03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

36. mál, fjöldauppsagnir á Orkustofnun

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. iðnrh. fsp. varðandi uppsagnir starfsfólks á Orkustofnun nú nýverið og eru þær á þskj. 36 í þremur liðum. Ég spyr hæstv. iðnrh. fyrst og fremst hvers vegna gripið er til þessara uppsagna með svo stuttum fyrirvara eða nær fyrirvaralaust, hvers vegna það er ekki gert í tengslum við neina stefnumörkun eða skoðun á starfsemi stofnunarinnar sem þó stendur fyrir dyrum. Það er einnig spurt að því hvað verði um þau verkefni sem þetta starfsfólk hefur sinnt og hvaða áhrif þessar aðgerðir muni hafa á framtíðarrannsóknir sem heyra til verksviði þessarar stofnunar. Enn frekar er spurt hvort vænta megi fleiri aðgerða af þessu tagi.

Ég tel, herra forseti, nauðsynlegt að menn átti sig á því í tengslum við þessa fsp. að starfsemi Orkustofnunar hefur dregist mikið saman á undanförnum árum. Þar hefur fækkað um 30–40 manns á sl. fáeinum árum. Það er í tengslum við minni verkefni á sviði virkjanarannsókna, en það er síður en svo að þörf fyrir starfsemi þessarar stofnunar sé gufuð upp, öðru nær. Orkustofnun á lögum samkvæmt að sinna mjög viðamiklum verkefnum á sviði upplýsingaöflunar og grunnrannsókna er tengjast hvers kyns orkuöflun og upplýsingasöfnun þar að lútandi í landinu.

Hæstv. fyrrv. iðnrh. Sverrir Hermannsson lét gera úttekt á starfsemi stofnunarinnar í eina tíð sem varð nokkuð fræg. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri óeðlilegt að rúmlega 120 manns störfuðu að þessum verkefnum, en það er nákvæmlega sá fjöldi sem var í störfum áður en þessar fyrirvaralausu uppsagnir komu til framkvæmda.

Ég hygg, herra forseti, að þessar harkalegu og fyrirvaralausu aðgerðir stjórnar stofnunarinnar lýsi nokkurri vanþekkingu á þörfum fyrir verk hennar og að það sé í raun og veru furðulegt, með hliðsjón af 2. gr. orkulaga í 1. kafla, um hlutverk Orkustofnunar, að gripið sé til svo mikilla og skyndilegra uppsagna þar sem jafnmikil verkefni bíða úrlausnar í sambandi við upplýsingaöflun og grunnrannsóknir á sviði orkumála í landinu.

Það er svo að á meðan mest var umleikis hjá þessari stofnun ýttust nánast allar grunnrannsóknir í landinu til hliðar, viku fyrir þeim miklu verkefnum sem uppi voru í virkjunarrannsóknum á seinni hluta áttunda áratugarins og í byrjun þess níunda. Þess vegna kemur það úr hörðustu átt að mínu mati, þegar um hægist hjá stofnuninni á þessu sviði og meira tóm ætti að gefast til að sinna grunnrannsóknum, að gripið sé til svo harkalegra og lítt rökstuddra aðgerða sem hér frá greinir. Ég bíð því spenntur eftir að heyra rökstuðning hæstv. iðnrh. fyrir nauðsyn þessa.