16.03.1988
Efri deild: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5794 í B-deild Alþingistíðinda. (3909)

202. mál, Háskólinn á Akureyri

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Eins og fyrri ræðumaður, hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir, geri ég fyrirvara við það nál. sem hér liggur fyrir um háskóla á Akureyri. Fyrirvari minn beinist í fyrsta lagi að nafni skólans eða þeirri menntastofnun sem lögin eiga að taka til. Ég tel að ekkert samræmi sé á milli efnis frv. og þeirrar merkingar sem nauðsynlegt er að lögð verði í nafnið háskóla. Nafnið háskóli í íslenskri tungu hefur fengið á sig þann blæ að þar sé á ferð vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun og komi í stað orðsins universitas á latínu. Fari þar fram bæði rannsóknir og fræðsla af hálfu nemenda og kennara. Ég held að þetta frv. sem hér liggur frammi uppfylli ekki þessi skilyrði um vísindalega fræðslu og vísindalega rannsóknarstofnun.

En þrátt fyrir þennan annmarka, sem ég tel að sé á frv., vil ég ekki standa í vegi fyrir því að þessi umræða verði hér. Hugsanlegt hefði verið að skila minnihlutaáliti og krefjast þess að málinu yrði vísað aftur til ríkisstjórnarinnar, en þar sem nauðsyn kallar á að lög fyrir þessa menntastofnun verði sett, þá taldi ég rétt að skrifa undir álitið með fyrirvara.

Það skal tekið skýrt fram að ég er ekki á móti þessari stofnun sem slíkri á Akureyri. Þessi stofnun á fyllilega rétt á sér. Hins vegar tel ég mjög varhugavert, eins og fram kom áðan, að telja þetta háskóla í þeirri merkingu sem við viljum leggja í það hugtak.

Eins og fram kemur í nál. voru flestir þeir aðilar sem leitað var umsagna hjá á móti frv. Það var aðallega byggt á því sem ég sagði hér áðan. Vil ég leyfa mér hér að vísa til umsagnar Háskóla Íslands og lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, hvað þar kemur fram, en þar segir:

„Stofnun nýs háskóla á Íslandi er athyglisverð, m.a. vegna þess að þá er á nýjan leik tekin afstaða til þess, eða ætti að taka afstöðu til þess, hvað háskóli er. Hugtakið háskóli hefur um langt skeið í íslensku máli fyrst og fremst vísað til Háskóla Íslands sem stofnunar og þess starfs sem þar fer fram. Samkvæmt síðari alda hefð og viðurkenndri framkvæmd í samskiptum við erlendar menntastofnanir samsvarar háskólaheitið hugtakinu „universitas“ í ýmsum afbrigðum þess á öðrum tungumálum. Í hugtaki þessu felst ákveðinn efniskjarni, sem telst og hefur frá fornu fari talist aðall hverrar þeirrar stofnunar sem vill standa undir nafni.

Í 1. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 77/1979, er kjarninn í háskólahugtakinu orðaður í stuttu máli svo: „Háskóli Íslands skal vera vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun, er veiti nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum til þess að gegna ýmsum embættum og störfum í þjóðfélaginu.“

Bæði kennsluþættinum og rannsóknaþættinum er sinnt í Háskóla Íslands. Er það raunar sterk sannfæring margra, ef ekki flestra, að „vísindalegri“ fræðslu verði ekki sinnt, svo að vel fari, nema saman fari rannsóknir og fræðsla. Það er einmitt sérkenni háskólastarfs að flétta þetta tvennt saman, fræðslu og rannsóknir.

Til þess er ætlast að háskóli sýni frumkvæði og hafi forystu um rannsóknir. Forsenda þess er sú að stundaðar séu grundvallarrannsóknir til að afla nýrrar þekkingar, en hagnýtar rannsóknir eru einnig mikilvægar sem þáttur í þjónustuhlutverki háskólans við ýmsar starfsgreinar þjóðfélagsins.

Annað meginatriði háskólahugtaksins er fjölbreytni í rannsóknum og námsframboði. Háskólar eru stofnanir, sem reyna að spanna mikinn hluta þeirrar vísindalegu sérfræði, sem þjóðfélagið þarf á að halda hverju sinni, en takmarka sig ekki við einstakar sérgreinar eða starfshópa. Þess vegna á starfsmenntun betur heima í sérskólum en almennum háskólum eins og Háskóla Íslands.

Þriðja grundvallareinkenni háskóla er ákveðin sjálfstjórn og starfsmannalýðræði er byggist á gömlum alþjóðlegum hefðum. Ríkisháskólar njóta almennt mun meira sjálfstæðis um innri málefni sín en tíðkast um aðrar ríkisstofnanir. Þetta birtist með ýmsum hætti í lögum um Háskóla Íslands og framkvæmd þeirra.“

Síðan segir:

„Í frv. því sem hér er beiðst umsagnar um, varðandi fyrirhugaðan háskóla á Akureyri kemur fram greinilegur tvískinnungur milli háskóla í hinni hefðbundnu merkingu, sem lýst var hér að framan, og sérskóla (starfsmenntunarskóla) á háskólastigi í hinni formlegu merkingu laga nr. 55/1974. Skal þetta nú nánar skýrt.“

Ég nenni nú ekki að lesa það en efnislega segir þar að þróunin sé sú að ýmsir minni háttar sérskólar komist á háskólastig. Þarna sé um mjög stutt nám að ræða en ekki þessi akademíski háskóli sem við teljum að Háskóli Íslands sé. Þar er minnst á að þessir minni háttar skólar á háskólastigi, sem á erlendum tungumálum hafa verið kallaðir Community College, Fachhochsehule og Högskola, séu annað en latneska heitið universitas feli í sér og eigi að gera þarna vissan greinarmun á. Og það er einmitt það sem ég vil gera fyrirvara um í minni ræðu.

Ef telja ætti Háskólann á Akureyri háskóla, þá mundi ég vilja beina þeim tilmælum til hæstv. menntmrh. hvort ekki megi þá breyta t.d. nafni Háskóla Íslands í t.d. Lærða skóla eða fræðisetur, en í Færeyjum t.d. heitir æðsta menntastofnun Fræðisetur Færeyja. Ég held að það verði að gera þarna skýran greinarmun á milli þessara tveggja háskólastofnana, Háskólans á Akureyri og svo Háskóla Íslands, þannig að þessu sé ekki ruglað saman.

Að öðru leyti vil ég taka undir það, sem fram kom fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. e., að ég tel að nauðsyn sé á þessari stofnun á Akureyri, en ekki í þeirri mynd og ekki með því heiti sem hér er rætt um.