16.03.1988
Neðri deild: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5825 í B-deild Alþingistíðinda. (3926)

351. mál, lágmarkslaun

Árni Johnsen:

Herra forseti. Hugmyndin um hærri lágmarkslaun er góð, mjög góð, en hugmyndin um þá aðferð, sem hér er fjallað um, er óraunhæf, því miður. Hún er óraunhæf vegna þess að það er ekki hugsað til enda. Á þeirri leið að hækka lægstu laun í landinu eru margir þröskuldar sem margir hafa barist við, margir talsmenn launafólks, margir talsmenn almennra framfara í landinu, og það þýðir ekki að koma eins og töfralæknir og segja: hókus, pókus, hér kemur það. Því miður er tillaga kvennalistakvenna á þann hátt lögð fram.

Það hefur komið fram í máli hv. flm. að fullt samráð þurfi að vera um hækkun lágmarkslauna. Þar með er borin von að það gangi að hrinda hækkun lágmarkslauna fram með einhliða aðgerð í lagasetningu. Það er með ólíkindum að stillt sé upp dæmi á þennan hátt.

Ég þurfti einu sinni í flugvél sem bilaði og varð að lenda óvænt við erfiðar aðstæður í fámennu sjávarplássi hér á landi. Með í vélinni var maður sem hafði ekki verið mikið úti á landsbyggðinni. Þegar við vorum lent og komin út úr vélinni og hann horfði yfir þessa litlu, vinalegu byggð sagði hann: „Og hér býr líka fólk.“

Málið snýst nefnilega um það að við erum að fjalla um fólk í þessu landi. Við erum að fjalla um stöðu hóps fólks sem býr við of lág laun. Mér finnst til skammar að kvennalistakonur skuli bjóða upp á það sem viðmiðun að lágmarkslaun skuli aðeins vera 50 þús. kr. Hvaða framtíðarsýn hafa kvennalistakonur að bjóða upp á það skitirí að lágmarkslaun séu 50 þús. kr.? Menn skyldu hugsa hærra því að við erum að hugsa og vinna fram í framtíðina. Svona hókus pókus uppstillingar eru ekki málum til framdráttar.

Þetta er tyggigúmmítillaga því hún býður upp á vitlausa uppsetningu, fullt samráð en einhliða aðgerð. Hvað varð þá af samráðinu sem byggist á frjálsum samningsrétti í landinu? Hvers lags rök eru þetta? Þorri Íslendinga býr sem betur fer við góð kjör miðað við allar nágrannaþjóðir okkar, hvað þá aðrar sem verr eru staddar í heiminum. Það vandamál sem við erum fyrst og fremst að tala um á við það fólk sem býr við hina svokölluðu strípuðu taxta. Grunnlaunin þar sem engin von er í yfirvinnu, aukavinnuyfirborgun, bónus eða öðrum þáttum sem hækka útborguð laun miðað við þau laun sem eru grunnlaun á blaði.

Fiskiðnaðarfólk landsins, konurnar fimm þúsund, búa að hluta til í dag við þrælaaðstöðu í vinnu. Þær ná að hækka sín laun upp fyrir 31 þús. en þær búa við aðstöðu og vinnuálag sem er ekki sæmandi í okkar landi. Menn eiga að kalla hlutina því sem þeir eru og það er á þessum sviðum sem við eigum að berjast án þess að vera að bjóða upp á einhver yfirboð og gyllitillögur, sýndarmennsku. Það er mál flestra manna í þessu landi að lágmarkslaun séu of lág, en samt taka menn ekki af skarið og samt vitum við að við verðum að berjast til þess að ná samkomulagi, ekki einhliða aðgerðum. Þær ganga ekki upp. Vald hinna ýmsu aðila á vinnumarkaði er það mikið að stjórnvöld ráða ekki við slíkt, ekki einu sinni hið háa Alþingi.

