16.03.1988
Neðri deild: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5804 í B-deild Alþingistíðinda. (3920)

338. mál, sala notaðra bifreiða

Flm. (Ingi Björn Albertsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 668 um sölu notaðra bifreiða og annarra skráningarskyldra ökutækja. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Geir Gunnarsson, Guðmundur G. Þórarinsson, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Kristín Halldórsdóttir og Stefán Valgeirsson.

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur alloft orðið nokkur umræða um nauðsyn þess að setja löggjöf um starfsemi þeirra sem stunda verslun og umboðssölu með notaðar bifreiðar. Hefur umræðan oftar en ekki einkennst af neikvæðum viðhorfum í garð þeirra er þessa starfsemi stunda, oftast óverðskuldað. Því þykir full ástæða til að setja löggjöf um þessa starfsemi sem gæti orðið bifreiðasölum og viðskiptamönnum þeirra til hagsbóta. Að vísu voru sett lög um sölu notaðra lausafjármuna, lög nr. 61 1979, en ákvæði þeirra um sölu notaðra bifreiða eru afar ófullkomin svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Frv. þessu er ætlað að bæta hér úr, auk þess sem ætla má að löggjöf um þessi efni sé bæði bifreiða sölum og viðskiptamönnum þeirra til hagsbóta og geti dregið úr ágreiningi og dellum og létt af bílasölum óréttmætri gagnrýni vegna starfa þeirra.

Herra forseti. Ég leyfi mér að fara í gegnum greinar frv. hverja og eina og les jafnframt athugasemdir við þær jafnharðan.

1. gr. hljóðar svo: „Hver sá, sem reka vill verslun eða umboðssölu með notaðar bifreiðar eða önnur skráningarskyld ökutæki, skal hafa til þess sérstakt leyfi dómsmrn. Leyfi skal veitt til fimm ára í senn og aðeins þeim sem fullnægja skilyrðum laga nr. 41 1968,, um verslunaratvinnu, og fullnægja að öðru leyti þeim skilyrðum sem sett eru í lögum þessum.

Leyfishafi skal leggja fram tryggingu sem dómsmrn. metur gilda, að fjárhæð 1,5 millj. kr., til að standa straum af skaðabótum sem honum kann að verða gert að greiða viðskiptamanni vegna starfsemi sinnar. Fjárhæð tryggingar skal taka mið af verðlagsþróun eftir nánari reglum sem dómsmrh. setur með reglugerð.

Leyfishafi, svo og þeir sem starfa á hans vegum, skulu standast próf í samningarétti og skjalagerð eftir nánari reglum sem dómsmrh. setur með reglugerð. Undanþegnir slíku prófi eru þó héraðsdómsog hæstaréttarlögmenn.

Öðrum en þeim sem fengið hafa leyfi samkvæmt grein þessari er óheimilt að reka verslun eða umboðssölu með notaðar bifreiðar eða önnur skráningarskyld ökutæki.“

Skýringar við 1. gr. eru eftirfarandi: „Í greininni er mælt fyrir um það hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja til að mega reka verslun eða umboðssölu með notaðar bifreiðar eða önnur skráningarskyld ökutæki. Í lögunum sjálfum er hugtakið bifreið ekki skilgreint, en stuðst er við þá skilgreiningu sem fram kemur í umferðarlögum, nr. 50/1987. Um skráningarskyld ökutæki að öðru leyti vísast til reglna sem dómsmrh. setur skv. 64. gr. sömu laga.

Í 1. mgr. eru sett sömu skilyrði og í lögum nr. 61 1979, um sölu notaðra lausafjármuna, að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir að leyfisveitingar verði í höndum dómsmrh. í stað lögreglustjóra eins og mælt er fyrir í lögum nr. 61/1979. Þykir þetta eðlilegri skipan, enda er dómsmrh. ætlað að setja ýmsar reglur um bifreiðar samkvæmt lögum nr. 50/1987.

Í 2. mgr. kemur fram það nýmæli að bifreiðasala er gert að leggja fram tryggingu, sem dómsmrh. metur gilda, til að standa straum af skaðabótum sem honum kann að verða gert að greiða viðskiptamanni vegna starfsemi sinnar. Ýmis tilvik getur borið að höndum sem kunna að leiða til bótaábyrgðar bifreiðasala eftir almennum reglum. Ákvæði þessu er ættað að tryggja að bifreiðasali hafi ávallt nokkurt svigrúm til að greiða slíkar bætur, auk þess sem ákvæðið er nokkur trygging fyrir viðskiptamann sem kann að eiga rétt til bóta. Lagt er til í 2. mgr. að fjárhæð tryggingar taki mið af verðlagsþróun eftir nánari reglum sem dómsmrh. setur með reglugerð.

