16.03.1988
Neðri deild: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5810 í B-deild Alþingistíðinda. (3922)

351. mál, lágmarkslaun

Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. um lögbindingu lágmarkslauna sem er að finna á þskj. 682.

Flm. eru ásamt mér Kristín Einarsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Málmfríður Sigurðardóttir.

Í 1. gr. frv. er kveðið á um að ekki megi greiða lægri laun fyrir 40 klst. dagvinnu á viku en nemur 50 þús. kr. og skuli sú tala breytast í samræmi við breytingar á framfærsluvísitölu.

Lægstu grunnlaun fyrir 40 stunda vinnuviku eru nú um það bil 29 000–31 500 kr. eftir því hvort er miðað við þá kjarasamninga sem verið hafa í gildi undanfarið eða nýgerða samninga aðila vinnumarkaðarins sem reyndar er nú verið að fella unnvörpum. Gildir einu hvor talan er tekin til viðmiðunar. Þessi laun duga ekki til framfærslu. Vera má að fáir vinni eftir þessum töxtum í raun, en þó klifrað sé upp eftir umsömdum launastiga breytist myndin ekki ýkja mikið. Á almennum taxta verða launin hæst 34 200 kr. eftir tólf ára starf hjá sama fyrirtæki. Viðbætur koma svo með löngum vinnudegi, álagi ýmiss konar, vaktavinnu og öðrum þeim ráðum sem fólk hefur til þess að sjá sér farborða. Framfærslukostnaður vísitölufjölskyldu sem telur hjón og 1,66 börn er hins vegar í byrjun febrúar 1988 115 400 kr. og hefur sú tala hækkað nokkuð um síðustu mánaðamót.

Hvað sem líður yfirborgunum af margvíslegu tagi liggur ljóst fyrir að fjölmargir launþegar, þar á meðal stærsti hluti kvenna á vinnumarkaði, hafa innan við 50 þús. kr. á mánuði í grunnlaun og geta því ekki framfleytt sér af afrakstri fullrar dagvinnu. Ómæld vinna, sem óhjákvæmilega bitnar á heilsufari og fjölskyldu viðkomandi, er þess vegna eina leið margra til að láta enda ná saman, þ.e. þeirra sem ekki kikna undan byrðinni og leita á náðir opinberra stofnana með afkomu sína. Í landi þar sem nauðsynjavörur eru dýrar og félagsleg aðstaða að mörgu leyti bágborin, sérstaklega hvað varðar gæslu, umönnun og uppeldi barna, húsnæði dýrt og fáir kostir er ógnvekjandi að dagvinnulaun skuli vera eins lág og raun ber vitni. Slíkt ástand er ekki með nokkru móti verjandi í íslensku velferðarþjóðfélagi.

Samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar 29. des. 1988 hefur kaupmáttur tekna rýrnað um rúm 3% frá síðasta ári. Framfærsluvísitalan hækkaði um 25% á síðasta ári og spáð 15,5% hækkun hennar á þessu ári. Verðhækkanir sem verða í kjölfar gengisfellingarinnar, hækkun þjónustu ýmiss konar og stórfelld hækkun iðgjaldatrygginga bifreiða renna stoðum undir nauðsyn þess að hækka allverulega lægstu laun. Þessar hækkanir auk matarskattsins vega þyngra hjá þeim launalægstu en þeim sem betur eru staddir. Daglega berast fréttir af hækkunum og virðist ekkert lát á.

Að öllu þessu sögðu er ljóst að 50 þús. kr. er engin ofrausn, einungis raunsætt mat á aðstæðum. Viðmiðunin er framfærsla einstaklings. Samtök um kvennalista hafa farið þess á leit við Hagstofu Íslands að reikna út framfærslu einstaklings svipað og nú er gert um framfærslu vísitölufjölskyldu sem eins og áður sagði miðast nú við stærðina 3,66 en minnkar í nýjum útreikningi sem væntanlegur er 1. maí. Þótt Hagstofan hafi sagt að það sé erfiðleikum bundið að reikna út framfærslu einstaklings er það verkefni nú í vinnslu hjá henni, en niðurstaðan ekki væntanleg fyrr en eftir nokkrar vikur. Í ljósi yfirstandandi kjarasamninga þótti okkur ekki stætt á að bíða eftir þeim útreikningum og leggjum við því þetta frv. fram nú.