Launamisréttið í landinu er óheyrilega mikið og það er alveg rétt sem sagt hefur verið hér og síðasti hv. ræðumaður vék að. Launamisréttið frá 31 þús. og upp í 100 þús. stenst ekki. Auðvitað erum við sammála um meginkjarnann í þessu efni. Auðvitað viljum við öll vinna að því að rétta þennan hlut, en það gengur ekki að segja: Ég veit ekki hvað það kostar. Það gengur ekki að segja: Við skulum ákveða það og framkvæma, svo skulum við seinna sópa undan teppinu og gá hve vandinn var mikill og hvað hann kostaði. Það eru ekki skynsamleg vinnubrögð og það eru ekki vinnubrögð sem hægt er að bjóða upp á þegar rætt er um slíkt alvörumál sem launamisréttið í landinu er.

Verðbólgusvipan er raunverulegur þáttur í okkar þjóðfélagi og við ættum að hafa lært af langri reynslu að við verðum að taka mark á þeirri svipu. Hvort hún er misnotuð eða ekki í kringum kjarasamninga getur verið álitamál. Verðbólgusvipan er hins vegar ein sú ástæða sem veldur því að menn verða að hugsa til enda og geta ekki notað hókus pókus aðferðina. Það er dónaskapur við það fólk í landinu sem býr við lægst launin. Grundvallaratriðið er að standa saman um það að berjast fyrir skilningi í þá átt að menn séu tilbúnir til þess að vinna að einu marki með samráði og samkomulagi um það að minnka launabilið, launamisréttið sem er í landinu, blákaldur veruleiki í hópi þess fólks sem býr við strípuðu taxtana fyrst og fremst. Vilji er ekki allt sem þarf í þessu efni með einhliða aðgerð. Sameiginlegur vilji er allt sem þarf og hann hefur ekki verið til staðar og hann verður ekki búinn til með einhliða aðgerð eða lagasetningu á Alþingi.

Það hefur stundum borið við þegar menn gagnrýna málsmeðferð hinna góðu hugmynda, því að vissulega er þetta góð hugmynd, að þeir sem hafa mælt fyrir þeim fýla grön. Ef einhver veit ekki hvað það þýðir að fýla grön er það ólundarsvipur. En góðu málin kosta yfirleitt peninga og þess vegna er óþarfi að hafa slíka hluti í flimtingum. A.m.k. er það ekki sú aðferð sem ég þekki til hjá því fólki sem vinnur við grunnvinnuna í landinu, fiskiðnaðinn. Það er nefnilega töluvert langt bil á milli sjávarplássanna og þjónustustaðanna sem búa við allt aðrar aðstæður. Og það er ekki aðeins þessi launamunur á milli kynja sem er of mikill, launamunur á milli karla og kvenna. Það er líka launamunur á milli landshluta og það er ekki síður alvarlegt mál þegar við erum að horfa til þess að það er mikilvægt fyrir uppbyggingu landsins að menn búi við jafnan rétt, jafna aðstöðu. Það er mismunandi orkuverð í okkar landi. Það er hagkvæmara og ódýrara að setja upp fyrirtæki þar sem orkuverðið er lægra en þar sem það er hærra. Það segir sig sjálft. Um leið mismunar það landsmönnum í mörgu tilviki.

Það má endurtaka það og undirstrika að hugmyndin um hækkun lágmarkslauna er góð og ég er sannfærður um það að allir eiga þá ósk að hún megi verða að veruleika. En vandamálið er að setja fram hugmynd sem er framkvæmanleg. Ef maður setur fram eitthvað sem er draumsýn þá á maður að hafa það með reisn en ekki með 50 þús. kr. viðmiðun sem auðvitað engin venjuleg fjölskylda í landinu í dag getur lifað af, hvorki í Reykjavík né annars staðar á landinu, ef við erum að tala um þá almennu viðmiðun sem fólk vill miða við í lífi sínu og starfi, ef við tökum hinn almenna kostnað í fjárfestingu húsnæðis, fæði, klæði og öðru sem nauðsynlegt er í daglegu lífi. Því miður er ekki hægt að standa við bakið á þessari leið vegna þess að hún er ekki nema spor. Hún er ekki nema annar fóturinn á lofti.