Í 3. mgr. er mælt fyrir um að leyfishafi, svo og þeir sem starfa á hans vegum, skuli standast próf í grundvallaratriðum samningaréttar og skjalagerð. Þykir eðlilegt að gera þessar kröfur til þessara aðila, enda eru þessi atriði snar þáttur í starfi þeirra og nauðsynlegt að þeir hafi nokkra grunnþekkingu á þessu sviði.

Í 4. mgr. er loks ótvírætt tekið fram að einungis þeim sem til þess hafa fengið sérstakt leyfi skv. 1. gr. sé heimilt að stunda þá starfsemi sem lögin taka til.“

Í 2. gr. frv. segir: „Afturkalla má leyfi skv. 1. gr. ef sannað þykir að leyfishafi hafi brotið lög nr. 41 1968, ákvæði laga þessara eða lög um óréttmæta viðskiptahætti eða ef leyfishafi fullnægir ekki lengur skilyrðum til að mega reka starfsemina.“

Þessi grein þarfnast ekki skýringar.

„3. gr. Dómsmrn. skal láta útbúa almenn stöðluð afsalseyðublöð og sölukvittanir sem beri sömu númer og bifreiðasala er skylt að nota í viðskiptum með notaðar bifreiðar eða önnur skráningarskyld ökutæki. Skulu eyðublöð þessi þannig gerð að þau gegni einnig hlutverki sölutilkynningar til Bifreiðaeftirlits ríkisins.

Seljandi bifreiðar eða annars skráningarskylds ökutækis skal sanna með vottorði Bifreiðaeftirlits ríkisins að hann sé skráður eigandi þess. Bifreiðasala er óheimilt að annast sölu bifreiðar eða annars skráningarskylds ökutækis nema ótvírætt sé að seljandi sé skráður eigandi þess eða fyrir liggi skrifleg heimild frá skráðum eiganda sé hann annar en seljandi og að fyrir liggi veðbókarvottorð yfir ökutækið.“

Um þessa grein segir í athugasemdum: „Í 1. mgr. er gert ráð fyrir því að dómsmrn. láti útbúa almenn stöðluð afsalaeyðublöð og sölukvittanir sem bifreiðasala sé skylt að nota í viðskiptum með notaðar bifreiðar og önnur skráningarskyld ökutæki. Er að þessu leyti höfð nokkur hliðsjón af 4. gr. laga nr. 44/1979, um húsaleigusamninga. Ákvæðinu er ætlað að stuðla að því að rétt og örugglega sé frá samningum þessum gengið og ekki séu í afsölum ólögmæt eða ósanngjörn ákvæði. Samræmd tölumerking afsala og sölukvittana er mikilvæg frá skattalegu sjónarmiði.

Þá er einnig gert ráð fyrir því nýmæli í 1. mgr. að afsalseyðublöð séu einnig sölutilkynningar til Bifreiðaeftirlits ríkisins, en nánari útfærsla þess er lögð í hendur dómsmrn. Slíkt fyrirkomulag yrði vafalaust til hagræðingar fyrir alla þá er gögn þessi varða.

Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. er samhljóða 3. mgr. 7. gr. laga nr. 61/1979 að öðru leyti en því að bætt er við ákvæði um önnur skráningarskyld ökutæki. Auk þess er því bætt hér við að sé eignarhald á bifreið eða öðru skráningarskyldu ökutæki ekki ótvírætt eða fyrir liggi skrifleg heimild frá skráðum eiganda sé bifreiðasala óheimilt að annast sölu ökutækis. Er með þessu stefnt að auknu öryggi í þessum viðskiptum. Sömu forsendur liggja að baki því ákvæði 2. mgr. að bifreiðasala sé óheimilt að annast sölu nema fyrir liggi veðbókarvottorð.“

II. kafli er um réttindi og skyldur bifreiðasala.

4. gr. laganna yrði svo: „Bifreiðasali skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Hann skal gæta þess að viðskiptamenn hans njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör, svo og þess að aðila séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir kostir í samningum. Telji bifreiðasali vafa leika á um greiðslugetu kaupanda skal hann gera seljanda um það viðvart.“