Hagstofan hefur auk þess bent á að könnun hennar sé fyrst og fremst neyslukönnun og segi því lítið um raunverulega þörf. Þessu hljótum við að vísa á bug því að neysla er endurspeglun á efnahagslegum aðstæðum fólks og fátt sem réttlætir að auðugt þjóðfélag dæmi stóra hópa fólks til að stilla eyðslu sinni í hóf að því marki að það geti ekki veitt sér neitt umfram nauðþurftir.

Árið 1987 hafði hver fjögurra manna fjölskylda að meðaltali 2,2 millj. kr. til einkaneyslu og sýnir þetta meðaltal glöggt hve misskipting auðs og tekna er mikil nú þegar verið er að reyna að fá fólk til að samþykkja árslaun sem nema 400–500 þús. kr. fyrir dagvinnu.

Þetta er í þriðja sinn sem kvennalistakonur leggja fram frv. þessa efnis og að við teljum ekki að ástæðulausu.

Launamál hafa verið mikið til umræðu á hinu háa Alþingi og er það vel. Ástandið er slíkt að ekki er vanþörf á að kjör fólks séu hér oft og ítarlega tekin til meðferðar. Menn greinir ekki á um að þörf sé úrbóta, launabil og launamisrétti sé slíkt að ekki verði við unað. Eitthvað verði að gera. En hvað? Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Það er yfirlýstur vilji ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar að leiðrétting á kjörum hinna tekjulægstu sé eitt af meginverkefnum ríkisstjórnarinnar og ýmis orð um það í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun stjórnarinnar. Hitt er aftur óljósara með hverjum hætti það skuli gert.

Í stjórnarmyndunarviðræðum sl. vor voru þessi mál í brennipunkti því við kvennalistakonur gerðum það að skilyrði fyrir stjórnarþátttöku að tekið yrði á tekjuskiptingunni af fyllstu alvöru, vildum gerðir í stað orða. Um niðurstöður þeirra viðræðna þarf ekki að fjölyrða. Þær þekkja allir. En því er þetta frv. flutt einu sinni enn að okkur virðist einmitt orð en ekki gerðir ráða ferðinni nú sem áður og á það við um fleiri en ríkisstjórnina.

Aðilar vinnumarkaðarins virðast hafa gefist upp á því að finna leiðir til að minnka launbil og lyfta þeim neðstu verulega þrátt fyrir yfirlýsingar um að það eigi að vera forgangsverkefni. Og gamla tuggan „lengra komumst við ekki að sinni“ er nú tuggin sent endranær.

Það er alþekkt að þegar ekki tekst að leysa hnúta verður að höggva á þá. Þetta frv. er tilraun til þess, tilraun til að knýja á um nýjar leiðir þegar þær gömlu reynast ófærar.

Hér var lögð fram á dögunum tillaga um launabætur. Flm. hennar, hv. 16. þm. Reykv. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, lýsti því yfir þá og talar sjálfsagt af biturri reynslu að hún teldi ekki aðrar leiðir færar.

Okkur kvennalistakonum þykir þetta fullmikið uppgjafarhljóð. Því á hið opinbera að koma til hjálpar með þessum hætti? Eigum við að ákveða í eitt skipti fyrir öll að atvinnuvegirnir vilji ekki eða geti ekki staðið undir því að greiða fólki bærileg dagvinnulaun? Þarf fullfrískt vinnandi fólk að kyngja því að vinna þess sé ekki meira virði en svo að það þurfi að koma til opinberir styrkir? Það hefur ekki verið fullreynt að knýja fram hækkun grunnlauna, ef ekki með góðu, þá með illu, þ.e. valdboði. Lögbinding hækkunar grunnlauna mundi knýja atvinnurekendur til að draga úr yfirbyggingu og milliliðakostnaði og hvetja til sparnaðar, hagræðingar og endurskipulagningar. Þeir yrðu að halda niðri launum þeirra hærri til að mæta kostnaði af grunnkaupshækkunum, launajöfnun í verki.

