16.03.1988
Neðri deild: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5829 í B-deild Alþingistíðinda. (3928)

351. mál, lágmarkslaun

Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls í umræðu um þetta frv., en vil taka nokkur atriði sem þar komu fram til frekari umræðu.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. talaði um að aðalvandinn væri að minnka launabilið. Nú er ég í sjálfu sér sammála hv. þm. að launabilið er vissulega vandamál, bæði vegna þess að það sogar fé of mikið í aðra áttina þannig að minna verði til skiptanna fyrir þá sem rétt sinn þurfa að sækja, og eins vegna þess að það ýtir undir bæði misrétti og óhagstæðan samanburð sem auðvitað ýfir fólk, jafnvel þá sem má með nokkrum rökum halda fram að hafi nóg til framfærslu, það ýfir þeirra tilfinningar líka þannig að þeir vilja sækja meira. Þannig að launabilið hefur marga annmarka.

En vandinn er tvíþættur. Það er ekki bara launabilið. Það leysir nefnilega ekki vanda þeirra sem neðst eru staddir því að þeim kemur ekki til góða að launabil minnki nema það sé markvisst notað til þess að hækka lægstu launin. Miklu nærtækari vandi hvers og eins er auðvitað tekjur sem hann fær hverju sinni og hvernig honum tekst að lifa af þeim en ekki það hvað aðrir hafa. En auðvitað er minnkun launamunar annað af höfuðmarkmiðum þessa frv., þ.e. annars vegar að lyfta lægstu launum og hins vegar að sú aðgerð verði til þess að draga úr launamun.

Hv. þm. tók svo til orða að hér væri um einhverja tölu að ræða. Þetta er nú nokkuð ómaklega orðað vegna þess að það má með mörgum rökum fullyrða að þessi tala liggi einhvers staðar nærri framfærslu einstaklings sem er sú viðmiðun sem við höfum lagt til grundvallar þessari tölu. Hann talaði sjálfur um skattleysismörk sem eru núna u.þ.b. 42 þús. og verða um 49 þús. þegar kemur að lokum þessa árs. Það eru ein rök t.d. Í þáltill. alþýðubandalagsmanna, sem liggur nú á borðum þm., eru sambærilegar tölur lagðar fram, þ.e. 45–55 þús. Við þykjumst nú hafa aðeins leitt hugann að því hvað fólk þurfi sér til framfærslu, getum þar miðað bæði við eigin reynslu og annarra, það sem við sjáum í kringum okkur, og eins framfærsluvísitölu þá sem liggur fyrir sem tekur mið af vísitölufjölskyldunni. Hún mun núna vera tæpar 120 þús. kr. og er til framfærslu 3,66 einstaklinga. Það er alltaf einkennilegt að taka svona til orða um einstaklinga, að þeir greinist í hluta.

Það vita allir að það má með nokkrum rökum halda því fram að dýrara sé að framfleyta sér sem einstaklingur en þar sem um sameiginlegan búrekstur er að ræða. Þar sem það er þekkt staðreynd í dag að á flestum heimilum eru tvær fyrirvinnur, a.m.k. öllum heimilum sem þurfa á því að halda, ættu tvenn 50 þús. kr. laun að duga nokkurn veginn ásamt þeim barnabótum sem til féllu. Þar með væri búið að ná þessu lágmarki. En það ber auðvitað að ítreka það að þetta er einungis lágmark og er ekki til þess að staldra við sem tölur sem megi ekki hreyfa sig frá.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. ræddi einnig um að atvinnurekendur ættu einnig að hafa áhuga á að leysa þennan vanda. Þessu erum við hjartanlega sammála og höfum þess vegna lagt fram tillögu þess efnis að þeir verði hafðir með í ráðum á þann hátt að þeir síðan geti ekki vikist undan ábyrgð, þ.e. ef eitthvert svona frv. næði fram að ganga eða viðlíka tillögur yrðu aðilar vinnumarkaðarins að setjast niður og ræða um afleiðingar þess og hvernig mætti koma í veg fyrir að það hlypi upp launastiga og yrðu þá að standa ábyrgir fyrir þeim ákvörðunum og yrðu að hafa þann styrk að þeir stæðu í móti ósanngjörnum kröfum annarra til þess að halda launabilinu óbreyttu.

Áður en ég hverf alveg frá hv. 4. þm. Norðurl. e. get ég ekki látið hjá liða að geta þess, vegna þess að hann gerði þáltill. sem liggur hér á borðum þm., þáltill. fram komna frá Alþb., að umræðuefni, kannski öllu meira að umræðuefni en frv. sem hér er til umræðu, að ég vona að sú þáltill. eigi eftir að koma betur til umræðu auðvitað en get þó ekki stillt mig um að minnast á að vissulega höfum við kvennalistakonur oft hugleitt þessa aðferð, þ.e. að binda lágmarkslaun á einhvern hátt hámarkslaunum á þann hátt að það verði til þess að minnka það bil og viðhalda hlutföllunum. Við höfum aftur á móti séð þann annmarka á slíku kerfi að það eru einmitt hæstu launin sem erfiðast er að fá vitneskju um, erfiðast er að ná utan um. Þau eru bæði ljós og leynd, þ.e. það hvað menn fá þá í beinhörð laun er oft og iðulega víðs fjarri þeim launum sem þeir raunverulega hafa. Hvernig á að komast að því er mér ekki ljóst, en vissulega er margt, að mér sýndist við fyrstu yfirsýn, athyglisvert í þessari till. og munum við auðvitað ræða hana af fyllstu sanngirni þegar þar að kemur.

