16.03.1988
Efri deild: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5792 í B-deild Alþingistíðinda. (3908)

202. mál, Háskólinn á Akureyri

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka samnefndarmönnum mínum samstarfið að þessu máli. Eins og fram kom í máli hv. frsm. rituðu allir nefndarmenn undir þetta nál., en þó tveir með fyrirvara og þar sem ég er önnur þeirra, þá ætla ég að gera aðeins stuttlega grein fyrir því hvers vegna ég hef fyrirvara þar á.

Það eru tvær ástæður sem liggja að baki þess fyrirvara sem ég setti við undirskrift mína og ég tel rétt að gera grein fyrir hér í umræðunum um þetta mál um Háskólann á Akureyri. Í fyrsta lagi tel ég að enn vanti mikið á að við getum státað okkur af heilsteyptri menntastefnu hér á landi og þá ekki síst á því skólastigi sem hér um ræðir. Íslenska skólakerfið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum tveimur áratugum og fengið að þróast fremur frjálslega. Á ég þá aðallega við framhaldsskólastigið sem segja má að sé að hluta til undirbúningur undir æðra nám, hvort sem er á háskólastigi eða í starfsgreinum af ýmsu tagi.

Síbreytilegar aðstæður og auknar menntunarkröfur í æ flóknara þjóðfélagi kalla á stöðuga endurnýjun og endurmat á menntastefnu þjóðarinnar. Segja má að á framhaldsskólastiginu sjálfu hafi þessu kalli að nokkru leyti verið sinnt með fjölgun námsbrauta og valmöguleika nemenda, sem nú koma inn í framhaldsskólann með mjög mismunandi undirbúning. Hins vegar hefur nokkuð skort á að nemendur hafi að loknu framhaldsskólanámi haft um fjölbreytilegt nám að velja þrátt fyrir þá staðreynd að vinnumarkaðurinn og þjóðfélagið sem slíkt geri síauknar kröfur um sérhæfingu og starfsmenntun, ekki síst á sviði tækni og verklegrar þjálfunar. Ég tel því löngu orðið tímabært að huga að námsbrautum fyrir nemendur sem ekki hafa ábuga á eða hæfir ekki að stunda „akademískt“ nám.

Eins og svo oft áður í sögunni tökum við seint við okkur, en þá af svo miklu kappi að upp spretta háskólar og þeir frekar þrír en einn á tveimur árum. Reyndar hafa tveir þessara nýju háskóla sérhæft sig í tölvu- og viðskiptagreinum. Þessi þróun sýnir svo sannarlega þá þörf sem er fyrir sérmenntun af ýmsu tagi að framhaldsskólastiginu loknu. Það er hins vegar mikið umhugsunarefni hvers konar menntastofnanir hæfa okkur, smáþjóð með 250 þús. íbúa, á þessu skólastigi.

Þar kem ég að hinni ástæðunni fyrir því að ég undirrita nál. um Háskólann á Akureyri með fyrirvara. Í frv. liggur að mínu áliti ekki alveg ljóst fyrir um hvers konar menntastofnun hér er að ræða, hefðbundinn háskóla með vísindalegum rannsóknum og skyldum eða svokallaðan fagháskóla. En væntanlega mun starfið og þær námsbrautir sem upp verða settar á næstu árum leiða í ljós hvert meginhlutverk stofnunarinnar verður.

Í frv. er gert ráð fyrir endurskoðun laganna á næstu þremur árum og tel ég það alveg nauðsynlegt. En á þeim tíma sem til stefnu er verður væntanlega og vonandi ekki aðeins einblínt á þessa stofnun sem slíka. Það verður að móta heildarlöggjöf um háskólastigið og gera samræmdar kröfur um inntökuskilyrði á sama hátt og um önnur skólastig, en eins og hv. þm. vita sjálfsagt munum við væntanlega fjalla um frv. til laga um framhaldsskóla í þessari hv. deild nú á næstunni.

Það hefur reyndar dregist úr hömlu að setja rammalöggjöf um það skólastig, en við stöndum nú frammi fyrir því og gera menn sér væntanlega vonir um að það nái fram að ganga í einhverri mynd. En um leið og ég vil leyfa mér að skora á hæstv. menntmrh. að beita sér fyrir því að á næstu árum fari fram heildarskoðun á því skólastigi sem hér um ræðir, þá vil ég líka þakka þá viðleitni hans sem fram kemur í ráðstefnuhaldi nú í vetur vegna skýrslu OECD um grunnskólann og framhaldsskólann. En ég tel að það sé löngu tímabært að taka upp sams konar umræðu um það skólastig sem við tekur eftir framhaldsskólann. En það er eitt annað sem líka þarf að taka mjög föstum tökum og það er að tengja þessi skólastig okkar saman því það er okkur oft þrándur í götu hversu lítil fagleg samskipti eru milli þeirra sem starfa á hinum mismunandi skólastigum.

Í þeirri heildarskoðun sem ég hef nefnt er nauðsynlegt að taka tillit til mjög margra þátta. Í því sambandi vil ég sérstaklega minna á einn þátt og það eru þeir miklu möguleikar sem ný tækni gefur okkur til þess að þjóna öllu landinu en ekki aðeins afmörkuðum svæðum. Vil ég minna á frv. til laga um fjarnám ríkisins sem lagt var fram af hv. varaþingkonu Kvennalistans á 108. löggjafarþingi. Þó það fjallaði ekki sérstaklega um háskólastigið, þá gilda þar sömu grundvallarmarkmiðin, en í 3. gr. þess lagafrv. segir, með leyfi forseta:

„Markmið laganna er að bæta og jafna aðstöðu fólks til náms óháð búsetu, aldri, efnahag og ferligetu.“ - Nú hefur reyndar verið byrjað með tilraunafjarkennslu, en það þarf að gera miklu meira af því að styrkja og móta þá starfsemi.

Herra forseti. Við Íslendingar verðum að láta af þeim bráðabirgða- og skyndihugsunarhætti sem um of hefur einkennt menntastefnu okkar í gegnum tíðina. Á þessari stundu hlýtur það að vera ósk mín að Háskólinn á Akureyri megi dafna og blómstra norðan heiða og það er von mín að hann muni aldrei þurfa að búa við húsnæðisskort, tækjaskort, bókaskort og kennaraskort sem hefur staðið allt of mörgum menntastofnunum okkar fyrir þrifum.