Um þessa grein er það að segja að í henni felast almenn ákvæði um skyldur bifreiðasala gagnvart viðskiptamönnum sínum. Áréttað er að bifreiðasali er í þjónustu beggja aðila, seljanda og kaupenda, og ber að gæta hagsmuna þeirra beggja við samningsgerð eins og kostur er. Þó má ætla að vegna reynslu sinnar sé bifreiðasala e.t.v. kunnugt um að kaupandi hafi litla sem enga raunhæfa möguleika á að standa við skyldur sínar samkvæmt tilboði og er þá eðlilegt að bifreiðasali geri seljanda um það viðvart. Áhættan hvílir eftir sem áður á seljanda taki hann tilboði eigi að síður.

5. gr. laganna yrði svo: „Bifreiðasali skal afla upplýsinga sem staðfestar skulu skriflega af seljanda um árgerð, akstur og ástand bifreiðar eða annars skráningarskylds ökutækis, svo og annarra þeirra upplýsinga sem kaupanda eru nauðsynlegar vegna kaupanna. Gögn þessi skal bifreiðasali varðveita í eitt ár frá söludegi viðkomandi ökutækis.“

Þetta segir í athugasemdum um 5. gr.: „Í 5. gr. er sú skylda lögð á bifreiðasala að afla þeirra upplýsinga sem kaupanda eru nauðsynlegar vegna kaupa á bifreið eða öðru skráningarskyldu ökutæki. Ákvæðinu er hvorki ætlað að leysa seljanda undan ábyrgð vegna þeirra upplýsinga sem hann veitir né er því ætlað að slaka á hinni svokölluðu „rannsóknarskyldu“ sem hvílir á kaupanda skv. 47. gr. laga nr. 39/1922, um lausafjárkaup. Hins vegar er ákvæðinu ætlað að skerpa skyldu bifreiðasala til að miðla þeim upplýsingum sem hann veit um eða hefur aflað í starfi sínu sem bifreiðasali. Varðveisluskylda bifreiðasala á gögnum í eitt ár er í tengslum við ákvæði 54. gr. laga nr. 39/1922. Ákvæði um skriflega staðfestingu seljanda á þeim upplýsingum, sem hann veitir, tryggir sönnun málsatvika ef til ágreinings kemur vegna viðskipta með notaðar bifreiðar eða önnur skráningarskyld ökutæki.“

6. gr. hljóðar svo: „Bifreiðasali skal annast um að endanlega sé gengið frá afsölum og öðrum skjölum vegna viðskipta á hans vegum og skal nafn þess bifreiðasala, sem gengur frá samningi, koma fram á afsali. Þá skal bifreiðasali jafnframt annast um að Bifreiðaeftirliti ríkisins berist sölutilkynning vegna hverrar bifreiðar eða annars skráningarskylds ökutækis sem selt er á hans vegum.

Nú annast bifreiðasali eða annar aðili viðskipti með bifreiðar eða önnur skráningarskyld ökutæki fyrir hönd kaupanda eða seljanda og skal sá aðili þá hafa skriflegt dagsett umboð er heimili slíka milligöngu.“

Um þessa grein segir í athugasemdum: „Í 1. mgr. er leitast við að tryggja endanlegan frágang skjala vegna bifreiðaviðskipta. Ákvæðinu er m.a. ætlað að sporna við hinum svokölluðu „opnu afsölum“ sem lengi hafa tíðkast og oft leitt til vandræða, ekki síst vegna opinberrar skráningar bifreiða og réttaráhrifa hennar. Þá þykir eðlilegt að fram komi á afsali hvaða bifreiðasali annaðist samningsgerð. Sérstaklega skal bent á það ákvæði greinarinnar að bifreiðasali skuli annast um að sölutilkynning berist Bifreiðaeftirliti ríkisins. Nú hvílir þessi skylda á seljanda bifreiðar samkvæmt reglugerð um Bifreiðaeftirlit ríkisins. Misbrestur hefur því miður orðið á að seljendur sinni þessari skyldu sinni og þykir því tryggilegast að bifreiðasali annist þetta atriði. Hins vegar þurfa kaupendur eftir sem áður að framvísa sölutilkynningu er þeir umskrá bifreið á sitt nafn.“

