þessu máli lið í von um færri slys og færri skaða í framtíðinni. Með stofnun veglegs slysavarna- og björgunarskóla Íslands er komin aðstaða fyrir landsmenn alla til þjálfunar og kennslu sem fullvíst má telja að verði til þess að fækka vinnuslysum og sköðum allverulega. Sú ágæta reynsla, sem orðið hefur af námskeiðahaldi og þjálfun um borð í Sæbjörgu hjá Slysavarnafélagi Íslands og víðar, er hvatning til áframhaldandi aðgerða á sömu braut.

Við hljótum öll að finna til ábyrgðar þegar jafnmikilvægt mál og þetta er í brennidepli. Aðgerðir sem sporna eiga við hækkandi slysatíðni eru þó ekki nýjar af nálinni. Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur unnið gott starf og mikilvægt. Nefndin starfaði á tímabilinu frá 23. febr. 1971 til júlí 1986, en hætti þá störfum og þetta starfssvið breyttist með nýjum siglingalögum.

Í greinargóðum skýrslum sjóslysanefndarinnar fyrir þetta starfstímabil má lesa m.a. að u.þ.b. 5263 slys hafa orðið á sjómönnum eða um 330 slys á ári að meðaltali á þessu tímabili. Dauðaslys á sjómönnum á sama tímabili eru um 230 eða um 14 dauðsföll á ári að meðaltali og samsvarar það rúmlega einni skipshöfn á fiskibát árlega.

Allt sem ávinnst í slysavarna- og björgunarmálum er fagnaðarefni og spor í átt að sameiginlegu takmarki landsmanna allra, þ.e. færri slys og færri sorgarhús. Kaup á stærri þyrlu, en um það hefur verið lögð fram þáltill. af Inga Birni Albertssyni, hv. 5. þm. Vesturl., er grein af sama meiði, þ.e. þyrla sem getur tekið áhöfn skips óskipta. Það er mál sem menn eru vonandi sammála um. Eins er endurnýjun og viðbætur búnaðar björgunarsveita og hjálparsveita landsmanna mál sem ber að styðja og sýna skilning, enda hefur sýnt sig að landsmenn taka vel undir slík mál þegar leitað er til þeirra.

Það er mér fagnaðarefni að öryggismál hafa verið til umræðu á Alþingi, en gagnvart sjómönnum mun sú stefna verða mörkuð að ekki verði ráðið í skiprúm nema menn hafi hlotið lágmarksfræðslu í öryggismálum.

Ég vil að lokum leggja á það áherslu að þáltill. sú, sem borin er hér fram af þm. Borgarafl., er flutt til að vekja athygli á mikilvægi slysavarna- og björgunarskóla í þeirri von að framkvæmd geti hafist sem allra fyrst.

Hæstv. forseti. Ég legg til að till. þessari verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn.