15.03.1988
Neðri deild: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5772 í B-deild Alþingistíðinda. (3895)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Forseti (Jón Kristjánsson):

Áður en hæstv. iðnrh. tekur til máls um þingsköp þá vil ég geta um það sem að forustu þingsins snýr í þessum efnum. Ég tek undir það að auðvitað er það æskilegast að geta nýtt tíma þingsins sem allra best og þó nýttur hafi verið allur tími þessarar deildar að undanförnu að undanteknum síðasta fundi, sem var held ég fyrsti fundurinn í vetur sem stóð ekki tilskilinn tíma, þá er það vissulega rétt að stjórnarfrv. hafa ekki verið hér til umræðu núna eina þrjá síðustu fundi. Þau meðul sem við forsetar þingsins höfum í höndunum til þess að hafa áhrif á þessi mál eru einungis þau að ræða við ráðherra í ríkisstjórn, ræða við formenn þingflokka og ræða við formenn nefnda um að sjá þinginu fyrir störfum að störf gangi hér fyrir sig með eðlilegum hætti. Ef stjórnarfrv. koma seint fram þá er auðvitað tekin áhætta með því að þau hljóti ekki afgreiðslu. Auðvitað taka hæstv. ráðherrar áhættu með því eftir því sem þetta dregst lengur og eftir því sem umfjöllun í þingflokkum dregst lengur um frv. sem fram eiga að koma. Ég endurtek að þau meðul sem við þingforsetar höfum í þessu efni þau eru notuð. En að sjálfsögðu getum við ekki skipað fyrir, hvorki þingmönnum, ráðherrum eða nefndarformönnum í þessu efni. Við getum aðeins haldið með þeim fundi og sett fram okkar skoðanir í þessum málum og það er vissulega gert.

Þeirri spurningu var beint til mín hvað væri eftir af starfstíma Alþingis. Það er aðeins rúmlega vika eftir fram að páskahléi og páskahléið er ákveðið tvær vikur, páskavikan og ein vika þar á eftir. Um það hefur verið rætt að að fyrsti dagurinn eftir páskahlé sé síðasti dagurinn samkvæmt þingsköpum til að leggja fram ný þingmál. Þinglok hafa ekki verið ákveðin enn og ég get ekki sagt um það á þessari stundu hvenær þingi lýkur í vor. Sá dagur hefur ekki verið ákveðinn enn þá. En þing kemur saman 11. apríl að loknu páskahléi. Væntanlega verður nóg að gera við tímann í apríl og maí og ég vil geta þess að æskilegt er og nauðsynlegt að þingmál komi hér fram og til umræðu sem allra fyrst, þau sem eiga að afgreiðast á þessu þingi. Ég tel mig hafa svarað því sem til mín var beint í þessu efni.