Um kostnað, ef þetta frv. næði fram að ganga, er erfitt að fullyrða. Óyggjandi upplýsingar liggja ekki á lausu um raunveruleg kjör fólks og hverjar tekjur eru í raun og veru. En líkur benda til að það séu um 3–5% af launafúlgunni allri sem þetta mundi kosta. Það ber að hafa það í huga að ef fólk fengi hærri laun, þ.e. hærri grunnlaun fyrir dagvinnu, er líklegt að drægi úr ásókn í eftirvinnu og álag ýmiss konar og því ekki víst að raunveruleg útgjaldahækkun atvinnuvega yrði eins mikil og ætla mætti við fyrstu athugun. Fólk reynir að bæta sér upp lág dagvinnulaun með ýmsum hætti, löngum vinnudegi, miklu álagi, bónus og ýmsum öðrum þáttum eða hverjar þær leiðir eru sem hver og einn finnur sér til bjargar. Yfirborganir af ýmsu tagi eru einnig alþekktar þó þær séu e.t.v. ekki algengasta leiðin til að bæta hag þeirra tekjulægstu.

Það var haft eftir einum fulltrúa atvinnurekenda í fjölmiðlum í gær að launþegar hefðu alið með sér vonir sem ekki væru raunsæjar, látið sig dreyma, sagði hann. Eru það nú glæstir draumar að láta sig dreyma um að geta séð sér farborða? Er það óraunsæi að fara fram á það? Er hitt ekki miklu fremur í ætt við drauma að ætla sér endalaust að kaupa vinnuafl svo ódýrt sem raun ber vitni? Jaðrar það ekki við óraunsæi? Auk þess veifaði hann verðbólguhótunarsvipunni gömlu. Ekki er þeirri svipu sveiflað þegar verið er að tala um yfirborganir, undir borðið borganir, bílastyrki, óunna yfirvinnu, símastyrki, forstjóralaun, risnu og þess háttar sem koma í hlut þeirra sem efstir eru í launastiganum, að ég tali ekki um þá sem þurfa enga umsamda stiga. Nei, enn og aftur er það láglaunafólkið sem ber ábyrgðina á allri óáran, þeir sem launaskriðið fór yfir eins og skriða sem þeir grófust undir.

Er nú víst að það að gera fólki kleift að lifa af dagvinnu sé mesta ógnunin? Ef þeim hækkunum sem leiddi af lögbindingu lágmarkslauna yrði hleypt óheft upp stigann er ljóst að verðbólga þyti af stað og það er einmitt mergurinn málsins. Það verður að koma í veg fyrir að svo verði. Einmitt í þeim tilgangi flytjum við kvennalistakonur einnig þáltill., sem tengist þessu frv., þar sem kveðið er á um samstarfshóp fulltrúa þingflokka og aðila vinnumarkaðar sem falið er að finna leiðir til að tryggja jákvæðan árangur lágmarkslaunabindingar. Okkur er fullljóst að það verður að gerast í fullu samráði við alla. Það verður að koma til hugarfarsbreyting. Það verður að nást samkomulag innan verkalýðshreyfingarinnar um hvar á að stoppa. Minnkandi krónutöluhækkun upp að einhverju ákveðnu marki og ekkert þar fyrir ofan.

