16.03.1988
Efri deild: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5802 í B-deild Alþingistíðinda. (3913)

202. mál, Háskólinn á Akureyri

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég nefndi þetta í spurnarformi. Menn hefðu velt því fyrir sér, sagði ég, hvort ekki hefði verið eðlilegra að hér hefði orðið til Háskóli Íslands með deildum sem fjölluðu um ýmis afmörkuð verkefni. Það er því rangt eftir mér haft að ég hafi verið með tillögugerð í þeim efnum. Ég taldi ástæðu til að nefna þetta vegna þess að þetta er vissulega mikið umhugsunarefni og ég hygg að það muni koma upp þeim mun oftar sem menn velta því meira fyrir sér hvort ekki hefði verið skynsamlegra að reyna að setja um þessar mundir einmitt lög um samræmingu háskólastigsins.

Ég kvaddi mér ekki hljóðs út af þessum orðum hv. 2. þm. Norðurl. e. fyrst og fremst heldur út af því að mér fannst það satt að segja nokkuð athyglisvert og sérkennilegt að hæstv. menntmrh. skyldi lesa eina umsögn af öllum þeim umsögnum sem bárust, gera hana að sinni og lýsa því þar með yfir að hún væri það marktækasta af öllum þeim gildu plöggum sem hérna liggja fyrir. Ég tel að allir hafi nokkuð til síns máls varðandi þessi efni. Ég tel að greinargerð Háskóla Íslands sé mjög athyglisverð og vönduð. Ég tel t.d. að það yfirlit sem kemur frá Jóni Torfa Jónassyni sé mjög fróðlegt, þar sem gerðar eru athugasemdir við hverja einustu grein frv., og væri eðlilegt að bæði menntmrn. og þm. kynntu sér þá grg. í einstökum atriðum.

Ég kvaddi mér hljóðs út af þessum orðum menntmrh. og vil segja að ég tel að það sé nauðsynlegt að það verði skýrt að hér er engin umsögn annarri rétthærri að mínu mati. Ég tel að það eigi að skoða þetta mál í heild og viðurkenna að það eru mörg álitamál þegar lagt er af stað, en vonandi verður það ekki til þess að spilla á neinn hátt fyrir því mikilvæga starfi sem við öll viljum af heilum hug að eigi sér stað í Háskólanum á Akureyri.