7. gr. orðast svo: „Nú hyggst bifreiðasali, bifreiðasalan sjálf eða starfsmenn hennar selja eigin bifreið eða annað skráningarskylt ökutæki í rekstri sínum eða kaupa bifreið eða annað skráningarskylt ökutæki sem þessum aðilum hefur verið falið að annast sölu á og skal þá viðskiptamanni kynnt það sérstaklega og þess jafnframt getið í afsali. Sama gildir um maka bifreiðasala og náin skyldmenni hans.“

Um þetta segir í athugasemdum: „Ákvæði 7. gr. er ætlað að koma í veg fyrir hugsanlega misnotkun bifreiðasala eða starfsmanna hans á aðstöðu sinni. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.“

8. gr. orðast svo: „Þóknun bifreiðasala vegna aðstoðar við sölu bifreiðar eða annars skráningarskylds ökutækis skal ekki fara fram yfir 2% af söluverði ökutækisins en rétt er bifreiðasala að áskilja sér aukalega útlagðan auglýsingakostnað, enda hafi auglýsing verið birt sérstaklega að beiðni seljanda. Sé önnur bifreið eða skráningarskylt ökutæki notað sem greiðsla í viðskiptunum skal seljandi þess ökutækis greiða 1% þóknun vegna sölu þess.“ Þessi grein þarfnast ekki skýringar.

Ill. kafli er um viðurlög.

9. gr. orðast svo: „Brot gegn lögum þessum varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að sex mánuðum. Mál vegna brota á lögum þessum skulu sæta meðferð að hætti opinberra mála.“

10. gr. orðast svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi þau ákvæði laga nr. 61/1979 sem fjalla sérstaklega um bifreiðar eða samrýmast ekki ákvæðum laga þessara að öðru leyti.

Þeim sem við gildistöku laga þessara stunda starfsemi sem lögin taka til er heimilt án leyfis dómsmrn. að reka starfsemi sína til 31. des. 1988.“

Um 10. gr. er þetta að segja: „Samkvæmt 2. mgr. er þeim sem við gildistöku laga þessara stunda starfsemi sem lögin taka til veittur nokkur aðlögunartími vegna breyttrar löggjafar á þessu sviði. Eðlileg sanngirnissjónarmið mæla með þessu ákvæði.“

Herra forseti. Í dagblaðinu Tímanum birtist í gær grein um frv. þetta undir fyrirsögninni: Bílasalar vilja betri útfærslu. Þar kemur fram að Félag bifreiðasala fagnar fram komnu frv., en þeir benda jafnframt á ýmislegt í því er betur mætti fara að þeirra mati og vil ég gera stuttlega grein fyrir athugasemdum þeirra og minni skoðun á þeim.

Í fyrsta lagi sakna þeir að ekki sé kveðið á um löggildingu starfsstéttarinnar. Við þeirri athugasemd er lítið að segja annað en það að ég er ekki neinn sérstakur stuðningsmaður löggildingar hinna ýmsu starfa hinna ýmsu stétta þó ég dragi enga dul á að það á fyllilega rétt á sér undir sérstökum kringumstæðum. Í þessu máli er ég ekki sannfærður og eftirlæt því öðrum að standa fyrir slíku.

Í öðru lagi gerði viðmælandi Tímans, sem er fyrrv. formaður Félags bifreiðasala, athugasemdir við sölutilkynningar sem frv. gerir ráð fyrir. Taldi hann að hér hefðu flm. ekki fylgst með tímanum. Nú væru allir að verða tölvuvæddir og komnir í beint samband við Bifreiðaeftirlitið. Þá gerði hann einnig athugasemd við það að ekki væri gert ráð fyrir tölvueyðublöðum sem nýtast við tölvuafgreiðslu. Við þessu er það að segja að í frv. til laga efast ég um það að rétt sé að tiltaka sérstaklega tegund og gerð eyðublaða. Hins vegar hljótum við ávallt að reikna með að hið opinbera sé í takt við tímann hverju sinni.