Höfða verður til allra, bæði samtaka og einstaklinga, um að axla þá siðferðilegu ábyrgð að leggja sitt af mörkum til að jafna þann launamun og það misrétti sem nú viðgengst. Hver og einn verður að líta í eigin barm og spyrja: Hef ég nóg eða gæti ég e.t.v. komist af með minna? Það er ljóst að stækki sú hin fræga og margétna þjóðarkaka ekki verður að skera sneiðarnar með nýjum hætti. Allar kannanir, tölur og staðreyndir sanna fyrst og fremst að það eru konur sem mundu njóta góðs af lögbindingu lágmarkslauna, en vert er að taka fram að við kvennalistakonur sjáum ekki ofsjónum yfir þeim körlum sem einnig nytu góðs af. Hafi þeir deilt kjörum með konum þurfa þeir sannarlega leiðréttingu líka.

Konum hefur reynst mjög örðugt að ná rétti sínum. Þær hafa reynt ýmsar leiðir, en mála sannast er að hefðbundnar leiðir hafa ekki reynst þeim sem skyldi sem er e.t.v. skiljanlegt í ljósi þess að það er einmitt hefðin sem stendur þeim oft fyrir þrifum. Mat á hefðbundnum kvennagreinum er birtingarmynd hefða. Hráefnisvinnsla, uppeldis-, umönnunar- og þjónustustörf, sem eru þau störf sem konur fylla, eru framhald af þeim störfum sem þær áður unnu ólaunuð inni á heimilum. Því virðist erfitt að ná fram þeirri hugarfarsbreytingu að nú skuli þau launuð og það sambærilega við hefðbundin karlastörf.

Konur eru fyrirvinnur ekki síður en karlar og líklega oftar en þeir eina fyrirvinna heimilis. Þær leggja mikið af mörkum til að halda gangverki þjóðfélagsins í gangi. Meira að segja kom í ljós að hagvöxtur undanfarinna ára tengdist að miklu leyti aukinni atvinnuþátttöku kvenna þó þær nytu þess ekki í verki. Því geri ég hefðina hér að umræðuefni, virðulegi forseti, að oftar en ekki hafa konur og aðrir hópar sem eiga undir högg að sækja þurft að brjóta af sér hefðir til að ná árangri í baráttu fyrir betra lífi, þurft að leita óhefðbundinna leiða. Löggjafinn sem staðið hefur að ágætis löggjöf um jafnrétti á öllum sviðum, líka hvað varðar laun, verður því að grípa inn í þegar lög ná ekki tilætluðum árangri og leita óhefðbundinna og e.t.v. tímabundinna leiða.

Konur eru nú öðrum fremur að sýna í verki að þær ætla ekki að taka niðurstöðum kjarasamninga. Þær eru að leita nýrra leiða og þær munu ekki hætta þeirri leit einfaldlega vegna þess að þær hafa ekki efni á að hætta henni eða leggja niður laupana. Heilbrigð skynsemi segir þeim að þær eigi að geta borið meira úr býtum og réttlætiskennd þeirra bannar þeim að sæta sífelldu vanmati. Þeim er e.t.v. í auknum mæli að skiljast að vanmat á vinnu þeirra er um leið og kannski öllu fremur vanmat á þeim sjálfum.

Virðulegi forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að minna einu sinni enn á að við kvennalistakonur höfum marglýst okkur reiðubúnar til að ræða allar leiðir til að ná settu marki og marglýst eftir hugmyndum. Þær hafa að okkar mati ekki komið fram. Frv. er í raun neyðarráðstöfun þar sem það á að vera hlutverk aðila vinnumarkaðarins en ekki Alþingis að sjá til þess að full dagvinnulaun nægi einstaklingi til framfærslu. En þegar aðilar vinnumarkaðarins bregðast þessu hlutverki sínu getur Alþingi hins vegar ekki setið hjá aðgerðarlaust. Því er hér lagt til að Alþingi hækki einhliða lægstu launin í landinu og tryggi þau sjálfsögðu mannréttindi hvers vinnandi manns að geta framfleytt sér af afrakstri fullrar dagvinnu.

Virðulegi forseti, ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og til hv. fjh.- og viðskn.