14.03.1988
Sameinað þing: 60. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5742 í B-deild Alþingistíðinda. (3876)

358. mál, hálendisvegir

Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um hálendisvegi og möguleg áhrif þeirra á byggðaþróun.

Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að safna saman og láta vinna úr tæknilegum og náttúrufræðilegum upplýsingum sem nú liggja fyrir hjá ýmsum stofnunum og mundu nýtast við áætlanagerð um vegaframkvæmdir á hálendinu.

Einnig fari fram könnun á áhrifum slíkrar vegagerðar á þróun byggðar í landinu með sérstöku tilliti til bættra samgangna milli Suður-, Norður- og Austurlands, svo og á nýtingu náttúruauðæfa hálendisins og ferðamál.“

Alltaf annað slagið hafa komið upp umræður um varanlega vegagerð á hálendinu. Oftar en hitt hefur sú umræða einkennst af fordómum og hindurvitnum og því að tæknilegar og náttúrufarslegar upplýsingar um vegagerð á hálendinu hafa ekki legið fyrir.

Nú hefur sú breyting orðið á að fyrir liggja miklar upplýsingar um náttúrufar hálendisins með tilliti til mannvirkjagerðar þar. Þessar upplýsingar er að finna hjá ýmsum opinberum og hálfopinberum stofnunum. Þar má nefna Rafmagnsveitur ríkisins, Landsvirkjun, Orkustofnun, Veðurstofu Íslands og Vegagerðina. Auk þess búa ýmis áhugamannasamtök, svo sem Ferðafélag Íslands, hjálparsveitir og samtök snjósleðamanna, yfir mikilli þekkingu sem hægt væri að nota í þessu skyni. Það er mjög brýnt að þessum upplýsingum verði öllum safnað saman með tilliti til þess hvernig þær nýtast til undirbúnings fyrir vegagerð á hálendinu. Einnig er að mínu mati mjög brýnt að allar framkvæmdir á hálendinu verði samræmdar þannig að það sem verið er að gera t.d. í tengslum við línulagnir og virkjanir nýtist sem grunnur að því sem síðar kann að koma, svo sem varanleg vegagerð. Ég tel einnig að slík vinna gæti verið hluti af landskipulagi sem óhjákvæmilega hlýtur að koma fyrr eða seinna. Þegar ég tala um landskipulag þá á ég við það að lögð verði í það skipuleg vinna að kortleggja landið út frá náttúrufarslegum sjónarmiðum, út frá landgæðum og út frá slíkri vinnu verði framtíðarskipulag landsins byggt. Og ég varpa hér fram þeirri hugmynd hvort að slíku landskipulagi ætti ekki að starfa í samvinnu við og við hliðina á Byggðastofnun og hvort það ætti ekki að heyra undir forsrn.

Það sem hér er lagt til að kannað verði er í fyrsta lagi varanlegur vegur yfir Sprengisand, sem mundi tengja Suðurland og Norðausturland, og í öðru lagi vegur norðan Vatnajökuls austur á Fljótsdalshérað. Færa má sterk rök að því að slík vegagerð sé alls ekki fjarlægur möguleiki þannig að fyrst um sinn yrði um að ræða varanlegan veg með 7–8 mánaða opnunartíma á ári. Benda má á að nú þegar hefur í tengslum við virkjunarframkvæmdir verið lagður vegur upp á miðjan Sprengisand. Það sem nú vantar er tenging niður í byggðir Norðurlands, 80 km að Tjörnum í Eyjafirði og 115 km að Mýri í Bárðardal.

Það liggja ekki fyrir nákvæmar kostnaðartölur um það hvað slíkar framkvæmdir mundu kosta, en lauslega áætlað, byggt á fyrri athugunum Vegagerðarinnar, mundi það kosta um 750 millj. kr. á núgildandi verðlagi að byggja þennan veg upp og leggja bundnu slitlagi.

Tenging við Austurland af Sprengisandsvegi yrði seinni tíma verkefni. Tímasetning þess verks færi sennilega eftir því hvenær ráðist yrði í Austurlandsvirkjanir.

Hins vegar hefur það komið í ljós þegar ég hef farið að kanna þessi mál betur að e.t.v. er það minna mál en margur hefur ætlað að tengja hálendisveginn þangað austur. Það er a.m.k. ljóst að Austfirðingar og Austurlandsbúar hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga.