Í þriðja lagi eru gerðar athugasemdir við það að bílasalar skuli þurfa að afla upplýsinga um akstur, árgerð og ástand bifreiða sem síðar skuli staðfestar skriflega af seljanda. Þarna er um mjög einfalt mál að ræða og ætti Félagi bifreiðasala ekki að verða skotaskuld úr því að hanna sérstakt eyðublað til útfyllingar þar sem öll helstu atriði varðandi viðkomandi bifreið koma fram. Þarna bera þeir fyrir sig að Bifreiðaeftirlit ríkisins sé ekki tilbúið að útbúa sérstök skráningarskírteini um tjónabíla, flóðabíla o.s.frv. Þetta á ekkert skylt við það sem hér um ræðir þar sem ekki er hægt að ætlast til þess að Bifreiðaeftirlit ríkisins skrái sögu hvers bíls. Það á hins vegar að geta um slíkt ef slíkar upplýsingar eru til staðar við fyrstu skráningu bíls hvort sem hann er fluttur inn nýr eða notaður, en eftir það er ekki hægt að ætlast til þess að það skrái sögu bílsins. Munnleg lýsing á ástandi bifreiða hefur orðið mörgum manninum dýrkeypt að taka trúanlega og því er það mjög mikilvægt að slíkar upplýsingar liggi fyrir hjá viðkomandi bílasala í eitt ár frá sölu, staðfestar skriflega af seljanda.

Í fjórða lagi finnst viðmælanda Tímans fráleitt að ætlast til þess að ættartengsla, ef einhver eru við bílasalann, skuli sérstaklega getið á afsali. Ég skal viðurkenna að mér fannst sjálfum þetta koma spánskt fyrir sjónir, en eftir að minn aðstoðarmaður, sem er bílasali með margra ára reynslu og virtur sem slíkur, og eftir að Félag ísl. bifreiðaeigenda gerðu báðir kröfur um að þetta atriði yrði sett inn í frumvarpsdrögin á þeim rökum að einmitt þarna færi ýmislegt óhreint fram féllst ég á það. Hitt er svo annað mál að þar þarf auðvitað að skilgreina nánar hvað átt er við með nánu skyldmenni, hvað nær það langt eftir ættartrénu og hve langt út í ætt maka. Það mætti hugsa sér að spyrjast fyrir um það hjá viðkomandi deild innan Háskóla Íslands, en ég eftirlæt það öðrum að skilgreina.

Í fimmta lagi mótmæla bifreiðasalar alveg sérstaklega því ákvæði er gerir ráð fyrir að af sölulaunum af svokölluðum skiptibifreiðum, þ.e. bifreiðum sem notaðar eru sem greiðsla upp í aðra, skuli þeir aðeins mega taka hálf sölulaun eða 1%. Ég vil geta þess í þessu sambandi að margir hefðu viljað að um engin sölulaun væri að ræða fyrir skiptibifreið. Það finnst mér hins vegar ekki sanngjarnt vegna þess að oft liggur töluverð vinna að baki slíkum viðskiptum þó sennilega sé hún oftar í minna lagi. Því varð það niðurstaðan að 1% sölulaun skyldu heimiluð fyrir skiptibifreið.

Að lokum kvartaði Félag bifreiðasala yfir því að ekkert samráð skyldi hafa verið haft við þá við undirbúning þessa frv. Ég get alveg tekið undir það sjónarmið, en vil þó segja það flm. til varnar að ég hafði mikið samráð við einn virtasta bílasala landsins. Þar að auki hafði einn af meðflm. mínum einnig samband við stóra bílasölu og sýndi henni frv. og bar undir. Síðast en ekki síst var Félag ísl. bifreiðaeigenda haft með í ráðum strax á fyrstu stigum vinnslunnar. Og til að klára þetta atriði, þá verðum við að sjálfsögðu við óskum Félags bifreiðasala og sjáum til þess að þeir verði boðaðir til umsagnar til viðkomandi nefndar þar sem þeir geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri og hugsanlega komið fram einhverjum breytingum sem allir aðilar geta þá væntanlega sætt sig við.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar eins og hagsmunaaðilar sjálfir að það sé af hinu góða að setja löggjöf um þessa starfsemi. Það þarf ekki að fara fleiri orðum um það. Það þarf ekki að nefna til sérstök dæmi málinu til stuðnings einfaldlega vegna þess að ég tel að hér sé á ferðinni svo sjálfsagt mál að þess eigi ekki að þurfa frekar en ég hef þegar gert í ræðu minni. Vænti ég þess að fleiri hv. þingdeildarmenn séu á sömu skoðun. Þó eflaust megi eitthvað setja út á það held ég að hér sé lagt fyrir þingið nokkuð vel unnið frv. að meginstofni til.

Herra forseti. Ég leyfi mér að fara fram á að að lokinni umræðu verði frv. vísað til hv. allshn. og 2. umr.