15.03.1988
Efri deild: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5759 í B-deild Alþingistíðinda. (3885)

363. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þær upplýsingar sem fram komu. Samkvæmt þeim er það ætlun hennar að skýrsla um húsnæðiskerfið verði tilbúin innan viku. Í dag er þriðjudagurinn 15. mars og við gerum þá ráð fyrir að sjá þessa skýrslu um endurskoðun strax eftir helgina. Hæstv. ráðherra skýrði einnig frá því að hún mundi leita til aðila vinnumarkaðarins með þetta plagg. Ég tel að það sé auðvitað sjálfsagður hlutur að það verði ekki einasta aðilar vinnumarkaðarins sem þarna komi við sögu, heldur líka stjórnarandstaðan á Alþingi og vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hún hafi nokkuð á móti því að stjórnarandstöðuflokkarnir fái aðgang að þessari skýrslu strax og hún liggur fyrir. Hér er um að ræða mál sem eðlilegt er að allir flokkar komi að. Ég bendi á það að á síðasta kjörtímabili áttum við um það mjög gott samstarf, þm. Alþb., Alþfl. og Samtaka um kvennalista, að knýja á um skipun milliþinganefndar í húsnæðismálum. Sú nefnd gekk ekki frá málum með þeim hætti sem við hefðum talið æskilegt eins og kunnugt er. M.a. tók hún ekki á félagslega húsnæðiskerfinu sem er þó það brýnasta að mínu mati. Við vorum þá sammála um það öll, fulltrúar þessara þriggja flokka, að rétt væri að stjórnarandstaðan væri aðili að málinu. Það er því í samræmi við það þegar ég inni hæstv. ráðherra eftir því hvort stjórnarandstaðan fái ekki að koma að þessu máli með þeim hætti sem eðlilegan verður að telja.

Um frv. að öðru leyti og svör hæstv. ráðherra ætta ég engu við að bæta, aðeins að segja það að auðvitað fær félmn. málið til meðferðar og gerir hún þá kannski einhverjar breytingar á því. Við ráðum auðvitað engu um það sem erum þar úr stjórnarandstöðunni. Stjórnarliðið kemur sér sjálfsagt saman um hlutina þar eins og kemur rétt aðeins fyrir hjá þeim.

Ég tek fram að lokum, herra forseti, að ég tel aðstaðan í húsnæðismálunum sé svo alvarleg, biðlistarnir svo hrikalegir, óvissan svo erfið fyrir fólkið, að það sé ekki hægt að ljúka þessu þingi án þess að tekið verði á þessum húsnæðismálum í heild. Ég tel þess vegna að það sé of seint að taka á þessu máli í haust, það eigi að gera það strax á þessu þingi og afgreiða lög um nýtt og brúklegt húsnæðislánakerfi og þó sérstaklega félagslega íbúðabyggingakerfið, á þessu þingi. Ef tillaga liggur fyrir frá nefnd um endurskoðun húsnæðislánakerfisins nú eftir nokkra daga ætti okkur ekki að vera neitt að vanbúnaði að setja niður í vetur lög um nýtt húsnæðislánakerfi. Þess vegna lýsi ég því yfir, jafnframt því sem ég fer fram á að fá aðgang að þessum skýrslum, að það er mín skoðun að það hljóti að vera algjörlega fráleitt, miðað við það alvarlega ástand sem er á þúsundum heimila í húsnæðismálum, að þessu þingi verði slitið án þess að á þessum málum verði tekið. Frv. af því tagi sem hér er til meðferðar og snertir einn þátt þessara mála, skyldusparnaðinn, annað frv. hinn daginn, hitt frv. þriðja daginn, breytir í rauninni svo sáralitlu. Þetta er stórfelldur alvarlegur vandi og þetta þing hefur ekkert betra við sinn tíma að gera en að ganga frá endurskoðun á þessum málum í heild, herra forseti.