14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5735 í B-deild Alþingistíðinda. (3866)

339. mál, Björgunar- og slysavarnaskóli Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Hæstv. forseti. Hér er hreyft stóru máli og vissulega er þörf á að ræða um slysavarnaskóla fyrir Ísland. Ég tel að markmið þessarar þáltill. sé í alla staði mjög gott.

Um það má aftur á móti deila í þeirri stöðu sem við erum í hvort svona skóli á að vera staðbundinn eða hvort hann á að vera farskóli. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er að sá fjöldi sem þarf að stunda nám í svona skóla er svo mikill að það er að mínu viti vænlegri kostur að færa kennarana til en nemendurna. Þarna kemur það inn í að eftir að Slysavarnafélag Íslands fékk varðskipið Þór til umráða skapaðist sá möguleiki að halda því úti til siglinga frá einum stað til annars og starfrækja þar námskeið í slysavörnum. Mér er aftur á móti ljóst að þau námskeið þyrftu að standa lengur, það þyrfti að gefa sér meiri tíma á hverjum stað. Það þarf að halda þessu starfi áfram. Það er hafið en það þarf að efla þetta mjög mikið.

Hvort það þyrfti einnig að starfrækja á einum stað skóla, sem hefði það markmið sem hér er sett fram og e.t.v. mundi þá fremur taka til viss hluta af sjómönnum og þá t.d. yfirmanna, ætla ég ekki að leggja dóm á á þessari stundu en alls ekki heldur að gagnrýna að hugsanlegt sé að slíkan skóla þurfum við að starfrækja.

Ég vil því segja fyrir mig að ég fagna þessari þáltill. og tel að hér sé hreyft mjög merku máli.