Þegar rætt er um hálendisvegi verður að taka það fram að það er tvíþætt verkefni. Annars vegar að byggja upp og koma upp varanlegum vegi með sumarnotkun í huga, þ.e. 6–8 mánaða tíma. Hvort raunhæft er að tala þarna um heilsársveg er seinni tíma verkefni og mundi væntanlega ráðast af þeirri þörf sem þessi vegur mundi sýna fram á.

Ég vil benda á það hér að því hefur allt of lítið verið sinnt hérlendis að kanna á hvern hátt á að haga vetrarumferð yfir fjallvegi þannig að sem minnst hætta stafi af. Ég bendi á það að erlendis er ýmsum aðferðum beitt svo sem að loka vegum tímabundið vegna slæms veðurs, fara fram á tilkynningarskyldu og, mál sem hér var til umræðu í síðustu viku á þingi, að hafa neyðarsíma við vegina. Menn hafa rætt um slæm veður, menn hafa rætt um mikil snjóalög í þessu sambandi. Það er hægt.að fara fljótt yfir sögu. Miðhálendið er snjólétt og það liggja fyrir upplýsingar um veðurfar á þessum svæðum.

Þá komum við að hugsanlegum áhrifum hálendisvega á byggðaþróun í landinu, en þau eru margþætt. Þar vil ég fyrst benda á að flestar meiri háttar umbætur í vegamálum síðustu áratugi hafa miðast við að bæta samgöngur viðkomandi landshluta við höfuðborgarsvæðið. Vissulega hefur slíkt verið til hagsbóta fyrir landsbyggðina, en í flestum tilfellum hefur hagur Reykjavíkur og nágrennis orðið enn meiri, þ.e. staða höfuðborgarinnar sem miðstöðvar allra samgangna í landinu hefur styrkst.

Sú tillaga sem hér er borin fram gerir ráð fyrir því að kanna vegalagningu þvert yfir hálendið og á þann hátt að brjóta samgöngumunstur landsins upp. Það má færa að því sterk rök að ef þetta er framkvæmanlegt þá séu fáar framkvæmdir í samgöngumálum sem gætu verið eins virkar til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins sem þessi.

Það er oft hægt að leika sér með tölur. Ég ætla ekki að fara með margar tölur hér, en ég get nefnt sem dæmi að vegalengdin Reykjavík-Egilsstaðir mundi styttast um 250 km eftir slíku vegakerfi, Selfoss-Akureyri um 190 km og vegalengdin frá uppsveitum Suðurlands og virkjunarsvæðunum þar til Akureyrar mundi styttast um nálægt 300 km.

Ég sagði áðan að ég teldi að slík framkvæmd gæti haft mikil áhrif í byggðalegu tilliti. Ég ætla að rökstyðja það örlítið betur. Nútímaþjóðfélag gerir kröfur um hátt þjónustustig. Hátt þjónustustig næst best þar sem margt fólk býr á til þess að gera litlum bletti, þ.e. menn gera þá kröfu til þess að byggðin sé þétt. Þetta er hægt að gera á tvennan hátt, annars vegar með því að flytja til fólk, eins og mér finnst að allt of mikið hafi verið uppi hér í okkar þjóðfélagi, hins vegar að færa byggðirnar saman með bættum samgöngum og að því miðar þessi tillaga.

Slíkur vegur sem hér um ræðir mundi einnig tengja saman þau svæði landsins sem frá náttúrunnar hendi hafa mesta þróunarmöguleika til þess að mynda jafnvægi andspænis höfuðborgarsvæðinu. Áður en lagt væri í slíkar framkvæmdir og hluti af rannsóknum sem þessi tillaga beinist að er sú að leggja endanlegt arðsemismat á slíka framkvæmd. Til þess að gera það þarf að beita öðrum aðferðum en gert hefur verið hingað til í flestum tilfellum við vegagerð hérlendis. Það verður að leggja vinnu í að meta áhrif hennar á samvinnu fyrirtækja á viðkomandi svæðum, stækkun markaðssvæða, ávinning í ferðamálum o.s.frv. Ég get nefnt hér örfá dæmi.

