15.03.1988
Neðri deild: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5772 í B-deild Alþingistíðinda. (3896)

Framlagning stjórnarfrumvarpa

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Í máli hæstv. forseta hafa komið fram þær skýringar sem hann hefur gefið vegna fsp. sem til hans var beint. Ég vil að öðru leyti þakka hv. 2. þm. Austf. fyrir þann áhuga sem hann sýnir á framlagningu stjfrv. Það er góðra gjalda vert að minna okkur á það að það á eftir flytja eða leggja fram nokkur af þeim frv. sem ætlunin var að flytja og leggja fram á Alþingi samkvæmt starfsáætlun ríkisstjórnarinnar þegar stefnuræða forsrh. var flutt hér á Alþingi fyrr á þessu þingi.

Sum af þeim frv. sem þar eru nefnd eru nú þegar til skoðunar í þingflokkum stjórnarflokkanna, en það er jafnframt ljóst að önnur sem hafa verið í vinnslu hjá nefndum, ráðuneytum og öðrum þeim sem undirbúa stjfrv., koma ekki til með að vera lögð fram á þessu þingi enda hefur það í nokkrum tilvikum verið upplýst. Þar á meðal vil ég minna á að í fsp. sem til mín var beint af hálfu hv. 11. þm. Reykv. kom fram að nokkur þeirra frv. sem ætlunin var að flytja á vegum iðnrn. verða ekki lögð fram á þessu þingi, en það eru frv. um einkaleyfi, vörumerkingar og mynsturvernd. Þau frv. geta ekki komið til kasta hv. Alþingis fyrr en næsta haust og gaf ég vonandi nægilega góða skýringar á því þegar það mál var til umræðu hér á hv. Alþingi.

Mér finnst einnig ástæða til að hæstv. forsetar beiti sér fyrir því að mál verði tekin fyrir í nefndum, bæði stjórnarfrv. og önnur frv. sem ætlunin er að afgreiða í vetur.

Ég minni á að það er stundum seinagangur í nefndum. Ég er ekki einn þeirra sem telja að dugnaður þingmanna og ráðherra fari eftir því hve mörg mál þeir flytja og tel stundum að það sé of mikið gert að því að flytja mál og setja allt í lög. Ég held að það sé meiri dyggð og betri að reyna að koma í veg fyrir að setja sumt í lög sem hv. alþm. og ríkisstjórnir reyna að gera á hverjum tíma og það geti jafnvel verið mikil dyggð að koma í veg fyrir að ýmislegt af því sem reynt hefur verið að setja í lög komist í lög heldur geti menn ráðstafað sínu lífi án þess að það sé lögbundið hvernig ferð þeirra er í gegnum lífið.

Ég vil hins vegar nefna að tafir hafa orðið á málum, einkum og sér í lagi í nefndum, vegna þess að það hefur gengið erfiðlega að fá nál. og get ég nefnt dæmi af þessu eina frv. sem ég hef flutt á þessu þingi. Í hv. Ed. var málið tekið út í byrjun desember úr nefnd, meiri hl. skilaði sínu nál. vel fyrir jól en minni hl. gerði það ekki fyrr en í febrúar þannig að ekki var hægt að taka málið til umræðu fyrr en í lok febrúar. Það sýnir sig þannig að stundum er ekki hægt að kenna hæstv. ríkisstjórn um að hægagangur sé á málum í meðferð Alþingis.

Ég vil hins vegar vegna orða hv. 2. þm. Austurl. segja að ég tel eðlilegt að hæstv. ríkisstjórn endurskoði þann lista sem lá fyrir í haust. Sá listi var einungis áætlun um hvaða mál yrðu lögð fram á hv. Alþingi. Ég mun beita mér fyrir því að sá listi verði endurskoðaður og formönnum þingflokka og hæstv. forsetum verði afhentur sá listi þannig að þeir sem bera ábyrgð á störfum þingsins geti betur áttað sig á hvernig hægt verði að haga störfum þingsins það sem eftir er.