Hv. 1. þm. Vestf. fann sig knúinn hér um daginn þegar þáltill. hv. 16. þm. Reykv. var til umræðu, þ.e. um launabætur, til að fara hér í stólinn þar sem hann upphóf fyrst tölur um skemmtanafíkn og ferðalög Íslendinga sem hann taldi til marks um það að hér hefði fólk nóg milli handanna. Náttúrlega hafa bæði hann og aðrir bent á það að vissulega eru margir sem hafa nóg að bíta og brenna og vel það og eru það engar fréttir fyrir okkur kvennalistakonur. En í framhaldi af því fór hann svo að tala um mikinn árangur sem hefði náðst í samningum á Vestfjörðum. Þegar hann svo loks opinberaði okkur hver árangurinn í raun væri, hvað þessi nýi hlutaskiptabónus í raun gerði þegar upp úr umslaginu væri tekið, honum tókst að gera aðdragandann að þeirri uppljóstrun svo spennandi að maður bjóst við miklum fregnum og stórum af launum. En þegar þar kom í máli hans reyndist það vera 50 þús. kr. eða eins og hann sagði sjálfur um það bil 12 þús. kr. á viku, það vill segja, sagði hann, rétt um 50 þús. kr. á mánuði. Það var nú öll dorran. Þarna erum við komin að þeirri tölu sem við viljum að fólk fái fyrir unna dagvinnu og þar sem hann lýsti ítrekað eftir því um hvað væri verið að tala og hvað væri verið að lögbinda og hvar ætti að stoppa væri mér skapi næst að benda honum bara á að lesa en ætla samt ekki að telja eftir mér að gera það fyrir hann. 1. gr. hljóðar svo:

„Óheimilt er að greiða lægri grunnlaun fyrir 40 dagvinnustundir á viku en sem nemur 50 þús. kr. á mánuði miðað við framfærsluvísitölu 1. mars 1988. Þessi lágmarkslaun breytast á þriggja mánaða fresti í samræmi við breytingar á vísitölu framfærslukostnaðar.“ Þar með vona ég að ljóst sé hvað er verið að biðja um að sé bundið og fyrir hvað. Við erum ekki með inni í þessari tölu yfirvinnu, næturvinnu, vaktavinnu eða bónus, hvort sem hann kann að vera hlutaskiptabónus eða af hverju tagi sem hann er. Þetta eru grunnlaun fyrir 40 dagvinnustundir á viku.

Það má vel vera að þetta sé einföld lausn. Á móti má hins vegar segja að vandinn sé líka einfaldur, þ.e. einfaldleiki hans er líka ljós. Komum við þá að veruleikanum sem hv. 1. þm. Vestf. gerði að umræðuefni hér áðan. Þetta var vissulega spaklega mælt með aumingja veruleikann og það er einmitt þessi aumingja veruleiki sem fólk er að takast á við og sem verið er að reyna að leysa að litlu marki með þessu frv. um lágmarkslaun.

Honum varð einnig tíðrætt um samningsréttinn, þessi helgustu mannréttindi vestrænna lýðræðisþjóðfélaga, ef ég man rétt, grundvallarréttindi hins lýðræðislega þjóðfélags. Við erum ekki að draga úr þeim rétti að neinu marki nema einungis með þeim hætti að takmarka þann rétt, þ.e. þegar kemur til hversu langt má sellast niður með samningsrétti. Það er ekkert sem í frv. eða grg. eða þáltill. sem er meðfylgjandi sem ýjar að því að skerða samningsrétt fólks að öðru leyti. Það er ekkert sem skerðir rétt fólks til þess að semja um hærri laun en þarna er kveðið á um. (Gripið fram í: Og aukið launabil?) Semja um aukið launabil? Þetta frv. kemur náttúrlega ekki í veg fyrir að samið verði um aukið launabil, nei. Það er ekki markmið þessa frv. Markmið þessa frv. er að tryggja rétt fólks til lágmarkslauna. Það tekur ekki á því hvernig hagast svo til í samningum. En auðvitað gerum við okkur grein fyrir því og við höfum margbent á það, og værum þakklátar ef okkur væri ekki aftur og aftur bent á að við hefðum ekki bent á það, að hlaupi þessi launahækkun óheft upp launastigann leiðir það auðvitað af sér víxlverkun verðlags og launa og verðbólgu. Þess vegna höfum við ítrekað talað um að á því máli verði að grípa. Við gerum okkur alveg ljóst að á því máli er ekki hægt að grípa með lögbindingu nema skerða allverulega og alvarlega rétt til samninga. Þess vegna er eina leiðin sem við komum auga á að það gerist í fullu samráði allra þeirra sem að samningum standa. Við gerum okkur líka ljóst að það er ekkert einfalt mál. En meðan menn ekki geta bent á aðrar leiðir notum við þessa leið og höfðum til siðferðiskenndar fólks, þ.e. að hver einasti sæmilega þenkjandi Íslendingur sjái ekki ofsjónum yfir því að þeir sem verst staddir eru í þessu þjóðfélagi fái skikkanlegar úrbætur sinna mála. (Forseti: Ég vil benda hv. ræðumanni á að nú er fundartími deildarinnar liðinn. Þar sem fleiri eru á mælendaskrá er sýnt að umræðunni þarf að fresta. En ég mun gefa henni tækifæri til að velja um hvort hún lýkur máli sínu eða frestar því til framhaldsumræðunnar.) Ég held að ég kjósi, herra forseti, að fresta því þar til málið verður aftur tekið til umræðu því að enn er margt ósagt.