Í gegnum starf mitt að félags- og atvinnumálum er mér mjög kunnugt um þörf mjólkurvinnslunnar í landinu á bættum samgöngum. Þar stöndum við frammi fyrir því nú á komandi sumri að þurfa að flytja 2–3 millj. lítra af mjólk eða undanrennu af norðansvæðinu til þurrkunar fyrir sunnan í Flóanum. Samgöngubætur sem þessar mundu auðvelda þetta verulega. Ég gæti nefnt dæmi af mér persónulega. Ég hef átt í viðskiptum við byggingarfyrirtæki á Selfossi núna í vetur og hefði orðið báðum aðilum til mikilla hagsbóta að hafa bættar samgöngur á milli þessara landshluta. Þetta er einmitt það sem málið snýst um, ef það er raunhæft, að við erum að gera landshluta, sem fram að þessu hafa nánast ekki haft nokkrar samgöngur, að næstu nágrönnum.

Fyrsti ávinningur slíkrar vegagerðar sem hér um ræðir yrði án efa í ferðamálum þar sem góður vegur um hálendið mundi tengja saman fjölförnustu ferðamannasvæði landsins og opna nýjar hringleiðir um landið. Það er ekki nokkur vafi á því að slíkt yki aðdráttarafl landsins fyrir útlendinga og ferðalög Íslendinga innan lands og mundi á þann hátt bæði afla gjaldeyris og spara gjaldeyri. Ég held að þetta væri mjög mikilvægt, ekki síst fyrir Norðausturland þar sem eru margir af þeim stöðum sem ferðamenn sækjast mest eftir að skoða. Við Norðlendingar, íbúar Norðausturlands, værum þarna komnir í aðstöðu til að að geta tekið á móti erlendum ferðamönnum til lengri dvalar og gætum innan eðlilegs ferðaradíusar sýnt þeim mjög marga merkustu staði landsins, þar með talið þá sem liggja ofarlega á Suðurlandi.

Ég ætla einnig að benda á það að þessi þáltill. fellur að starfsáætlun núv. ríkisstjórnar, þar sem segir í kafla um byggðastefnu og samgöngumál, með leyfi forseta: „Átak verði gert í samgöngumálum og fyrirliggjandi áætlanir á sviði samgangna samræmdar í þeim tilgangi að bæta tengsl milli byggðarlaga og stuðla að stækkun atvinnu- og þjónustusvæða.“

Það er einn flötur enn á þessu máli sem mér finnst gaman að velta svolítið upp. Hann er sá að við erum þarna að ræða um samgönguleiðir sem voru aðalsamgönguleiðir í árdögum byggðar á Íslandi, þ.e. menn voru hagsýnir í þá daga og fundu það strax að stystu leiðir á milli áfangastaða lágu um hálendið.

Þær samgöngur lögðust hins vegar af mikið til af náttúrufarslegum ástæðum, þ.e. uppblástur og gróðureyðing á hálendinu gerði það erfiðara yfirferðar miðað við þá tækni sem þá var uppi. Í dag eru aðstæður aðrar og vissulega að mínu mati ástæða til að kanna þetta mál til hlítar.

Það þykir kannski einhverjum það kokhreysti af þm. að flytja þetta mál hér. Ég hrökk svolítið við þegar hv. 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson líkti máli sem hann var að fjalla um hér í þingræðu í síðustu viku við það að menn væru að berjast fyrir framgangi hálendisvega, því að hann sagði að það væri mál sem þm. hefðu forðast að taka upp á arma sína vegna þess að við þá byggju engir kjósendur. En ég tek þá áhættu í trausti þess að þetta sé mikið hagsmuna- og framfaramál fyrir kjósendur þeirra byggðarlaga sem næst þessum samgöngubótum liggja.

Ég vil einnig benda á það að þessi mál hafa nokkuð verið til umræðu nú á þessum vetri. Dr. Trausti Valsson skipulagsfræðingur hefur haldið þeim nokkuð á lofti og sett fram rökstuddar hugmyndir um hálendisvegakerfi og áhrif þeirra á byggðaþróun. Einnig má nefna það að Verkfræðingafélag Íslands hefur ákveðið að gangast fyrir ráðstefnu um tæknilega úttekt á þessum málum, þ.e. hálendisumferð, nú á vori komandi.

Herra forseti. Ég fer að ljúka máli mínu. En ég geri það að tillögu minni að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til atvmn. Sþ.