15.03.1988
Efri deild: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5762 í B-deild Alþingistíðinda. (3888)

363. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir þá yfirlýsingu sem hún gaf áðan um að allir flokkar í þinginu fái aðgang að niðurstöðum þeirrar nefndar sem hún skipaði fyrir fáeinum vikum og er undir forustu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar. Ég tel að það sé mikilvægt að stjórnarandstöðuflokkarnir fái aðild að þessu máli, allir flokkar hér í þinginu. Ég held að það sé kannski ekki síst nauðsynlegt vegna þess að við höfum náttúrlega orðið vör við að stjórnarsamstarfið hefur verið hæstv. félmrh. mjög erfitt og mótdrægt. Tafir á málum hennar hér í þinginu hafa ekki stafað af því að stjórnarandstaðan hafi lagst gegn málum. Ég minni á að frv. sem fór hér í gegn í haust um Húsnæðisstofnun ríkisins fór í gegnum þessa deild á einum degi eða tveimur. Stjórnarandstöðuflokkar hafa ekki tafið fyrir málum eins og kaupleigufrv. Það er bersýnilega mjög erfið sambúð í ríkisstjórninni að því er varðar þessi húsnæðismál. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að hæstv. félmrh. vinnur vel og hún leggur sig alla fram. En það gerir auðvitað enga stoð nema í kringum hana sé sterkur pólitískur vilji til þess að koma málum fram. Manni hefur sýnst að þann vilja skorti tilfinnanlega í báðum samstarfsflokkum hæstv. ráðherra og sömuleiðis reyndar í Alþfl. eins og fram kom þegar framlag til Byggingarsjóðs ríkisins var skorið niður um 100 milljónir um daginn.

Ég sem sagt tek það fram að ég tel að það sé ánægjulegt að stjórnarandstaðan og flokkarnir hér í þinginu fái aðgang að þessari skýrslu. Ég endurtek það hins vegar að engin ástæða er til að ljúka þessu þingi hér í vetur án þess að taka á húsnæðismálunum í heild. Hæstv. ráðherra tók það fram að stuttur tími væri eftir af þessu þingi. Ég vil segja við hæstv. ráðherra og hæstv. forseta að það liggur ekkert fyrir um það hvort stuttur eða langur tími er eftir af þessu þingi og við skulum bara hafa hann langan ef það er nauðsynlegt til þess að taka á húsnæðismálunum.