14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5741 í B-deild Alþingistíðinda. (3873)

339. mál, Björgunar- og slysavarnaskóli Íslands

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég held að hér gæti misskilnings í umræðu og ég vil leiðrétta hann. Hv. 1. þm. Suðurl. nefndi sem eflaust er rétt að það hafa verið starfandi miklar og margar nefndir að öryggismálum sjómanna. Mörg námskeið hafa verið haldin hingað og þangað. Búið er að leggja einhverja línu, sem ég hef ekki heyrt talað um á Alþingi, í öryggismálum sjómanna. Hv. þm. telur að aðeins 20–30% af yfirmönnum sjómannastéttarinnar fái einhverja tilsögn eða fræðslu í öryggismálum og það sé óþarfi að flytja till. sem þessa þar sem nefnd sé starfandi á vegum ráðherra sem muni gera tillögur um eldvarnakennslu. (ÁJ: Þetta er útúrsnúningur, hv. þm.) Ég bið afsökunar ef þetta er útúrsnúningur, ég er bara að telja upp það sem ég skrifaði niður eftir hv. þm. (ÁJ: Það á að skrifa niður í samhengi.) Ja, ég er nú að taka punktana úr máli hv. þm.

Ég vil benda hv. þm. á það að till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn Björgunar- og slysavarnaskóla Íslands. Stofnkostnaður og rekstur skólans greiðist úr ríkissjóði.“

Ég átti þátt í því að koma Sæbjörgu í hendurnar á Slysavarnafélaginu. Og þá var um það talað að Slysavarnafélagið gæti rekið Sæbjörgu án framlags úr ríkissjóði. En reksturinn var ekki hafinn þegar þeir fóru fram á aðstoð úr ríkissjóði til þess að reka skipið, á meðan ég var enn þá fjmrh. (ÁJ: Til að koma því í stand.) Nei, það var ekki til að koma því í stand vegna þess að þeir unnu það mikið í sjálfboðavinnu, sem var þeim til mikils sóma, þeir fóru ekki fram á það heldur blasti við að reksturinn yrði erfiður. Við sem flytjum þessa till. erum ekki að koma neitt inn á starfssvið Slysavarnafélagsins eða minnka það. Það gæti einmitt þvert á móti orðið til að auka það og gera það öruggara með því að ríkissjóði væri falið að standa undir kostnaði af þessari kennslu eða þessum skóla.

Ég vil minna á það að eitt af þeim stóru átökum sem hafa verið gerð í slysavörnum á Íslandi var þegar sundkennsla var innleidd sem skyldufag í öllum skólum. Það er eitt af því stóra sem gert hefur verið í slysavörnum. Við erum eyland og höfum mikil samskipti við sjóinn og vötn. Og eitt af því sem okkur er til hvað mests sóma er árangurinn af þeim öryggisþætti í okkar daglega lífi.

Ég vil taka undir það með hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur að öryggisnefnd sjómanna, sem hefur fjallað um þessi mál og mörg önnur öryggismál, hefur unnið gríðarlega mikið og gott starf. Og það má segja að þetta sé til að undirstrika að nú þarf að gera eitthvað varanlegt, að ríkisstjórninni er falið að koma af stað björgunar- og slysavarnaskóla. Við orðum það þannig vegna þess að það þarf að bjarga mönnum bæði á sjó og landi og þá ekki sjaldan úr eldsvoðum líka. Og þá er mikið atriði að menn kunni réttu handbrögðin og kunni að bregðast rétt við. Það er málið. Við erum að hrinda hugmynd í framkvæmd ef hægt er.

En um fyrirkomulag kennslunnar, hvort það verður farandskóli eða farskóli eins og menn orða það eða hvernig fyrirkomulagið á kennslunni verður og hvað verður kennt, það er ekki í okkar till. Við ætlumst til þess að ríkisstjórnin sjái um að í þessum björgunar- og slysavarnaskóla sem hún á að koma á laggirnar þá verði það starf þar innanborðs sem þjóðfélagið þarf á að halda. Við erum ekki að tefja tímann hér með því að ætla að skipuleggja skólahaldið á sama tíma og við erum að gera till. um að skólinn verði stofnsettur.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, fyrir mína hönd sem meðflm. þakka þær góðu undirtektir sem þessi till. hefur hlotið, en að sjálfsögðu gerir frummælandi það betur í sínum lokaorðum.